Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Meiri háttar valdaframsal í uppsiglingu í orkumálum
Mynd / HKr,
Fréttaskýring 2. nóvember 2018

Meiri háttar valdaframsal í uppsiglingu í orkumálum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Norski lagaprófessorinn Peter T. Örebech frá Tromsö hélt erindi á fjölmennum fundi á háskólatorgi Háskóla Íslands þann 22. október sl. Samkvæmt orðum Örebech er verið að stefna íslenskum hagsmunum í orkumálum og þar með sjálfsákvörðunar- og fullveldisrétti þjóðarinnar í stórhættu ef Alþingi samþykkir að innleiða regluverk ESB á bak við orkupakka 3. 
 
Að fundinum stóð Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fékkst enginn til að tala fyrir sjónarmiðum Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur iðnaðarráðherra.
 
Fullyrt að orkupakki 3 hafi ekki áhrif á réttarstöðu íslenskra orkumála
 
Birgir Tjörvi Pétursson lögmaður vann greinargerð fyrir ráðherra.  
Iðnaðarráðherra lét héraðsdóms­lögmanninn Birgi Tjörva Pétursson vinna fyrir sig greinargerð sem efnislega telur enga hættu felast í því fyrir Íslendinga að samþykkja orkupakka 3. Í áliti sínu, sem birtist í september, sagði Birgir Tjörvi meðal annars að reglurnar í orkupakkanum myndu ekki hafa áhrif á eignarrétt á orkuauðlindum á Íslandi, þar sem 125. grein EES-samningsins, um að samningurinn hafi ekki áhrif á reglur samningsríkis um skipan eignaréttarins.
 
 
 
Þórdís Kolbrún R. Gylfa­dóttir iðnaðar­ráðherra..
Þórdís Kolbrún sagði í tilkynningu um greinargerðina í september síðastliðinn að hún hafi lagt sig fram við að hlusta eftir gagnrýnisröddum á mál sem snúa að þriðja orkupakkanum. Hún sagði þar að greinargerð Birgis Tjörva væri ítarleg og svara þeim helstu álitamálum sem hefur verið rætt um opinberlega.
 
„Athugun á innihaldi þriðja orkupakkans styður ekki sjónarmið um að innleiðing hans fæli í sér slík frávik frá þverpólitískri stefnumörkun og réttarþróun á Íslandi að það kalli sérstaklega á endurskoðun EES-samningsins. Með innleiðingu hans væri ekki brotið blað í EES-samstarfinu,“ sagði ráðherra.
 
 
 
Álit sem unnið var fyrir ráðherra er þvert á álit lagaprófessorsins
 
Sú staðhæfing sem finna má í málinu sem unnið var fyrir iðnaðarráðherra er algjörlega þvert á það sem kom fram í máli Peter T. Örebech á fundinum í HÍ. Hann hefur líka skilað greinargerð til norska Stórþingsins vegna sama máls.
 
Lagaprófessorinn Peter T. Örebech.
Um greinargerð Birgis Tjörva gerir Peter T. Örebech mjög ítarlegar athugasemdir og segir hann m.a. misskilja eða sjást yfir mikilvæg atriði grundvallarsamninga fyrir tilurð ESB og ekki taka tillit til fordæmisgefandi dóma um ýmis atriði hans, m.a. um eignarréttarákvæði. Örebech segir m.a.:
„Jafnvel þótt skrif lögmannsins séu dálítið óskýr m.t.t. þess, hvort hann haldi því fram, að reglur EES-samningsins skuli ekki gilda, nema afleidda lagasetningin nefni það sérstaklega, þá sé ég ástæðu til að nefna, að þessu er þveröfugt farið: 
 
Allar nýjar gerðir og tilskipanir, sem varða EES-samninginn – ef EES-löndin undirgangast þær – gilda fyrir allt EES. Ef EES-ríki óskar eftir undanþágu frá einu eða fleiri ákvæðum í nýrri Evrópugerð, já, þá þarf að semja sérstaklega um það, og undanþágurnar verða að koma fram í viðkomandi reglugerð.“
 
