Ópíumvalmúi – líkn og dauði
Valmúi hefur verið ræktaður í margar aldir og saga plöntunnar er skrykkjótt en merkileg. Úr plöntunni er unnið ópíum og ópíumtengd efni sem notuð eru til lækninga úr ópíuminu en einnig sem nautnalyf með skelfiegum afleiðingum. Fræ plöntunnar eru best þekkt hér sem birkifræ á birkirúnstykkjum. Auk þess sem valmúaolía er unnin úr fræjunum.
Nánast er ómögulegt að gera sér grein fyrir því hversu mikil ræktun á valmúa er í heiminum. Stór hluti valmúaræktunar til ópíumframleiðslu er ólögleg en sá hluti hennar sem er löglegur er nýttur til lyfjagerðar. Áætluð heimsframleiðsla á ólöglegu ópíum árið 2017 var ríflega tíu þúsund tonn. Mest er framleiðslan í Gullna hálfmánanum í Mið-Asíu og í Gullna þríhyrningnum í Suðaustur-Asíu. Auk þess sem talsvert er framleitt af ópíum í Mexíkó og Kólumbíu.
Ástralía, Tyrkland og Indland eru stærstu framleiðendur löglegs ópíums í heiminum.
Heimsframleiðsla á valmúa-fræjum í heiminum árið 2016 er áætluð 92,6 tonn. Tékkland var stærsti framleiðandi það ár og framleiddi tæp 28,6 tonn, Tyrkland var í öðru sæti með rúm 18,2 tonn, Spánn framleiddi tæp 13,4 tonn, Ungverjaland rúm 8,9 og Frakkland um 5,8 tonn.
Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands voru flutt inn rétt rúm 1,9 tonn af valmúafræjum árið 2017. Mestur var innflutningurinn frá Danmörku, 976 kíló og 363 kíló frá Tékklandi. Einnig er talsvert flutt inn af ópíumtengdum lyfjum í lækningaskyni og einnig ólöglega til sölu á svörtum markaði.
Bandarískur hermaður á valmúaakri í Afganistan.
Ættkvíslin Papaver og draumsóley
Hátt í eitt hundrað tegundir eins-, tví- og fjölærra plantna tilheyra ættkvíslinni Papaver. Allar eru þær fremur harðgerðar og finnast á norðurhveli jarðar. Tegundirnar eru misjafnar að hæð og allt frá því að vera um tíu og yfir 100 sentímetrar að hæð og flestar eru þær með hærðan stöngul. Þegar valmúar blómstra fellir blómknúppurinn tvær áberandi blómhlífar. Krónublöðin þunn fjögur til sex, rauð, hvít, bleik, gul og lillablá. Blómið tvíkynja og frævan og frævlarnir eru áberandi. Fræhirslan er brúnn hærður baukur sem inniheldur fjölda fræja sem losna auðveldlega eftir að þau hafa náð þroska.
Fulltrúi ættkvíslarinnar í flóru Íslands kallast melasól, P. radicatum og er milli 5 og 20 sentímetra há og ber skærgul, hvít og bleik blóm. Hvít og bleik litarafbrigði eru alfriðuð. Eitt af alþýðuheitum plöntunnar er draumsól og sagt er að hún bæti svefn. Garðasól, P. nudicaule, er algeng garðplanta hér og finnst einnig sem slæðingur og til í mörgum litum. Plantan er víða erlendis kennd við Ísland, Icelandic Poppy á ensku og Isländischer Mohn á þýsku. Í görðum má einnig finna risasól, eða tyrkjasól, P. bracteatum, og risavalmúa, P. orientale, sem nær allt að metra á hæð. Auk annarra valmúategunda sem ræktaðar eru til skrauts.
Ópíumvalmúi
Plantan sem ópíum og birkifræ, eða birkens, er unnið úr kallast P. somniferum á latínu en ópíumvalmúi á íslensku. Einær og sterkleg planta sem nær um eins metra hæð og með grágræna áferð. Stöngull og blöð grófhærð. Laufblöðin stór flipuð, saxtennt og umvefur blaðhálsinn stöngulinn. Blómin þrír til tíu sentímetrar í þvermál og krónublöðin yfirleitt hvít eða hvít en einnig bleik, lillablá eða hvít með rauðu í.
Aldinið stór hárlaus kúlu- eða hnattlaga baukur, fjórir til níu sentímetrar að hæð og breidd og með kórónu á toppnum. Fjöldi fræja þroskast í bauknum. Í plöntunni allri en aðallega aldininu er hvítur mjólkursafi sem hráópíum er unnið úr.
