Lítið í boði af umhverfisvænum bílum nema rafmagnsbílum
Frá því að þessir pistlar um bíla, fjórhjól og önnur vélknúin tæki hófst hér fyrir um 12-13 árum hef ég eingöngu reynt að prófa ný tæki sem umboð eru að flytja inn fyrir utan örfá skipti þegar ég skrifaði um tilraun með lítið tæki sem framleiddi vetnisfroðu sem auka eldsneyti í gömlum bíl sem ég átti.
Þetta virkaði fínt á vissum snúningi vélarinnar og sparaði töluvert bensín á lágum snúningi.
Vetni og metan eru að mínu mati umhverfisvænstu orkugjafar og vélar sem brenna vetni og metan eru með mun hreinni bruna og menga andrúmsloftið sára lítið.
Dráttargetan er fín og fór bíllinn létt með fjórhjólið í eftirdragi.
Heimsókn í flest umboðin olli vonbrigðum
Nú stendur til að fara að endurnýja heimilisbílinn sem er orðin fimm ára og fórum við hjónin í bíltúr á milli umboðanna í leit að arftaka. Með vissar hugmyndir, sérvisku og hjátrú um að auka-orkugjafinn má ekki vera rafmagn.
Ástæðan er að við búum á þannig stað að rafmagnshleðsla er ekki í boði og að rafmagnsbílar eru að mínu mati dýrari viðhaldslega í rekstri en aðrir bílar.
Fyrir mér væri ég til í að auka-orkugjafinn væri vetni eða metan, en ekkert framboð virðist vera af metan- eða vetnisknúnum bílum hjá umboðunum.
Fyrir nokkrum árum var nánast hægt að sérpanta hvaða bíl sem var hjá flestum umboðunum, en það eru greinilega breyttir tímar. Ef maður nefnir við sölumenn nýrra bíla að sérpanta bíl sem er annaðhvort vetnisbíll eða metanbíll þá vill enginn við mann tala og á þessum fjórum stöðum sem ég spurði var áhuginn enginn.
Ég virðist ekki vera einn um þessa upplifun því að ég frétti af því að Sorpa hefði flutt inn metanbíl sjálfir vegna þess að umboðið hafði lítinn áhuga á því. Ég kom mér í samband við Guðmund Tryggva í Sorpu og fékk að prófa bílinn.
Góð hávaðamæling, betri en í mörgum rafmagnsbílum.
Sorpa fékk aðstoð við að flytja inn óskabílinn
Í samtali við Guðmund Tryggva Ólafsson, rekstrarstjóra endurvinnslustöðva SORPU, nýlega, þar sem vistvænir orkugjafar voru til umræðu, kom fram að það væri að fjölga í flóru nýrra metan ökutækja á Íslandi. Komið væri að endurnýjun bíla í notkun hjá SORPU, en umræddir bílar eru allir metanknúnir, en gefum Guðmundi Tryggva orðið:
„Þegar farið var yfir valkostina, það er að segja hvaða verksmiðjuframleiddu metanbílar eru í boði í Evrópu komu fram nokkrir áhugaverðir valkostir. Seat er að framleiða nokkrar útgáfur, Skoda er með Octavíu, Scala og Kamiq með metanvélum, þá er Audi með A3, A4 og A5, VW er með UP, Polo og Golf, Dacia er með Sandero, Opel er með Zafira, Fiat með Panda og Punto. Þetta er samt ekki tæmandi listi.
Leitað var til bílainnflytjenda um verð á nokkrum metanbílum frá Evrópu, þar kom meðal annars fram álitlegur valkostur, Audi A5, sem kostaði nánast það sama og Skoda Octavia CNG sem í boði var hjá Heklu fyrir rúmar 6 milljónir.
Þar sem metan er 17% umhverfisvænni orkugjafi en rafmagn og þar sem nýjum metanbílavalkostum á íslenskum markaði hefur ekki fjölgað síðasta árið og þar sem metangasframleiðsla SORPU gengur vel, var ákveðið að taka Audi A5 gtron (metanbíl). Bílainnflytjendur hafa í framhaldinu sýnt innflutningi á metanbílum áhuga og má leita eftir frekari upplýsingum um gerðir og verð hjá bílasölunni Netbílum.“
Bensínmælirinn hægra megin, en metanmælirinn vinstra megin og hálfur eftir um 140 km akstur.
Kom skemmtilega á óvart og fáir gallar
Ég prófaði þennan tiltekna Audi A5 metanbíl sem kostaði um 6,4 milljónir hingað kominn. Bíllinn var ljúfur í akstri, kraftmikill, lágvær (mældist ekki nema 70 db.).
Fór með fjórhjól á kerru á bílnum upp á Sandskeið og ég fann ekki að bíllinn hefði mikið fyrir þyngdinni upp Lögbergsbrekkuna. Á malarvegi var gott að keyra bílinn fyrir utan að ekki var mikla fjöðrun að fá úr lágum 18 tommu götudekkjunum. Snerpan góð, og það góð innanbæjar að ökuskírteinið var nokkrum sinnum í hættu.
Það var ekki nema tvennt sem mér líkaði ekki. Það vantar varadekkið og felgurnar mættu vera tveim tommum minni fyrir minn smekk svo að maður fái meiri fjöðrun út úr dekkjunum á ósléttum vegum.
Alls keyrði ég bílinn um 150 km og var þá metantankurinn hálfur (gæti trúað að hægt væri að komast um 400 km á metantanknum með skynsömum akstri), en í samanburði við að í dag kostar bensínlítrinn yfir 250 krónur, en metan „lítrinn“ er á um 150 kr.
Annars óska ég Sorpu til hamingju með nýja bílinn og að mínu mati tel ég þetta hafa verið góð kaup og takk fyrir lánið á bílnum.