Gargönd
Gargönd, eða litla gráönd eins og hún er kölluð í Mývatnssveit, er fremur lítil buslönd. Hún er að öllu leyti farfugl fyrir utan fáeina fugla sem halda sig á innnesjum yfir veturinn.
Gargönd finnst víða á norðurhveli jarðar en Ísland er nyrsti staðurinn þar sem þær verpa. Íslenski stofninn er fremur fáliðaður, eða 400-500 varppör. Mikill meirihluti þeirra verpir í Mývatnssveit en engu að síður finnast þær víða niðri á láglendi í mýrum, pollum og tjörnum. Steggirnir líkjast meira kollunum en þekkist hjá öðrum buslöndum. Hann er að mestu grár en brúnni á höfði og svartyrjóttur á bringu. Kollan líkist stokkandarkollum en er minni og grárri. Steggurinn gefur frá sér lágvært flaut en kollan hávært garg sem fuglinn dregur nafn sitt af. Andfuglar fella fjaðrirnar á sumrin og fara í svokallaðan felubúning. Gargandarsteggirnir verða á þessum tíma
nánast óþekkjanlegir frá kollunum. Síðsumars, þegar þeir hafa endurnýjað flugfjaðrirnar, verða þeir fleygir að nýju og skarta aftur fallegum skrúðbúning á haustin.