Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Sótspor á hvert kíló mjólkur er mun hærra þar sem nyt kúa er lág, sem er algeng staðreynd í þróunarlöndum heimsins.
Sótspor á hvert kíló mjólkur er mun hærra þar sem nyt kúa er lág, sem er algeng staðreynd í þróunarlöndum heimsins.
Á faglegum nótum 18. febrúar 2022

Sótspor mjólkurframleiðslu – Leiðir til minnkunar

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snorri.sigurdsson@outlook.com

Samkvæmt tölum frá FAO, Matvæla- og landbúnaðar­stofn­unar Sameinuðu þjóðanna, þá á mjólkurframleiðsla heimsins frekar lítinn hluta af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda, þ.e. loft­tegunda sem taldar eru geta valdið hækkun hitastigs jarðar.

Þessi losun, sótspor framleiðsl­unnar, verður til víða á löngu framleiðsluferli mjólkur s.s. við framleiðslu og flutninga á aðföngum, við endurnýjun á tækjabúnaði og gripum, við jórtrun, við geymslu, dreifingu á mykju, framleiðslu og dreifingu á mjólkurvörum, kælingu mjólkurvara og margt fleira mætti tína til.

2,2% af sótspori heimsins
Mynd 1. Yfirlit með niðurstöðum rannsóknar IFCN á gögnum 172 kúabúa í 52 löndum um sótspor í samanburði við nyt.

Alls er talið að rekja megi 2,2% af sótspori heimsins til mjólkurframleiðslu og þó svo að það sé e.t.v. ekki hátt hlutfall, í samanburði við stóru meng­unarvaldana og þá staðreynd að hundruð milljóna íbúa heimsins hafi tekjur af búgreininni, þá breytir það því þó ekki að eigi að draga úr sótsporinu í heiminum þarf að horfa á alla þættina. Það sem er einnig sérstakt við mjólkurframleiðsluna er að hún er í stöðugum vexti á heimsvísu og sér ekki fyrir endann á aukningunni, enda þarf að halda áfram að búa til matvæli fyrir stöðugt vaxandi íbúafjölda heimsins. Því þarf líka að skoða hvað unnt sé að gera til þess að draga úr sótspori mjólkurframleiðslunnar í heiminum. Augljósast er að skoða tengingu jarðefnaeldsneytis við heildar framleiðsluferilinn og finna leiðir til að draga úr notkuninni. Þetta snýr að framleiðslu aðfanga eins og áburði, flutningi á aðföngum eða framleiðslu til og frá búunum eða afurðastöðvum o.s.frv.

Aðgerðaráætlun um metan

Meirihluti landa heimsins, 103 talsins, m.a. Ísland, hafa undirritað áætlun um að minnka metanlosun landanna um a.m.k. 30% fyrir árið 2030, en árið 2020 er notað sem samanburðargrunnur. Þó svo að í þessari áætlun stefni hvert land að því að draga úr losun heima fyrir er ekki síður mikilvægt að horfa á heildarmyndina. Tilfellið er að nokkuð auðvelt væri að draga úr sótspori mjólkurframleiðslu á heimsvísu en líklega erfitt að ná þeim árangri að draga úr því að fullu.

Flest alþjóðleg fyrirtæki í afurðavinnslu mjólkur hafa í dag markmið um að draga verulega úr heildarsótspori framleiðslunnar þegar fyrir árið 2030 og að það verði að engu orðið á árabilinu 2040-2050! En hvernig á að ná þessum árangri, sér í lagi þegar horft er til þess að mjólkurframleiðslan í heiminum er og mun halda áfram að aukast á komandi árum? Hér verður ekki horft til þeirra fjölmörgu aðgerða sem afurðastöðvar, dreifingar- eða söluaðilar mjólkurvara geta gert, heldur einungis horft til kúabúanna sjálfra.

Nyt kúa

Einn augljósasti þátturinn til þess að draga úr sótspori mjólkur­framleiðslunnar, þegar búið er að horfa til framangreindrar jarðefnaeldsneytisnotkunar, er að auka nyt kúa.
Kýr hafa almennt séð nokkuð stöðugt sótspor hvort sem þær framleiða mjólk eða ekki. Þetta kemur til af því að þær þurfa auðvitað að lifa af daginn óháð framleiðslunni. Líta má á þetta sem hálfgerðan fastan kostnað og með því að framleiða marga lítra af mjólk lækkar þessi hluti sótsporsins á hvern framleiddan lítra. Þetta sýna alþjóðlegar samanburðartölur vel og þegar horft er til þess hvar hæsta sótsporið er á hvert framleitt kíló mjólkur, þá koma lágnytja kúakyn einstaklega illa út.

