Glókollur
Glókollur er minnsti fugl Evrópu en fullorðinn fugl er um 9 cm að lengd og vegur svipað og 5 krónu mynt (um 6 grömm). Hann er nokkuð nýr landnemi og að öllu leyti skógarfugl, því er nokkuð ljóst að hann hefur numið hér land í kjölfar mikillar aukningar í greniskógrækt.
Upp úr aldamótum fer að bera á fjölgun glókolla og er áætlað að stofninn sé núna á bilinu 1.000-2.000 pör. Hann er staðfugl en þrátt fyrir smæð sína þá stendur hann ágætlega af sér íslenskt veðurfar. Engu að síður hafa komið hrun í stofninn sem líklega tengjast sveiflu í framboði á grenilús sem er undirstöðufæða glókollsins. Fuglinn er frekar hnöttóttur í laginu með stutta og breiða vængi. Hann er grænleitur með svarta og gula kollrák nema hjá karlfuglinum er kollrákin að hluta appelsínugul. Þeir eru mjög kvikir og halda sig gjarnan innarlega í trjám en eiga það til að koma út á greinarnar í leit að fæði. Það getur því verið áskorun að koma auga á þennan litla fugl en oft kemur hann þó upp um sig því þeir eru sítístandi og kallandi sín á milli. Glókollar verpa iðulega nokkrum sinnum á sumri og allt að því 6-11 egg í hvert skipti. Svona mikil urpt spilar stóran þátt í því hvað stofnin
n getur náð sér fljótt á strik aftur eftir áföll og stækkað hratt á skömmum tíma.