Ályktanir standast ekki og eru í mótsögn við EES-samninginn
 
„Niðurstaða mín er sú, að lögmaðurinn BTP dragi ályktanir, sem ekki standast. Þetta á við um skoðanir lögmannsins á, að EES-samningurinn gildi ekki um orkugeirann vegna þess í fyrsta lagi, að grein 125 í EES-samningnum – reglan um eignarrétt, sem sé á valdi  hverrar þjóðar – að sögn – útiloki slíkt. 
Í öðru lagi sú afstaða lögmannsins, að greinar 11, 12 og 13 um magnbundnar viðskiptahindranir gildi ekki um Ísland vegna þess að landið, eins og staðan er í dag, sé án strengtenginga við útlönd.
 
Hver sá, sem hefur kynnt sér réttarvenjur, mun auðveldlega sjá, að grein 125 gildir um – andstætt því sem lögmaðurinn BTP heldur fram – eignarréttarlegar  aðstæður á Íslandi, vegna þess að ESB-dómstóllinn hefur slegið því föstu, að þessar aðstæður séu ekki almennt undanþegnar hvorki innri markaðinum né „fjórfrelsinu“.  Þessu er einnig slegið föstu fyrir orkugeirann, sbr. úrskurð  EFTA-dómstólsins 2007 „Hjemfallssaken“ [þar sem dómstóllinn féllst á réttmæti eignarupptöku norska ríkisins af einkafyrirtækjum á vatnsaflsvirkjunum eftir ákveðinn tíma virkjananna í rekstri].  
 
Það er enn fremur misskilningur, þegar lögmaðurinn  BTP heldur því fram, með einfaldri tilvísun til þess, að Ísland er ekki tengt erlendum rafkerfum, að landið sé þar með undanþegið grundvallarákvæðum í greinum 11, 12 og 13 í EES-samningnum. Þetta er í mótsögn við sjálfan EES-aðalsamninginn, sbr. „Viðauka IV orka“ (grein 24) og EES-grein 2 a). Sömu ályktun má draga af innganginum að nýjum reglugerðum og tilskipunum í orkugeiranum, sbr.  hugtakið  „EES-tengdur texti“.
 
Allar samþykktir aðalsamnings EES eiga – eftir því, sem hinir ýmsu „orkupakkar“ koma fram og öðlast samþykki – algerlega við um Ísland. Þetta þýðir t.d. að íslenskt bann við því að stofna til sæstrengstenginga við útlönd væri andstætt 12. grein EES-samningsins,“ segir Peter T. Örebech.
 
Víðtækt valdaafsal í orkumálum
 
Samkvæmt orðum norska lagaprófessorsins er það kristaltært að innleiðing á orkupakka Evrópusambandsins númer 3 mun leiða til þess að ACER, Orkustofnun ESB, mun ná yfirþjóðlegri stöðu á Íslandi. Það þýðir að regluverk orkupakkans mun yfirkeyra íslensk lög og standa skör hærra í lagalegu tilliti. Það felur í raun í sér algjört og mjög víðtækt valdaafsal Íslands í orkumálum. Afleiðingin yrði sú að hvaða lög og reglur sem menn kunna að setja um mögulegt bann við lagningu sæstrengs yrðu ekki pappírsins virði. 
 
Sæstrengur yrði líklega næsta skref 
 
Íslenska ríkisfyrirtækið Lands­virkjun er enn með sæstrengslögn um „IceLink“ til Bretlands á sinni stefnuskrá og fer ekki dult með það á sinni heimasíðu. Slíkur strengur myndi um leið og hann yrði tengdur við Bretland hafa afdrifarík áhrif hér á landi. 
 