Samkvæmt tölum IFCN samtök­anna, sem eru alþjóðleg samtök sem vinna að því að bera saman margs konar upplýsingar varðandi mjólkurframleiðslu í mismunandi löndum, sést vel að eftir því sem meðalnyt kúa lækkar þá snarhækkar sótsporið á hvert kíló eins og sjá má á mynd 1.

Skilvirkni

Gögn IFCN sýna einnig að ekki nema 25% af sótspori mjólkurframleiðslu heimsins koma frá löndunum sem flokkast sem þróuð þrátt fyrir að þar sé meginþungi mjólkurframleiðslunnar. Talið er að 75% sótsporsins á heimsvísu megi rekja til þróunarlanda og landanna sem eru í hvað mestum vexti. Þegar rýnt er í tölurnar kemur í ljós að skýringin er ekki einungis lág nyt á hverja kú heldur einnig óskilvirkni vegna bústærðar. Þannig sýna gögnin að meðalbústærð kúabúa hinna þróuðu landa er 34 kýr en ekki nema 2-4 kýr í þróunarlöndunum. Þetta leiðir til óskilvirkni og minni fagmennsku, sem aftur hefur mælanleg áhrif á sótspor kúabúanna.

Meltingin hefur áhrif

Þriðja atriðið sem má nefna er virkni meltingarkerfis kúnna. Sýnt hefur verið fram á að hægt er að draga úr losun metans frá kúm með því að fóðra þær með ákveðnum hætti og jafnvel með því að gefa þeim sérstakt viðbótarfóður sem hefur hamlandi áhrif á metanframleiðslu í vömb.

Hér kemur einnig til áhrif kynbóta, en tilraunir sýna einnig að munur er á metanframleiðslu einstakra kúa sem þó eru á sama fóðri og með jafn mikla mjólkurframleiðslu. Með öðrum orðum þá er vambarstarfsemin breytileg og því hefur verið bent á að sum naut geti mögulega gefið af sér dætrahópa sem hafi lægri losun á metan en dætrahópar annarra nauta.

Fóður með hátt sótspor

Þekkt er að sótspor heimaaflaðs fóðurs er yfirleitt mun lægra en aðkeypts en það dugar þó ekki til ef heimaaflaða fóðrið nær ekki að halda uppi nythæð kúnna. Því þarf að skoða bæði fóðuröflunina og aðkeypt fóður með heildarniðurstöðurnar í huga. Í dag geta bændur víða um heim fengið upplýsingar um sótspor þess fóðurs sem þeir kaupa, t.d. kjarnfóðurs svo dæmi sé tekið. Dagljóst er að þarna má sækja fram og draga úr sótspori með því að stjórna aðfangakaupum þannig að sótsporið sé sem lægst. Enn er þó staðan sú að ekki liggur fyrir hjá öllum söluaðilum hvert sótspor varanna sem þeir selja er en líklega er þess ekki lengi að bíða að svo verði hjá þorra söluaðilanna. Þessu til viðbótar skiptir máli að nýta fóðrið rétt, samsetning fóðurefnanna sem kúnum er gefið hefur áhrif á sótsporið og því betur sem meltingarvegur kúnna er nýttur því lægra verður sótsporið vegna hagstæðs hlutfalls fóðurs á móti framleiddri mjólk.

Áburður með ólíkt sótspor

Enn eitt atriðið sem horfa má til er sótspor áburðarins. Hver kaupandi ætti auðvitað að gera kröfu um það að fá greinargóðar upplýsingar um sótspor þess áburðar sem er keyptur en samkvæmt úttekt IFCN þá getur það verið harla ólíkt eftir uppruna þess og flutningum. Þá skiptir verulegu máli hvernig áburðurinn er nýttur og nákvæmni við dreifingu hefur hér einnig áhrif á sótspor þess fóðurs sem er verið að framleiða. Nákvæmni við dreifingu skiptir auðvitað alltaf máli og sér í lagi núna þegar áburðarverð er í hæstu hæðum. Þessu til viðbótar má nefna gríðarlegt mikilvægi þess að rækta rétt fóður og ná því heim á réttum tíma, sem bæði lækkar fóðurframleiðslukostnaðinn en gefur um leið lægra sótspor þar sem næringargildi fóðursins er þá eins heppilegt og á verður kosið.

