Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Þeir sem heimsækja kúabú í Indónesíu taka eftir því að kýrnar eru alltaf mjög hreinar enda þvegnar tvisvar á dag. Hér má auk þess sjá að bóndinn er búinn að finna til brauð til þess að gefa kúnum sínum.
Þeir sem heimsækja kúabú í Indónesíu taka eftir því að kýrnar eru alltaf mjög hreinar enda þvegnar tvisvar á dag. Hér má auk þess sjá að bóndinn er búinn að finna til brauð til þess að gefa kúnum sínum.
Mynd / SS
Á faglegum nótum 8. febrúar 2019

Indónesía – þar sem allt grær

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Indónesía er staðsett við miðbaug jarðar, rétt utan meginlands Suðaustur-Asíu. Landið er samsafn af rúmlega 17 þúsund eyjum í Malaja eyjaklasanum og eru íbúar landsins á rúmlega 3 þúsund af þessum eyjum! Landið er gríðarlega stórt og kemur því ekki á óvart að það er fjórða fjölmennasta ríki heims með rúmlega 260 milljónir íbúa. Þó svo að landið sé e.t.v. einna helst þekkt í Evrópu fyrir eyjuna Bali, sem margir fara til og heimsækja, þá er helsti atvinnuvegur landsins landbúnaður, enda landið einstaklega vel fallið til ræktunar og framleiðslu. 
 
Mjólkurframleiðsla hefur ekki verið stunduð af krafti í landinu undanfarna áratugi, en þar horfir til breytinga eins og víða annars staðar með stóraukinni eftirspurn íbúa landsins eftir mjólkurvörum.
 
19 sinnum stærra en Ísland
 
Indónesía er gríðarlega stór og nærri 19 sinnum stærra en Ísland, rétt rúmlega 1,9 milljónir ferkílómetra að stærð. Staðsetning, stærð og lega landsins gerir það að verkum að í landinu er ótrúlega fjölbreytt plöntu- og dýralíf og líkt og önnur lönd sem standa við miðbaug jarðar, er tíðarfarið allt öðruvísi í þessum löndum en við erum vön hér á Íslandi. 
 
Dagsbirtu gætir í um 12 tíma allan ársins hring og í raun er ekki til neitt sem við köllum vetur, sumar, vor og haust heldur er þar talað um tvær árstíðir: rigningartímabilið og „ekki rigningartímabil“. Þetta tímabil er misjafnt innan landsins eftir staðsetningu eyjanna og er ekki stöðugt ár frá ári vegna veðurfyrirbrigðisins El Niño. Í Indónesíu verður aldrei verulega kalt og raunar aldrei verulega heitt miðað við mörg önnur lönd. Hita-stigið fer lægst í um 20–22 gráður og sjaldan yfir 30–32 gráður þegar heitast er.
 
Verktakar sem sjá um að slá og koma gróffóðri heim á kúabúin. Konan bar verkfærin á höfði sér en karlinn ók með 2–3 kýrfóður á vélhjólinu.
 
Frjósamur jarðvegur
 
Flestar eyjar landsins eru með einstaklega frjósama jörð svo þegar saman fara allir þessir eiginleikar sem hér að framan hafa verið taldir upp, er nánast hægt að fullyrða að allt geti gróið í Indónesíu og það allt árið um kring! Þannig upplifði t.d. greinarhöfundur það í nóvember sl. að á sama tíma og verið var að uppskera suma hrísgrjónaakra, voru aðrir bændur að planta út og enn aðrir að fjarlægja illgresi frá hálfsprottnum hrísgrjónaplöntum! Engin hefðbundin árstíð eins og við erum vön!
 
