Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Á faglegum nótum 6. mars 2019
Erfðaframfarir með nýju erfðaefni af Angus – fyrsti hluti
Höfundur: Jóna Þórunn Ragnarsdóttir ráðunautur í fóðrun, jona@rml.is
Nú þegar fyrstu Angus-kálfarnir á Stóra-Ármóti eru að nálgast hálfsárs aldurinn er rétt að minna holdakúabændur á mikilvægi þess að nýta þetta nýja erfðaefni á sem bestan hátt.
Alla jafna nota menn þarfanaut í hjarðir sínar og lítið er um að holdakýr séu sæddar með sæði af holdastofnum vegna skorts á aðstöðu og vandkvæða við beiðslisgreiningu. Fanghlutfall við sæðingar á holdakúm á Íslandi er því alla jafna mjög lágt. Hvernig bætum við frjósemina til að nýta nýja erfðaefnið og sæðingar sem best?
Árangur við sæðingar holdakúa á Íslandi hefur oft verið lélegur og því hafa margir gripið til þarfanautsins.
Tamning hjarðarinnar út frá náttúrulegu atferli
Tamning holdakúa felur ekki í sér að lónsera, venja við hnakk og laumast á bak, heldur venja gripina við daglega umgengni og meðhöndlun við ormalyfsgjöf, sæðingar, merkingar og flokkun gripa í ólíka hópa. Góð aðstaða til meðhöndlunar er lykilatriði. Hér skiptir góð rétt, flokkunargangur og tökubás mestu máli. Best er að fá gripina inn í réttina að eigin frumkvæði t.d. með því að lokka þá á eftir sér inn í rétt með kjarnfóðurfötu eða heytuggu. Nautgripir eru forvitnir að eðlisfari, en einnig flóttadýr og læra því ekkert sé þeim ógnað eða ef þeir spennast upp af adrenalíni í blóðinu. Hægt er að hugsa sér að nota réttina sem fóðrunaraðstöðu hluta úr ári með læsigrindum til að venja þá við að láta læsa sig fasta við sæðingar, fangskoðun eða aðra meðhöndlun, en þá verður líka að umbuna þeim með kjarnfóðurgjöf.
Nautgripir leita alltaf til baka til uppruna síns. Þannig er hægt að nota eðli þeirra þegar gripir eru flokkaðir. Séu þeir reknir inn í rétt til suðurs vilja þeir alltaf leita til baka til norðurs, þannig er t.d. gott að reka kálfa á bíl til norðurs aftur. Allar sveigur og beygjur í flokkunarkerfi skulu vera ávalar og mjúkar því nautgripir eru stirðbusar sem eiga t.d. erfitt með að ganga fyrir horn. Leitast skal við að hafa alla aðstöðu lárétta án stalla eða breytinga á undirlagi sem getur fælt eða dregið úr því að gripirnir gangi yfir þær. Augu nautgripa eru staðsett það utarlega á höfði þeirra að þeir hafa frekar lélega dýptarskynjun og verða því að fá langan tíma til að átta sig á mishæðum og misfellum fyrir framan sig.
Eins þurfa hliðar réttar og flokkunaraðstöðu að vera lokaðar svo ekki sjáist vel út, nema þá að ofanverðu (í eða ofan augnhæðar gripanna). Þannig drögum við úr því að umhverfið trufli gripina, t.d. sé verið að bakka með kerru að tökubás eða þess háttar „óvenjulegri“ umferð.
Holdstig við sæðingar
Holdstig kúnna okkar og fóðrun eftir burð skiptir mjög miklu máli fyrir gæði eggjanna sem losna þegar við ætlum að koma í þær kálfi, og þar með fanghlutfalli hjarðarinnar. Leggi kýrnar mikið af eftir burð dregur það úr gæðum eggjanna og fanghlutfallið lækkar. Kýrnar eru í hættu á að seinka næsta burði eða jafnvel halda ekki leggi þær meira af en sem nemur hálfu holdstigi. Þarna skiptir sumarhaginn og viðbótarfóðrun miklu máli. Kálfurinn sýgur mikið fyrstu mánuðina sem veldur því að kýrnar leggja af hafi þær ekki nógu góða beit. Gott er að miða við að hæð beitargróðurs sé a.m.k. þverhandarbreidd og þumallengd að auki þegar þörfin er hvað mest. Gangi kýrnar á beitina getum við reiknað með að tapa kúm yfir á seinni gangmál en hagstætt þykir.
Holdakýr liggja niðri eftir burð
Hormónaáhrif vegna þess að kálfurinn gengur undir valda því líka að kýrnar festa síður fang og slíkt er erfitt að hafa áhrif á. Það er ekki hið neikvæða orkugap sem verður við það að kýrnar séu sognar sem veldur því að beiðsli liggi niðri eftir burð, heldur hin flókna hormónastarfsemi sem viðhelst þegar kálfurinn sýgur. Ekki ólíkt þeirri mýtu um að konur með barn á brjósti geti ekki orðið óléttar aftur.