Því hefur m.a. verið haldið fram af Landsvirkjun að slíkur strengur myndi leiða til betri nýtingar á launafli í íslenska orkukerfinu. Það er að hluta til rétt, en umtalsverður hluti af slíku launafli sem færi inn á strenginn yrði orkutapi að bráð. Þá er yfirleitt ekkert talað um að strengurinn yrði rándýr og yrði aldrei lagður nema að inn á hann yrði tryggt stöðugt flæði raforku frá Íslandi. Það segir okkur að miðað við þær tölur sem forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa sett fram að hér þyrfti að byggja sem svaraði einni Kárahnjúkavirkjun eða þrem Blönduvirkjunum til þess eins að fóðra strenginn af hreinni raforku. Afar litlar líkur eru á að samstaða næðist um slíkt meðal núverandi stjórnarflokka. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort yfirþjóðlegt vald sem fælist í undirritun orkupakka 3 gæti yfirunnið mögulegar íslenskar laga- eða reglugerðarhindranir sem stæðu þar í veginum.
  
Vilja hreinsa orkuímynd ESB á kostnað þjóða eins og Íslands og Noregs
 
Ástæðan fyrir því að Evrópuríkin sækjast svo mjög eftir að fá aðgengi og helst ná yfirhöndinni í stjórn orkumála á Íslandi er tvíþætt og má vel sjá í tölum Eurostat. Ört vaxandi eftirspurn er eftir raforku í álfunni m.a. vegna kröfu um orkuskipti og síðan hætta á orkuskorti samfara lokun mengandi orkuvera svo ekki sé talað um kröfu um að loka kjarnorkuverum. 
 
Stærsti hluti mengunar sem hlýst af núverandi orkuframleiðslu er svo utan sviga í þeim botnlausa blekkingarleik sem stundaður er í loftslagsumræðu heimsins. Þar er að mestu látið nægja að dæsa í fínum kaffiboðum yfir mengun frá bílum og leggja þar á ráðin með skattlagningu dísil- og bensínbíla til að friða samviskuna. Bíleigendur eru líka nægilega sundurlaus hópur til að ekki þurfi að óttast að hann svari fyrir sig með einhverjum efnahagslegum refsiaðgerðum. 
 
Lítill hluti orku Evrópulandanna af endurnýjanlegum uppruna
 
Samkvæmt tölum Eurostat voru aðeins 12,5% allrar orku í löndum ESB af endurnýjanlegum uppruna árið 2010. Markið var sett á 20% árið 2020, en hlutfall hækkaði ekki nema um 0,7% fram til 2016 og var þá komið í 13,2%. Ef takast á að ná markmiðum þarf augljóslega að sækja hluta af hreinni orku eitthvað annað og þar dugar ekki til lengdar blekkingaleikur með pappírslegum tilfærslum á hreinni orku frá Íslandi í formi syndaaflausna eða hreinleikavottorða. 
 
Yfir 70% af frumorku Evrópu er framleiddur með olíu, gasi og kolum
 
Langstærsti hluti frumorkunnar í Evrópu 2016 var framleiddur með olíu, eða 34,6% og gasi 23,3%. Þar á eftir koma kol með 14,7% hlutfall og kjarnorka er jafnfætis endurnýjanlegri orku með 13,2%, en önnur orkuframleiðsla er upp á 1%.
 
Mestu kolabrennsluþjóðirnar eru Eistland með 61,1% hlutfall, Pólland með 49,1%, Tékkland með 39,7%, Búlgaría með 31,4% og langmesti orkunotandinn, Þýskaland, fær 24,3% af sinni orku úr kolum. Þar minnkaði notkun kola, olíu og gass sáralítið á síðasta ári en orkuaukning hefur að mestu fengist úr vind- og sólarorku. 
 
Mestu olíubrennsluþjóðirnar 2016 voru Kýpur með 93,1%, Malta með 78,6%, Lúxemborg með 62,8%, Grikkland með 53,1% og Írland með 49,9%.
 
Mestu gasbrennsluþjóðirnar eru Holland með 38,4%, Ítalía með 37,5%, Bretland með 36,7%, Ungverjaland með 31,2% og Írland með 28,6%.
 
