Tignarlegt jólablóm
Riddarastjarna, eða amaryllis, eins og þessi glæsilega laukplanta er oft nefnd, er upprunnin í Suður-Ameríku en hefur dreifst þaðan sem pottaplanta vegna þess hversu harðger og auðveld hún er í ræktun, auk þess að vera blómviljug.
Blómin eru í mörgum litum, rauð, hvít og bleik auk þess sem þau geta verið marglit.
Áður en laukurinn er settur í mold er gott að láta neðri hluta hans standa í volgu vatni í nokkra klukkutíma þar sem slíkt hraðar rótarmyndun. Amaryllis-laukar þrífast best í næringarríkum og vel framræstum moldarjarðvegi við 15 til 20 °C.
Þegar lauknum er komið fyrir í potti skal láta helming til einn þriðja af honum standa upp úr moldinni en þrýsta henni þéttingsfast að neðri hlutanum án þess þó að skemma ræturnar séu þær farnar að myndast.
Moldin í pottunum skal alltaf vera rök yfir vaxtartímann en laukurinn þolir nokkurn þurrk á meðan hann er í hvíld.