Gjörningaveðrið í Hrísey 11. september 1884
Fáar dagsetningar eru heimsbyggðinni minnisstæðari en 11. september 2001 þegar hryðjuverkin voru unnin í Bandaríkjunum. Enn óttast menn atburði tengda þessari dagsetningu.
Mig langar til að minnast á örlagaríkan atburð sem gerðist hér á landi hinn 11. september 1884, eða fyrir 130 árum síðan við Hrísey. Afleiðingar hans höfðu áhrif á atvinnusögu þjóðarinnar.
Þannig var mál með vexti að Norðmenn höfðu stundað umfangsmiklar síldveiðar í Eyjafirði um nokkurra ára skeið. Umsvif Norðmanna voru farin að valda töluverðum ágreiningi og töldu menn að það gengi ekki að leyfa þeim að veiða alveg uppi í landsteinum, eða inni í hverri vík, enda sneru átökin meðal annars um skyldu Norðmanna að greiða bændum skatt – landshlut. Deilurnar mögnuðust og tóku allar hreppsnefndir í hreppum við Eyjafjörð sig saman og kærðu aðfarir Norðmanna við síldveiðar í firðinum til amtmanns og landshöfðingja árið 1883.
Íslendingar höfðu hvorki tæki né kunnáttu að ráði til að nýta sér þá auðlind sem síldin var en horfðu blóðugum augum á Norðmenn moka silfri hafsins upp í skip sín. Rétt er einnig að hafa í huga að harðindi einkenndu landið þessi árin og komið var skrið á fólk að leita til Vesturheims í von um betra líf. Þegar litið er til allra þessara þátta er ekki nema von að hugdjörfum ungum manni svelli móður í brjósti.
Galdrar og gjörningar
Aðalaðsetur Norðmanna í Eyjafirði var í Hrísey og varð stundum nokkuð slark og rystingar í landlegum milli landans og þeirra, ekki síst ef Bakkus var með í för. Einn Íslendinga í eynni var kallaður Villi, ungur, hraustur og harðfengur. Á dimmu haustkvöldi fyrir ellefta september hefjast hörku slagsmál, Norðmenn sækja margir að Villa, staðráðnir í að hafa hann undir. Að þessu sinni tekst þeim það þar til einn skipstjórinn skakkar leikinn – telur nóg komið. Þegar Villi rís upp úr þvögunni var hann bæði blóðugur og æstur. Hittir hann á ögurstund, þar sem grípur til kjarnyrða sinna og hvessir augu á viðstadda? Fékk hann styrk orðsins og mátt augnanna á vald sitt eins og sagt er um fornkappana, þegar þeir fluttu kyngimögnuð kvæði sér til bjargar? Villi fullstafar orðin þegar hann fer með heitstrengingar um að eyðingaröfl skuli splundra öllum skipaflota Norðmanna við eyjuna.
Það er eins og við manninn mælt. Ógnvænlegt veður skellur á Hrísey úr suðvestri og trylltir stormar lemja hús og skip í myrkri haustnóttinni hinn 11. september. Það er eins og djöfullinn sjálfur sé mættur til leiks. Þegar birtir að degi blasa afleiðingar veðurhamsins við mönnum, gríðarlegar eyðileggingar hvert sem litið er. Hinn glæsti skipafloti allur brotinn og bramlaður og bækistöðvarnar í landi horfnar á bak og burt. Það furðulega við þetta afspyrnuveður eða rok var að það herjaði mest á Hrísey. Talið er að aldrei hafi orðið meira skipatjón við Ísland á einni nóttu, hvorki fyrr né síðar. Voru þetta galdrar?
Jón Árnason þjóðsagnasafnari varar við heitstrengingum vegna þess að þær geti orðið að áhrínsorðum eins og hjá kraftaskáldum eða galdramönnum. Sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson varar við heiftrækni og reiði í 28. Passíusálmi 9. versi og telur að slíkt geti hitt illa á:
Athugagjarn og orðvar sért,
einkum þegar þú reiður ert;
formæling illan finnur stað,
fást mega dæmin upp á það.