Pálmaolían mikilvægust
 
Fjölskyldurnar í Indónesíu sem stunda landbúnað skipta tugum milljóna og er hver þeirra með tiltölulega lítið land hver um sig. Þau bú sem stunda búfjárrækt eru oftar en ekki smá í sniðum og þannig eru t.d. kúabúin oft með 4–5 kýr en einnig eru til kúabú með tugum kúa, þó svo að þau séu ekki mörg. Bændur sem ekki stunda búfjárrækt eru í margs konar annarri framleiðslu en þar er þó ræktun á pálmatrjám, til framleiðslu á ávöxtum trjánna sem svo fara til olíuframleiðslu, ein allra mikilvægasta grein landbúnaðarins, en Indónesía er stærsti framleiðandi á pálmaolíu í heiminum. Þá eru bændur landsins einnig stórtækir í framleiðslu á náttúrulegu gúmmíi.
 
 Búin í Indónesíu sem eru í framleiðslu á pálmaolíu eru af öllum stærðum og gerðum og bæði til lítil og afar stór bú sem rekin eru af hinu opinbera en einnig af einkaaðilum, en um 40% af framleiðslunni kemur frá litlum fjölskyldubúum. Önnur framleiðsla sem er stórtæk í landinu er framleiðsla á kaffibaunum og tóbakslaufi sem og framleiðsla á hrísgrjónum. Þá er framleiðsla á ávöxtum og grænmeti einnig þýðingarmikill landbúnaður í Indónesíu.
 
Afurðalitlar kýr
 
Þegar horft er til mjólkur­framleiðslunnar þá eru búin eins og áður segir frekar smá í sniðum en þar sem unnt er að framfleyta sér af litlu í landinu þarf ekki nema 4–5 kýr til þess að hafa þokkalegar fjölskyldutekjur. Í dag eru meðalafurðir kúnna, sem eru af Holstein kyni, reyndar ekki nema 9–12 lítrar á dag og bú með 5 kýr er oft að leggja inn aðeins um 50 lítra á dag. Þessar afurðir eru langt undir eðlislægri framleiðslugetu þessa kúakyns og felst skýringin á slakri nýtingu kúnna fyrst og fremst í vanþekkingu á réttri fóðrun og hirðingu þessara kúa. 
 
Nokkrir bændur í landinu hafa hins vegar náð afargóðum tökum á framleiðslunni og eru að nýta Holstein kýrnar mun betur og eru með í kringum 30 lítra á dag eftir kúna. Þessi staðreynd hefur opnað augu fagfólks innan stjórnkerfisins og því hafa verið sett af stað þróunarverkefni í Indónesíu m.a. í samvinnu við afurðafélagið Arla og þróunarstofnun Danmerkur, til þess að efla þekkingu kúabænda landsins á fóðrun og hirðingu. Það má því búast við því að afurðasemi kúnna í Indónesíu muni aukast verulega á komandi árum.
 
Sækja fóðrið daglega
 
Til þess að sinna fóðurþörf 4–5 kúa þarf kúabóndi í Indónesíu ekki að hafa aðgengi að nema um þriðjungi af hektara þar sem grasið vex allt árið um kring og uppskeran er gríðarlega mikil vegna hins frjósama jarðvegs, hita, raka og 12 tíma daglengdar! Fá lönd, ef nokkur í heiminum, hafa viðlíka uppskeru af hverjum hektara. Grasið sem flestir kúabændurnir rækta heitir fílagras (Pennisetum purpureum) sem er grófgert gras sem getur vaxið afar hratt og skilað allt að 80 tonnum af þurrefni á ári/ha! 
 
Vegna stöðugs vaxtar þurfa búin ekki að vera með geymslu fyrir fóður heldur er það einfaldlega sótt á hverjum degi. Fæstir nota hefðbundnar vélar við fóðuröflunina heldur er gróffóðrið slegið með sigðum og svo flutt heim á litlum vélhjólum. Stundum eru það starfsmenn búanna sem sjá um þetta, en einnig eru til verktakar sem sjá um þessi verk.
 
Gefa kúnum brauð!
 
Þegar komið er inn á kúabú í Indónesíu kemur einna helst á óvart hvað kýrnar eru hreinar, miðað við að vera bundnar á bása. Skýringin felst í því að þær eru þvegnar tvisvar á dag, bæði til að halda þeim hreinum en ekki síður til að kæla þær. Flest búin eru með kýrnar á einhvers konar gúmmímottum án undirburðar og gefa þeim svo auk áðurnefnds gróffóðurs kjarnfóður og ótrúlega mörg búanna gefa einnig kúnum brauð! 
 