Frakkland er langöflugast í notkun kjarnorku með 41,8% hlutfall af þeim orkugjafa. Þá kemur Svíþjóð með 33,1%, Slóvakía með 23,4% og Búlgaría með 22,5% hlutfall.  
 
Markmiðið er allsherjar nettenging raforkukerfis Evrópu    
 
Samkvæmt orðum Peter T. Örebech er það innifalið í stofnmarkmiðum ESB að unnið skuli að nettengingu allra aðildarlandanna við orkunet Evrópu, þ.e. Trans-European Networks for Energy (TEN-E).  Þá er það beinlínis skylda aðildarríkjanna að miðla orku til þeirra landa sem þurfa á henni að halda. Innleiðing á orkupakka þrjú er því greinilega liður í því markmiði að festa Ísland í þessum orkuvef eða ofurneti framtíðarinnar, „European supergrid“. 
 
Hluti af þessu dæmi er að þann 28. júní sl. undirritaði forseti Evrópuráðsins, Jean-Claude Junker, samstarfssamning við forsvarsmenn þriggja Eystrasaltsríkja um samhæfingu raforkukerfanna í Póllandi, Litháen og Lettlandi við Evrópunetið. Í því felst áætlun um lagningu bæði jafnstraums og riðstraumsstrengja á milli Póllands og hinna aðildarríkja samkomulagsins. 
 
Hærra orkuverð
 
Bannað yrð að mismuna orku­kaupendum hvort á sínum enda sæstrengsins um leið og hann yrði tengdur við orkunet Evrópu. Afleiðingin yrði sú að orkuverð á Íslandi yrði að taka mið af breytilegu orkuverði í Evrópu. Það getur þýtt að orkuverð til íslenskra heimila hækkaði stórlega og fylgdi orkuverðssveiflum í Evrópu. Íslensk stjórnvöld hefðu hreinlega ekkert með það að segja. Þetta er m.a. reynslan frá Noregi.  
 
Sundurlimun Landsvirkjunar þýðir að forsendur Þjóðarsjóðs fjúka út um gluggann
 
Afar ólíklegt er að yfirgnæfandi samkeppnisstaða Landsvirkjunar á íslenskum orkumarkaði yrði látin óátalin eftir innleiðingu á orkupakka 3. Sú staða stæðist ekki lög og regluverk ESB. Því yrði væntanlega sett fram krafa um að Landsvirkjun yrði hlutuð í smærri einingar. Það galopnar síðan leið fyrir einkavæðingu slíkra eininga og einstakra raforkuvera. Þar með er hruninn grundvöllur fyrir stofnun Þjóðarsjóðs sem er eitt meginstefið í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Þá hugmynd ítrekaði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra  á ársfundi Landsvirkjunar fyrr á þessu ári. Sem sagt að komið yrði á fót sérstökum Þjóðarsjóði um arðgreiðslur Landsvirkjunar. Bætti hann við að góð fjárhagsstaða Landsvirkjunar gerði fyrirtækinu kleift að greiða umtalsverðan arð til ríkisins á næstu árum. 
 
Ljóst er að með slíkum sjóði er um risavaxið dæmi að ræða og fjármuni sem væru þá í eigu þjóðarinnar. Það yrði ekki ónýtt fyrir áhugasama að komast í stjórnunarstöður í slíkum peningapotti. 
 
Landsvirkjun hefur undanfarin tvö ár greitt 1,5 milljarða á ári í arð í ríkiskassann. Hörður Arnarson forstjóri lét þó hafa það eftir sér að Landsvirkjun eigi að geta greitt 110 milljarða króna í arð til ríkisins árin 2020 til 2026 enda hafi fjárhagslegur styrkur aukist verulega á síðustu árum. Með hugsanlegum uppskiptum og einkavæðingu Landsvirkjunarbúta í kjölfarið yrðu þessi Þjóðarsjóðsáform í raun úr sögunni. Einkafyrirtæki færu aldrei að ráðstafa hagnaði af orkusölu í einhvern þjóðlegan orkusjóð. 
 