Svíinn Carl Linnaeus var fyrstur til að lýsa plöntunni í bók sinni Species Palntarum sem kom út árið 1753.
Í dag er til fjöldi ræktunarafbrigða og yrkja af ópíumvalmúa sem hvert um sig er notað til sérhæfðrar ræktunar. Valmúi sem ætlaður er til ópíumframleiðslu ber lítið af fræjum og valmúi sem ætlaður er til framleiðslu á fræ inniheldur lítið af ópíumi og plöntur sem seldar eru til skrauts innihalda ekki þau efnasambönd sem þarf til framleiðslu á ópíumi. Séreiginleikum ólíkra afbrigða hefur verið náð fram með kynbótum og nýjustu erfðatækni.
Bann og ekki bann
Það hvort afbrigði plöntunnar framleiða eða framleiða ekki ópíum skiptir máli víða um heim þegar kemur að því hvort rækta megi plöntuna eða ekki.
Reynt var að setja lög í Evrópusambandinu sem bönnuðu einstaklingum alfarið að rækta P. somniferum. Íbúar víða í Austur-Evrópu, þar sem neysla á fræjunum er mikil, mótmæltu banninu harðlega, auk þess sem fólk sem ræktaði plöntuna til skrauts taldi bannið fráleitt og lögin gengu aldrei í gildi. Þrátt fyrir það gilda í sumum löndum Evrópusambandsins reglur um ræktun plöntunnar og stundum þarf leyfi til að rækta hana á skika umfram ákveðna stærð.
Aftur á móti bíður þeirra sem eiga valmúafræ, hvað þá rækta hann, í Singapúr, Sameinuðu arabísku furstadæmunum eða Sádi-Arabíu löng fangelsisvist.
Dæmi um yrki af ópíumvalmúa sem framleiða ekki ópíum eru 'Sujata' og 'Danish Flag'.
Valmúafræ þekkjast meðal annars sem birkifræ á rúnstykkjum.
Saga valmúaræktunar
Úr ópíumvalmúa er unnið ópíum og önnur ópíöt eins og heróín, morfín, kódein, metadón, og oxycodone. Flest þessi efni eru notuð til lækninga en einnig misnotuð sem nautnalyf með hræðilegum afleiðingum. Einnig er plantan ræktuð til fræframleiðslu og fræin notuð sem krydd við bakstur, auk þess sem plantan er ræktuð til skrauts.
Erfitt er að segja um upprunaleg heimkynni plöntunnar þar sem plantan hefur verið lengi í ræktun og ræktunarsvæði hennar stór en líklegast er það í löndunum við botn Miðjarðarhafsins.
Myndir af fræbelgjum valmúa-plöntunnar eru þekktar sem skreytingar á nytjamunum Súmverja sem voru uppi um 4000 árum fyrir Krist. Súmverjar litu á valmúa sem plöntu sem veitti gæfu og Asseríu-menn kölluðu hana blóm lífsins eða blóm gleðinnar og notuðu rótina sem samfarastyrkjandi.
Mínóísk menning á eyjunni Krít, 2700 til 1450 fyrir Krist, þekkti til ópíums og kallaði mjólkursafa plöntunnar opion. Krítverjar tilbáðu einnig eins konar valmúagyðju sem réði svefn og dauða.
Valmúaleifar hafa fundist í egypskum grafhýsum frá árinu 1000 fyrir okkar tímatal. Grikkinn Hippocrades leit á ópíum sem lyf til lækninga og sagði það gott við astma, kviðverkjum og sjóndepru. Grikkir tengdu ópíum við svefnguðinn Hypnos og son hans, Morfeus, guð undirheima, svefns og drauma. Þanos, hálfsystir Morfeusar, er stundum tengd valmúa og svefni.
Rómverjinn Pliny segir að fólk löngu fyrir hans tíma hafi neytt valmúafræja með hunangi.
Valmúafræ hafa fundist meðal mannvistarleifa sem taldar eru vera yfir 4000 ára gamlar við fornleifarannsóknir á Spáni, Norður-Afríku og suðurhluta Frakklands.
Valmúagyðjan frá Krít.
Ópíumstríðin
Breska heimsveldið og Kínverjar áttu í deilum vegna verslunar Breta með ópíum í Kína á átjándu og nítjándu öld. Deilurnar, sem voru á köflum harðar, kallast fyrra og seinna ópíumstríðið. Tilefni deilnanna var að Kínverjar vildu stöðva verslun Austur-Indíafélagsins með ópíum til Kína.