Tilraunir með að skilja kýr og kálfa að í 48 tíma hefur reynst vel til að koma egglosi af stað hjá kúnum. Þá fer af stað stutt gangmál sem mætti nýta eða bíða þá eftir því næsta sem er í eðlilegri lengd. Þetta er ekki ólíkt folaldsgangmáli hjá hryssum sem margir nýta. Á móti má svo spyrja, hvað tapast mikill vöxtur hjá kálfunum fái þeir ekki móðurmjólkina og tengslin við móður þessa 48 tíma? Sú aðferð að venja kálfana á auka kjarnfóðurgjöf strax við fæðingu gæti komið sterk inn, en þá er kjarnfóður gefið í frjálsu aðgengi fyrir kálfana á stað þar sem mæðurnar komast ekki að. Þetta gæti verið t.d. hæðarslá, mjótt hlið eða þess háttar hindrun inn í gerði eða skýli. Kjarnfóðrið þarf að vera lystugt og það verður að vera hægt að útiloka ágang fugla í fóðrið. Jafnvel mætti bæta inn einstefnuhliði við þetta kerfi þegar „veiða“ á kálfana og taka þá undan þegar líður á haustið?
Beiðslisgreining
En hvernig greinum við beiðslin á sem bestan hátt? Gott eftirlit þrisvar á dag skilar árangri, að morgni, rétt eftir hádegi og að kvöldi skal gá að beiðslum. Að skrá hjá sér öll beiðsliseinkenni í góða dagbók til þess að nota við sæðingar á næsta gangamáli er lykilatriði. Gangmáladagatal er líka mjög heppilegt hjálpartæki, þó það sé ekki í heppilegu broti þegar maður er úti í haga að eltast við kýr. Blóð getur lekið frá skeiðinni 1-2 daga eftir hábeiðsli og það er besta tákn þess að kýrin hafi verið að beiða. Þá skal leita að beiðsliseinkennum 16-20 dögum síðar.
Gott er að vera með góðan kíki séu kýrnar í stóru hólfi, og þá þarf að vera búið að fjarlægja hárbrúskinn úr eyrunum á þeim svo eyrnamerkin sjáist séu þær margar og bóndinn ekki glöggur á sínar kýr. Fátt er eins róandi eins og að sitja úti með góðan kaffibolla og fylgjast með kúnum, fyrir utan að það skilar okkur tekjum!
Sæðingar
Þegar kemur að sæðingu borga rólegheitin sig. Kýrnar þarf að reka saman í rólegheitum, þær þurfa að þekkja sæðingamanninn á rólegheitum sínum og helst á allt að fara fram eins og í góðri messu, hægt og hljótt. Að hitta á réttan tíma getur verið flókið. Alla jafna varir hábeiðslið 18 klst. hjá mjólkurkúm en reikna má með að það sé styttra hjá holdakúm. Fyrstu beiðsliseinkenni kúnna koma 1-3 dögum fyrir hábeiðsli, en þá eru kýrnar órólegri og betur vakandi fyrir umhverfinu en í annan tíma, leita frekar eftir snertingu við aðra gripi, skapabarmar eru þrútnir og frá þeim lekur jafnvel gráleitt slím. Of snemmt er að sæða á þessum beiðsliseinkennum, ekki er óhætt að sæða fyrr en sést að kýrnar standa undir öðrum. Besti tími til sæðinga er þegar slím frá skeið er orðið glært og í því myndast loftbólur.
Árangur við sæðingar holdakúa á Íslandi hefur oft verið lélegur og því hafa margir gripið til þarfanautsins. Rétt er að impra á því að halda kúnum á stuttu tímabili og reyna þannig að gera burðartímabilið stutt. Gott er að miða við að fengitími holdakúnna sé ekki lengri en 9 vikur og hjá kvígum ekki lengri en 6 vikur. Nautið á líka stóran þátt í frjóseminni og sé hann illa fóðraður, lítill eða með lítil og óþroskuð eistu eru ekki miklar líkur á að fá marga kálfa árið eftir. Vanda verður valið á því nauti sem á að nota og leitast við að hann sýni góða vaxtargetu og sé skapgóður.
Nokkur viðmið fyrir frjósemi holdakúa
-
95% fanghlutfall, því fleiri kálfar skila meiri tekjum.
-
65% kúnna beri á fyrstu 3 vikum burðartímabils (fengnar á fyrsta gangmáli), því þéttur burður minnkar vinnuliðinn, dregur úr vaxtarmun við fráfærur og gefur betri vísbendingar um vaxtarhraða kálfanna og mjólkurlagni kúnna.
-
Innan við 3% kálfadauði.
-
Ásetningshlutfall sé innan við 15%, góð ending kúnna skilar sér í fleiri sláturgripum og markvissari ræktun séu aðeins álitlegustu gripirnir notaðir til undaneldis.