Brauðát er algengt í landinu og mjög oft eru miklir afgangar til sem kúabúin geta fengið fyrir lítið og með því að blanda brauðinu saman við kjarnfóðrið fást kýrnar til að éta það.
 
Afhenda mjólkina tvisvar á dag
 
Þar sem flest kúabúin eru frekar smá í sniðum eru mjaltavélar óalgengar og kýrnar því handmjólkaðar. Mjólkin er svo sett í brúsa og eftir hverjar mjaltir er farið með hana ókælda í næstu móttökustöð mjólkur. Þessar móttökustöðvar eru oftast reknar af samvinnufélögum en samvinnufélög bænda eru nokkuð algeng í Indónesíu, en það er allfrábrugðið því sem sést í mörgum öðrum löndum í Asíu. Mörg þessara félaga eru enn í dag með umfangsmikla starfsemi bæði varðandi móttöku og sölu á landbúnaðarvörum sem og ýmsa aðra þjónustu fyrir félagsmenn sína eins og rekstur á banka, verslunum, heilsugæslu og margs konar annarri þjónustu. 
 
Enn sem komið er, er mjólkinni ekki safnað saman af afurðastöðvum eða móttöku-stöðvum og þurfa bændurnir því sjálfir að fara með mjólkina. Stundum koma bændurnir gangandi með mjólkurbrúsann sinn, aðrir á mótorhjólum og bú með margar kýr senda mjólkina með pallbílum. 
 
Kæla mjólkina og senda áfram
 
Í móttökustöð mjólkurinnar er tekið sýni af mjólkinni, fyrst og fremst til að tryggja að hún sé ekki vatnsblönduð eða súr og svo er hún vigtuð og sett í sameiginlegan tank til kælingar. Móttökustöðvarnar eru með fasta opnunartíma og eftir lokun að morgni og seinnipart dags er mjólkin kæld niður og svo er henni ekið í næstu afurðastöð sem getur verið bæði einkarekin, rekin af erlendum aðilum eða í rekstri samvinnufélags.
 
Breytingar fram undan?
 
Í dag er mjólkurframleiðslan í Indónesíu langt frá því að geta sinnt heimamarkaði sínum og geta bú landsins ekki annað nema tæplega 20% af þörfinni og er innflutningur til landsins því stórtækur. Ríkisstjórnin hefur lýst yfir áhuga á því að þetta hlutfall hækki verulega, en það er hreint ekki einfalt að auka hlutfallið því eftirspurnin eftir mjólkurvörum í landinu vex ört þessi árin með vaxandi efnahag. Á sama tíma hefur framleiðsla landsins á pálmaolíu mætt mikilli gagnrýni þar sem vöxtur þeirrar búgreinar hefur komið niður á umfangi regnskógsins. Enn er þó ekki nema 30% af landmagninu í Indónesíu nýtt til landbúnaðar og því finnst mörgum heimamönnum í Indónesíu gagnrýnin á þeirra landnotkun ekki sanngjörn. 
 
Það að bændur í Indónesíu hafi byrjað nýtingu á sínu landi síðar en bændur í mörgum þróaðri löndum, eigi ekki að hefta þeirra möguleika á að afla sér og sínum tekna. Í samanburði hafa verið nefnd dæmi eins og að bæði í Frakklandi og Þýskalandi sé um helmingur landsins nýttur til landbúnaðar og mörg þróuð lönd hafi hærri nýtingu á landi en það. 
 
Það verður án nokkurs vafa fróðlegt að fylgjast með þróun landbúnaðarins í Indónesíu á komandi árum og vonandi tekst heimamönnum og alþjóðasamfélaginu að finna góða lausn svo bændur landsins geti haldið áfram að nýta þetta einstaka land með sem bestum hætti.

8 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...