Jólastjörnur eru kuldaskræfur
Jólastjörnur eru fyrir löngu orðinn hluti af jólaskreytingum á heimilum Íslendinga yfir skammdegið. Fátt minnir meira á að eftir hátíðarnar fer sólin að hækka á lofti og að halla fari að vori en falleg blóm.
Þegar jólastjarna er keypt skal gæta þess að henni sé pakkað inn og muna að jólastjörnur þola illa kulda og alls ekki að standa lengi í köldum bíl og ráðlegt að stoppa ekki til að versla jólagjafir eða í matinn á leiðinni heim.
Jólastjörnur þrífast best við 12 til 21 °C og endast best við lægri mörkin. Best er að vökva þær lítið í einu en oft og með volgu vatni. Moldin má aldrei þorna alveg en það má heldur ekki standa í vatni pottinum. Best er að láta pottinn standa í djúpri pottahlíf sem fyllt er í botninn með vikri. Þannig stendur jólastjarnan ekki í vatni en nýtur góðs af uppgufun og loftraki leikur um hana.
Jólastjörnur þurfa góða birtu og þrífast best í björtu herbergi eða í austur- eða vesturglugga.
Ólíkt því sem ýmsir telja eru það ekki blóm sem gefa jólastjörnunni sinn fallega lit heldur svokölluð háblöð.
Jólastjörnur eiga rætur sínar að rekja til Mexíkó. Nánar tiltekið til héraðsins Taxco þar sem hún vex sem þéttur runni eða lítið tré og getur náð þriggja til fjögurra metra hæð.
Löngu fyrir komu Evrópumanna til Vesturheims ræktuðu innfæddir þar jólastjörnur vegna litadýrðarinnar og var litið á þær sem tákn um hreinleika.
Jólastjörnur hafa verið í ræktun á Íslandi frá því skömmu fyrir 1960. Í dag eru þær ræktaðar og seldar í miklu magni fyrir jólin enda sannkölluð jólablóm. Í dag er hægt að fá rauðar, fölrauðar og hvítar jólastjörnur.
Þjóðverjinn Albert Ecke, sem settist að í Hollywood árið 1902, var gríðarlega heillaður af jólastjörnunni og hóf ræktun hennar í stórum stíl og seldi greinar á aðventunni. Árið 1920 tókst syni hans að framrækta dvergafbrigði af jólastjörnu þannig að hægt var að rækta hana í potti. Hann lagði mikla alúð í að kynna hana og tengja rauða litinn jólunum. Það má því segja að Ecke yngri sé faðir jólastjörnunnar eins og við þekkjum hana í dag.