Fýll
Fýll eða múkki, besti vinur sjómannsins, er stór og gráleitur sjófugl. Hann er einn af algengustu fuglum landsins og af mörgum talinn sá næstalgengasti á eftir lundanum. Þeir eru mjög langlífir og vitað er til þess að þeir geti orðið a.m.k. 60 ára gamlir. Fýllinn heldur tryggð við makann sinn og parast ævilangt. Þeir verða seint kynþroska og dvelja fyrstu tíu árin á hafi. Fýllinn verpir einu eggi og tekur útungun tæpa tvo mánuði, eða lengst allra íslenskra fugla. Ungatíminn tekur síðan aðra tæpa tvo mánuði. Fýllinn er úthafsfugl sem unir sér best á sjó. Hann er þungur til gangs á landi, en þar þarf hann tilhlaup til að komast úr kyrrstöðu og hefja sig til flugs. Jafnvel á sjó getur hann stundum átt í erfiðleikum með að komst á loft. Fuglinn treystir á vindinn til að rífa sig upp úr hafinu en ef það er logn þarf hann að taka tilhlaup á sjónum, líkt og á landi. Þegar á flug er komið svífur fýllinn með stífum vængjum með fáeinum vængjatökum inn á milli og flakkar þannig víða um norðanvert Atlantshaf og jafnvel alla leið í Norður-Íshaf.