Listin að flokka landbúnaðarplast
Árlega falla til um 1500-1800 tonn af landbúnaðarplasti á Íslandi. Þótt plast sé nytsamlegt efni til þess að geyma fóður, matvæli og fleira, er plastmengun orðið eitt alvarlegasta vandamál heims og mikil ógn við allt lífríki jarðar. Rétt flokkun og öflug plastendurvinnsla er mikilvægt skref í að gera íslenskan landbúnað umhverfisvænan og sjálfbæran.
Almenna reglan er sú að flokka heyrúlluplastið sérstaklega – og vera ekki að blanda neinu saman við það. Landbúnaðarplast sem er notað utan um heyrúllur er úrvalsplast sem er tilvalið í endurvinnslu, en sé plastið ekki rétt flokkað eða óhreint er ekki hægt að endurvinna það og því er brýnt að flokka landbúnaðarplastið rétt og vandlega.
Hér eru nokkur atriði sem hafa ber í huga:
- Plastið þarf að vera hreint.
- Mikilvægt er að plastið sé hreint og laust við alla aðskotahluti. Sé plastið ekki hreint er ógjörningur að endurvinna það og því þarf að urða það með tilheyrandi kostnaði og umhverfisáhrifum. Net og plastbönd verða að vera í sér pokum, alls ekki blanda neti, spottum, hræjum eða öðru drasli við heyrúlluplastið, því þá er plastið ekki endurvinnanlegt. Léleg flokkun á einum stað getur eyðilagt stórt hlass af hreinu og fínu plasti til endurvinnslu. Best er að ganga frá landbúnaðarplasti um leið og það fellur til við gegningar og hrista úr því hey og önnur óhreinindi. Hreint landbúnaðarplast (annað en svart plast) má vera laust eða baggað.
- Svart plast er ekki sama og hvítt plast.
- Svart plast er sérlega erfitt í endurvinnslu í samanburði við annað plast. Það veldur erfiðleikum í flokkun vegna þess að innrauður geisli í flokkunarvélum nemur ekki svart plast. Reynum því að forðast að nota svart plast og blöndum því ekki saman við annað plast í flokkun. Ef svart plast fellur til þá að binda vel utan um það sérstaklega.
Gott samstarf við bændur er lykilatriði
Markmiðið er að allir bændur sem nota landbúnaðarplast hafi möguleika á því skila plastinu á auðveldan og markvissan hátt til að tryggja góða endurvinnslu eða endurnýtingu. Slíkt verklag tryggir verndun á íslenskri náttúru og dýralífi. Samstarf um þetta brýna mál hefur gengið vel um allt land og bændur hafa almennt tekið mjög vel í að flokka landbúnaðarplast frá öðrum úrgangi. Mikilvægt er að aðgengi að bæjunum sé gott og ekki síður að þeim stað sem plastinu er safnað saman.
Við minnum á að samvinna er lykilatriði. Terra, sem hefur sinnt sorphirðu og plastsöfnun, gerir sitt besta til að láta vita þegar söfnun á sér stað þannig að bændur geti undirbúið söfnunina og einnig verið á staðnum og aðstoðað bílstjóra eftir þörfum. Þá er einnig farið yfir hvort rétt sé staðið að söfnun og frágangi á plastinu. Allt landbúnaðarplast sem er vel flokkað fer til endurvinnslu. Plastið er að hluta endurunnið á Íslandi og að hluta flutt erlendis til endurvinnslu.
Best er að ganga frá landbúnaðarplasti um leið og það fellur til við gegningar og hrista úr því hey og önnur óhreinindi. Hreint landbúnaðarplast (annað en svart plast) má vera laust eða baggað.
Málmar, hjólbarðar og spilliefni
Terra vill einnig hvetja bændur til að huga vel að almennri flokkun. Fara með efni eins og hjólbarða og brotamálma til móttökustöðva þar sem þess er nokkur kostur. Síðan þarf að fara sérstaklega varlega með öll spilliefni eins og olíu, sýru og önnur eiturefni. Það er afar nauðsynlegt að flokka og eyða hættulegum efnum á þann máta að land, sjór, vötn og loft mengist ekki. Terra hefur margra ára reynslu af meðhöndlun spilliefna og skipulagningu á móttöku spilliefna.. Almenningur getur losað sig við hættuleg efni og annan spilliefnaúrgang á endurvinnslustöðvum sveitarfélaga, þar sem spilliefnum er safnað saman áður en þau eru send til Terra – Efnaeyðingar. Öll berum við ábyrgð á umhverfinu og hluti af þeirri ábyrgð felst í skynsamlegri meðferð á spilliefnum, takmarkaðri notkun þeirra og öruggri förgun.
Gæði íslenskra landbúnaðarvara eru vel þekkt. Hróður ýmissa afurða, eins og íslenska lambakjötsins, er óðum að breiðast út til annarra landa. Íslendingar eru mjög stoltir af hreinleika landsins og vilja vera vissir um að úrgangur muni ekki menga það. Því markmiði náum við ekki nema vera öll meðvituð um rétta flokkun og endurvinnslu - þátttaka allra skiptir miklu máli. Skiljum ekkert eftir!
Freyr Eyjólfsson
Höfundur er samskiptastjóri Terra. Terra er viðurkenndur þjónustuaðili Úrvinnslusjóðs við söfnun á landbúnaðarplasti.