Gulvíðir
Ástæða er til að telja gulvíði (Salix phylicifolia) til innlendra trjátegunda því hann getur sannarlega náð þeirri hæð að vera skilgreindur tré.
Dæmi eru um að tegundin hafi náð allt að átta metra hæð hérlendis. Sjaldan er gulvíðir þó hærri en tveir metrar og víða aðeins jarðlægur runni.
Vaxtarlag gulvíðis er með öðrum orðum mjög breytilegt, allt frá skriðulum runna upp í einstofna tré. Í Selárdal vex til dæmis hávaxinn gulvíðir og er kallaður Strandavíðir. Oftast sjáum við gulvíði samt sem tiltölulega uppréttan, margstofna runna. Með minnkandi beit síðari ár hafa myndarlegir gulvíðibrúskar víða orðið meira áberandi í landslaginu, oft margra metra breiðir, ekki síst í frjósömum og rökum dalbotnum víða um land þar sem gulvíðirinn er til mikillar prýði. Þar er hann líka í kjörlendi sínu sem er deiglendi með stöðugum raka. Á haustin skrýðist hann ægifögrum gulum lit og getur staðið þannig langt fram á haust. Sumir klónar eða einstaklingar gulvíðis halda jafnvel laufi mestallan veturinn en smám saman sölnar það og fær á sig brúnan lit.
Gulvíðir vex hægt miðað við aðrar víðitegundir. Hann getur hins vegar þrifist vel um allt land, þar á meðal á hálendinu og til fjalla, allt upp í um 600 metra hæð yfir sjó. Hann er ljóselskur og nýtur sín því best á berangri en síður í þéttum skógi þar sem hærri tré skyggja hann út.
Helsti styrkleiki gulvíðis er að hann er gjarnan fljótur að birtast þegar beit er aflétt á landi. Þetta er til marks um getu hans til að sá sér í mismunandi landgerðir. Gulvíðir er með öðrum orðum góð frumherjategund og sprettur upp í ýmiss konar jarðvegi og við ýmis skilyrði en auðvitað misjafnlega eftir aðstæðum. Tegundin getur myndað mikið fræ en það er skammlíft og þarf því að lenda á góðum stað sama sumar til að geta spírað og vaxið upp.
Víðitegundir blandast talsvert innbyrðis og getur fjölbreytnin því orðið töluverð. Brekkuvíðir er klónn af gulvíði sem talið er mögulegt að hafi orðið til með blöndun við loðvíði, ellegar þá með erfðaflæði. Brekkuvíðir var um tíma vinsæll í limgerði í görðum en dregið hefur úr notkun hans, meðal annars vegna þess hve viðkvæmur hann er fyrir ásókn meindýra. Hreggstaðavíðir er blendingur brekkuvíðis (gulvíðis) og viðju. Sömu sögu er að segja um hann og brekkuvíðinn. Vinsældirnar hafa minnkað vegna skaðvalda, ekki síst ryðsvepps.
Og þar komum við einmitt að helstu veikleikum gulvíðis. Á hann herja gjarnan skordýrafaraldrar og ekki er óalgengt að sjá myndarlega gulvíðibrúska lauflausa á miðju sumri þegar fiðrildalirfur ná sér vel á strik. Sömuleiðis er gulvíðir útsettur fyrir ryðsvepp sem gerir hann gulan löngu áður en haustlitirnir birtast. Á hvoru tveggja er mikill áramunur.
Gulvíðir er duglegur að blómstra og vert er að benda á að hann er sérbýlistré. Það þýðir að sumir einstaklingar eru karlkyns og aðrir kvenkyns eins og gildir hjá víðiættinni allri, þar með hjá ösp, sem er sömu ættar. Snemma á vorin byrja karl- og kvenreklar að myndast og verða jafnvel áberandi áður en trén eða runnarnir laufgast almennilega. Flugur sækja mjög í blómin eftir blómasafa, ekki síst humlur sem sjást gjarnan sveimandi í gulvíði á vorin. Flugurnar bera frjóið af karlreklum yfir á kvenrekla. Víðitegundir eru mikilvæg fæðuuppspretta flugna þegar fátt annað er í boði í sumarbyrjun. Þegar kvenreklarnir hafa frjóvgast vaxa þeir áfram en karlreklarnir visna og detta af. Þroskuð fræin eru búin svifhárum sem geta borið þau langar leiðir.