Eftirspurn eftir silki, postulíni og te var mikil í Evrópu á 17. og 18. öld og verslun með vörur milli breska heimsveldisins og Qing keisaradæmisins var Bretum í óhag.
Á síðust áratugum 18. aldar hóf Austur-Indíafélagið að smygla miklu magni af ópíum frá Indlandi til Kína
og um 1770 hafði fyrirtækið ná yfirburðum á þeim markaði. Aðferð fyrirtækisins við smyglið var að flytja ópíumið til fríhafna í Kína og þaðan var því smyglað um landið af innfæddum. Eftirspurn eftir ópíum í Kína var takmarkalaus og ágóði fyrirtækisins af sölu þess gríðarlegur. Á sama tíma óx fíkn í ópíum í Kína og varð sífellt alvarlegra þjóðfélagsmein. Embættismenn í landinu virtust sérlega útsettir fyrir ópíum og sífellt fleiri urðu efninu að bráð og talið að hátt í 12 milljón manns hafi látist af völdum ópíums sem smyglað var til Kína.
Verslun með ópíum til Kína á þessum tíma var svo ábatasöm að Bandaríkjamenn sáu sér leik á borði og fluttu það frá Tyrklandi til Kína. Atkvæðamestur í þeim viðskiptum mun hafa verið langalangafi Roosevelt Bandaríkjaforseta.
Um miðjan fjórða áratug 19. aldar sendi keisarinn í Kína bréf til Viktoríu Bretadrottningar og bað hana að sjá til þess að smyglinu yrði hætt en drottningin hunsaði bréfið. Árið 1839 hafnaði keisarinn boði Breta um að ópíum yrði gert löglegt í Kína og greiddur skattur af því eins og hverri annarri vöru. Í kjölfarið fyrirskipaði keisarinn flota sínum að stöðva smyglið og gera allt ópíum í landinu upptækt. Bretar töpuðu miklu á aðgerðum Kínverja en héldu uppteknum hætti. Sama ár sendu Bretar hluta flotans til Kína til að gæta hagsmuna Austur-Indíafélagsins og heimsveldisins. Árið 1842 kom til átaka milli ríkjanna þar sem kínversku herskipi var sökkt. Sama ár var keisarinn neyddur til að skrifa undir svokallaðan Nanking-samning þar sem Bretar fengu yfirráð yfir Hong Kong og Kínverjum gert skylt að greiða gríðarlegar skaðbætur. Bretar tryggðu sér yfirráð yfir Hong Kong til 99 ára í samningi sem var gerður árið 1898. Hong Kong fór aftur undir kínversk yfirráð 1987.
Kínverskir ópíumneytendur við upphaf síðustu aldar.
Seinna ópíumstríðið, 1856 til 1860, snerist um tilraun Breta til að gera ópíum löglegt í Kína, auka og tryggja viðskipti sín í landinu. Brölt Breta mætti mikilli andstöðu í Kína, ekki síst þar sem Nanking-samningurinn þótti vægast sagt óréttlátur. Frakkar gengu í lið með Bretum og hugsuðu sér eflaust gott til glóðarinnar með viðskipti í Kína, auk þess sem Bretar óskuðu eftir stuðningi Rússlands og Bandaríkjanna vegna aðgerða sinna í Kína.
Árið 1856 gerði breska herskipið Arrow árás á hafnarborgina Canton og hertók hana. Nokkrum sinnum kom til vopnaðra átaka milli Breta og Frakka saman gegn Kínverjum, meðal annars við Taku-virkið sem stendur við ána Hai og ætlað að fylgjast með skipaferðum um ána. Kínverjar töpuðu stríðinu og varð það til að opna fyrir verslun Vesturlanda í landinu.
Breski þingmaðurinn William Gladstone og síðar forsætisráðherra var alla tíð andvígur verslun Breta í Kína og hélt margar ræður þar sem hann mótmælti henni og kallaði skömm Breta og svívirðu gagnvart Kína sem seint mundi gleymast. Hann gekk svo langt að segja að hefnd Guðs væri óhjákvæmileg hættu Bretar ekki að smygla ópíum til Kína. Andstyggð Gladstone stafaði af því að hann horfi á systur sína verða efninu að bráð.
Svefnlyf fyrir börn
Ópíumneysla var gríðarlega mikil í Evrópu og Bandaríkjunum vel fram á síðustu öld. Breskir verkamenn og -konur í verksmiðjum og námum í upphafi iðnbyltingarinnar gáfu ungum börnum iðulega ópíumdropa svo að þau svæfu á meðan foreldrarnir voru í vinnunni. Í Bandaríkjunum var hægt að kaupa ópíumdropa í apótekum eða panta eftir póstlistum og fá senda heim fram á fyrstu áratugi tuttugustu aldarinnar.