Kunnugleg blekkingarrökræða?
 
Í júní sagði Michael Mann, sendiherra ESB á Íslandi, í samtali við Viðskiptablaðið, að áhyggjur fólks á Íslandi af orkupakka 3 væru „algjörlega tilefnislausar“. Þriðji orkupakkinn væri engin ógn við Ísland og vísaði hann á bug því sem hann kallaði „rangfærslum“ um áhrif hans hér á landi.
 
„Megintilgangurinn með orku­pakkanum er að veita neytendum ódýra og örugga orku með tilstilli markaðsafla og hann er ekki nokkur ógn við framkvæmd íslenskrar orkustefnu. Þar sem Ísland er eyja, einangruð frá öðrum orkumörkuðum, mun landið njóta víðtækra undanþága frá flestum helstu skyldum sem fylgja nýju löggjöfinni,“ sagði Mann m.a. í viðtalinu við Viðskiptablaðið. 
 
Eitthvað hljómar þetta stef kunnuglega í eyrum þegar rifjuð eru upp orð sem féllu þegar ríkisstjórn Íslands ákvað á sínum tíma að sækja um aðild Íslands að ESB og hefja samningaviðræður og það án þess að spyrja þjóðina fyrst. Sama rökfræði var viðhöfð þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn reyndi að telja Íslendingum trú um að það eina rétta í stöðunni eftir hrun væri að þjóðin tæki á sig að borga víxil vegna fjárglæfraskulda einkaaðila. Það var líka gert í Icesave-málinu og þetta er sami röksemdagrunnurinn og Grikkir voru neyddir til að kokgleypa þegar þeir voru látnir taka á sig að borga gríðarlegar óreiðuskuldir þýskra og franskra banka. Sendiherra ESB hefur einnig sagt:
 
„Þar sem EES er tveggja stoða kerfi munu þær valdheimildir sem ACER fer með í aðildarríkjum ESB verða á vegum ESA, Eftirlits­stofnunar EFTA, á Íslandi.“ Helsta hlutverk ACER – og ESA í tilfelli orkumála EFTA-ríkjanna – er að hafa eftirlit með mörkuðum og getur aðeins beitt valdheimildum gagnvart eftirlitsstjórnvöldum ESB-ríkja í málum þar sem eftirlitsstjórnvöldum tveggja aðildarríkja tekst ekki að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Jafnframt eru heimildir ACER bundnar að mestu við grunnvirki sem ná yfir landamæri og eiga því ekki við á Íslandi á meðan slík grunnvirki eru ekki til staðar.“
 
Slíka röksemdafærslu hrakti Peter T. Örebech með rökum á fundinum í HÍ. Vísaði hann í lög og regluverk ESB og grunnþætti regluverksins sem felast í Maastricht samningnum frá 1992 og afleiðingum hans m.a. varðandi sameiginlegan innri markað aðildarríkjanna. Þar komi greinilega fram að samningur vegna heildarinnar yfirtaki lög einstakra aðildarríkjanna þegar hagsmunir heildarinnar eru taldir yfirsterkari. Tveggja stoða kerfið sé við slíkar aðstæður haldlaust og sérstaklega þegar smáríki eins og Ísland ætti í hlut. 
 
Þá varðar þetta líka skyldur ríkjanna til að aðstoða hvert annað í orkuöflun. Út úr slíkum yfirþjóðlegum gjörningum getur verið erfitt að komast eins og Bretar eru nú farnir að upplifa mjög vel á eigin skinni í sínum BREXIT viðræðum.
 
 – Sjá nánar hér um málið og erindi Bjarna Jónssonar og Vigdísar Hauskdóttur á fundinum í Háskóla íslands.

Skylt efni: orkumál | Orkupakki 3 | ACER | Landsvirkjun | esb

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...