Geymsla, meðferð og dreifing búfjáráburðar

Það kemur vart neinum á óvart að meðferð og meðhöndlun mykju skiptir máli þegar rætt er um sótspor mjólkurframleiðslu. Hér sýna margs konar rannsóknir að því styttri tíma sem mykjan er inni í fjósi og því fyrr sem hún er komin í geymslurými, því betra. Þetta skýrist af meiri gasvirkni frá mykju sem ekki hefur sest til. Þá er hægt að lækka sótspor mykjunnar einnig með því að blanda í hana bætiefnum, sem draga úr gaslosun hennar auk þess sem afgösun hennar s.s. með gerjun og framleiðslu á hauggasi dregur úr sótsporinu.

Slíkar aðferðir eru algengar erlendis, enda gasið þá oftar en ekki nýtt til hitunar á vatni sem vantar ekki beint á mörgum stöðum á Íslandi. Ýmislegt annað má gera við mykjuna til að lækka sótsporið t.d. hefur það góð áhrif að halda fljótandi mykju frá þykkari hluta hennar og geyma í lokuðum tanki eða tönkum og fleira mætti tína til. Það sem þó hefur líklega mest áhrif, á eftir hauggasframleiðslunni, er hvernig mykjunni er dreift. Hér virðist niðurfellingarbúnaður koma einna best út þrátt fyrir töluverða þörf fyrir orku við aðgerðina og þar á eftir slöngudreifing.

Bústjórnin skiptir máli

Að síðustu má taka til bústjórnina almennt þó svo að allt það sem fjallað er um hér að ofan tengist auðvitað bústjórninni með beinum hætti. En bústjórnin nær auðvitað yfir allt framleiðsluferlið og sýnt hefur verið fram á að á þeim búum, þar sem kýrnar ná að endast lengur, er sótsporið lægra en á öðrum búum. Þetta skýrist fyrst og fremst af þeirri staðreynd að slík bú þurfa ekki að ala jafn margar kvígur til endurnýjunar bústofnsins og önnur bú, með öðrum orðum þá hefur það áhrif til lækkunar sótspors sé kúabúið með færri dýr í eldi sem ekki eru í framleiðslu, eins og t.d. kvígur eða geldkýr. Þetta sparar bæði pláss, vinnu og margs konar aðföng sem dregur úr sótspori búsins. Þá skiptir almennt heilbrigði miklu máli en því oftar sem hægt er að selja alla mjólk til manneldis, því lægra verður sótsporið.

Kolefnisjöfnun?

Margir velta fyrir sér hvort ekki megi líka leggja vinnu í að binda kolefni, t.d. með skógrækt. Það er vissulega leið en rétt er að geta þess að afar stórt landsvæði þarf til, til þess að kolefnisjafna mjólkurframleiðsluna.

Á íslenska Vísindavefnum kemur fram að meðalbinding koltvíoxíðs í íslenskum skógum er talin vera um 4,4 tonn á hektara á ári, yfir 90 ára vaxtartíma skógarins. Sé miðað við að sótspor íslenskrar mjólkur sé umreiknað yfir í um 1 kg koltvíoxíðs á hvert framleitt kíló stendur hektarinn því undir 4.400 lítra framleiðslu. Meðalkýrin á Íslandi, sem árið 2021 mjólkaði 6.336 lítrar það ár, þyrfti því að hafa á bak við sig 1,4 hektara af skógi. Þess má þó geta að sumar trjátegundir binda mun meira en hér hefur komið fram. Þannig er t.d. talið að einn hektari af alaskaösp geti bundið allt að 20 tonn af koltvíoxíði á ári og getur því staðið undir ársframleiðslu rúmlega þriggja kúa svo dæmi sé tekið!

Aðalheimild:
Alice Diepenbrock og Milica Kocić, 2021. Greenhouse gas emissions from dairy in emerging dairy countries. 2nd IFCN Dairy Forum, November 18th 2021.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...