Þjóðtrú
Í fjölmörgum frásögnum um Hríseyjarveðrið er að finna – bæði að uppbyggingu og minni – skírskotun til annarra sagna er fjalla um galdramenn. Þar er til staðar persóna sem er skapmikil, gífuryrt og skýtur umhverfinu/andstæðingum skelk í bringu. Þá er ótti við hamfarir veðra og náttúru ríkur þáttur í þjóðarsál Íslendinga, enda hafa þeir þurft að glíma við það gegnum aldirnar. Síðan var umhverfið við Eyjafjörð e.t.v. móttækilegt fyrir trú á yfirnáttúrulega viðburði þegar illa árar.
Tímasetningin er líka allrar athygli verð. Það er fimmtudagur í níunda mánuði ársins. Hvort tveggja tengist göldrum. Samkvæmt þjóðtrúnni er fimmtudagur bestur til að virkja ýmis galdraöfl og þá er hann talinn dagur norna og þeirra vikulegi fundardagur. Fimmtudagur er dagur Þórs í norrænni trú og því máttugur. September er og var jaðartímabil eða uppgjörsmánuður hjá okkur Íslendingum, veðurfar að breytast, heyönnum að ljúka, sláturtíð, haustvertíð að hefjast og skólar að byrja. Jaðartímabil eru móttækilegri fyrir breytingum en önnur. Talan sjálf, 9, er mögnuð segja talnaspekingar.
Afleiðingar
Hvað sem öllu þessu líður fylgdi skuggi þessarar nætur manninum, sem talinn var valda þessu örlagaveðri, alla ævi og fékk hann viðurnefnið Galdra-Villi. Hann hefur einnig verið sagður síðasti galdramaður Íslands.
Norðmenn nánast hættu veiðum á Eyjafirði eftir þessar hörmungar. Þar höfðu um 1.800 einstaklingar verið við veiðar en voru aðeins rúmlega tvö hundruð árið 1886. Íslendingum óx ásmegin að verða sjálfstæðari og huga að verndun landhelgi. Norðmenn áttu síðar góð síldveiðiár bæði við Siglufjörð og á Austfjörðum.
Enn ber Hrísey minjar um gjörningaveðrið frá 1884. Eitt reisulegasta húsið í eynni, Jörundarhús, var smíðað úr vönduðum skipsviðunum. Lengi var skipsklukka með ártalinu 1727 kirkjuklukkan sem hringdi inn kirkjulegar athafnir og kirkjuhliðið var lengst af úr einni skipsbrúnni.
Bóndinn á Bakka
Galdra-Villi hét fullu nafni Vilhjálmur Einarsson og varð merkisbóndi að Bakka í Svarfaðardal. Hann var mikill frumkvöðull og framkvæmdamaður í landbúnaði og búvélahönnun. Það má segja að hann hafi verið stórtækur í öllu er hann tók sér fyrir hendur. Undir hrjúfu yfirbragði sló milt hjarta gagnvart þeim er minna máttu sín í samfélaginu, en yfirgang stórbokka þoldi hann illa. Hann taldi mjög mikilvægt að sinna vel ungmennum og mætti gjarnan á samkomur og skemmtanir þeirra. Meðan hann gerði út frá Dalvík hélt hann ávallt skemmtanir í lokin og gerði vel við hjú sín þar sem og í sveitinni. Eins og flestir Svarfdælingar taldi hann dans vera lífsins gleðigjafa. Vilhjálmur eignaðist einstaka konu, ljúfa, vinnusama og geðgóða, Kristínu Jónsdóttur frá Jarðbrú. Átti hún vafalítið stóran þátt í myndarskapnum að Bakka, þó að Vilhjálmur fái oftast heiðurinn. Saman hlúðu þau að stóru búi sem og þeim sem urðu úti á berangri lífsins eins og Jóhanni bera umrenningi, en hann var síðustu ár sín á Bakka.
Hjónin á Bakka, Kristín og Vilhjálmur, voru amma mín og afi í móðurætt.