List, bókmenntir og ópíum fólksins
Í evrópskri miðaldamyndlist er rauður valmúinn vísun til líkama og blóðs Krists, uppréttur stöngullinn er líkaminn en rauð krónublöðin tákna blóðið.
Rauður valmúi er víða minningartákn þeirra sem létust í heimsstyrjöldinni fyrri og rauður pappírsvalmúi borinn sem barmmerki á ákveðnum dögum til að minnast þeirra.
Breski rithöfundurinn Tomas de Quincey sendi árið 1822 frá sér bókina Confessions of an English Opium Eater, þar sem hann lýsir ópíumfíkn sinni. Margir átjándu og nítjándu aldar rithöfundar notuðu ópíum sem innblástur við skriftir að eigin sögn og má þar nefna bresk höfuðskáld, Samuel Taylor Coleridge, John Keats, Percy Shelley, Sir Walter Scott, Elizabeth Browning og Lord Byron.
Franska tónskáldið Berlioz notaði ópíum þegar hann samdi Symphonie Fantastique. Í sögu verksins deyr ungur listamaður af völdum ópíums.
Árið 1987 gerði fíkniefnalögregla Bandaríkjanna upptæka valmúlaplöntur í Monticello-garði Tómasar Jefferson, þriðja forseta Bandaríkja Norður-Ameríku. Plöntunum hafði verið viðhaldið í garðinum frá því um 1780 og mun Jefferson hafa unnið úr þeim ópíum til eigin neyslu. Í aðgerð fíkniefnalögreglunnar voru einnig gerð upptæk fræbréf með fræjum úr garðinum og bolir með áprentuðum myndum af plöntunum sem voru til sölu í gjafavöruverslun garðsins.
Í kvikmyndinni Galdrakarlinn í Oz er atriði þar sem Dóróthea og fylgdarsveinar hennar fara yfir valmúaakur þar sem Dóróthea, Tótó og Ljóni falla í svefn.
Karl Marx kallaði trúarbrögð ópíum fólksins og átti þar við að trúarbrögð slævðu hugsunina alveg eins og ópíum og væru þess valdandi að fátæklingar sættu sig við hlutskipti sitt í stað þess að rísa upp gegn kúgun auðvaldsins og valdastéttanna.
Í plöntunni allri en aðallega aldininu er hvítur mjólkursafi sem hráópíum er unnið úr.
Fræ og olía
Auk þess sem valmúafræ eru notuð sem krydd meðal annars við brauðgerð og bakstur er unnin úr þeim olía og fræmauk. Valmúafræ eru lítil, innan við millimetri að lengd og nýrnalaga og þarf um eina til 1,3 milljón fræja í kílóið.
Nafnaspeki
Ættkvíslarheitið Papaver er gamalt latneskt heiti sem er hugsanlega dregið af forn-indóevrópsku orði yfir eld. Tegundaheitið somniferum þýðir svefn á latínu.
Heitið ópíum er upprunalega grískt, opion eða opós, sem þýðir jurtasafi.
Heitið birkens, sem víða er notað yfir fræin, er upprunalega jiddískt orð sem þýðir blessun og notað í sambandi við sabbatbrauð, sem er stráð með valmúafræjum.
Valmúi á Íslandi
Í Ný félagsrit frá 1841 um blóðtöku í sambandi við drykkjuskap: „Sá er einn sjúkdómur, er mjög á náskylt við heilabólgu, en það er drykkju æði af völdum brennivíns ofdrykkju; byrjar það með þrálátu svefnleysi, handaskjálfta og hristingi á öllum kroppnum, er við því þörf góðrar blóðtöku, einkum ef sjúklingur er blóðmikill, og hefir blóðsókn að höfði, þá skal einnig leggja kalda bakstra á höfuðið og gefa svefnjurtardropa (ópíum, 30 til 40 dropa í senn), svo hann geti fengið vær. Leita skal læknis þegar, ef þess er kostur.“
Ópíumvalmúi finnst sums staðar í görðum á Íslandi en ólíklegt er að að hann framleiði ópíum að nokkru ráði. Til þess er vaxtartíminn of stuttur og aðstæður hér langt frá því að vera ákjósanlegar fyrir plöntuna og því engin ástæða til að draga garðeigendur til saka fyrir ræktunina.
Ópíum í þýskum neytendaumbúðum frá um lok átjándu aldar.