Um 50–75% Íslendinga eru með of lítið af D-vítamíni í blóði
Embætti landlæknis og Rannsóknastofa í næringarfræði við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands kynntu þann 10. mars síðastliðinn niðurstöður könnunar um mataræði Íslendinga sem gerð var á árunum 2019-2021. Þar kemur fram að neysla flestra vítamína og steinefna er að meðaltali yfir ráðlögðum dagskammti (RDS), nema á D-vítamíni, fólati og joði.
Ýmsir hafa verið að benda á að sökum sólarleysis hér á norðurslóðum þjáðust Íslendingar af of litlu D-vítamíni, sem orsakaði margvíslega kvilla sem auðveldlega mætti koma í veg fyrir með inntöku á D-vítamíni og lækka um leið álag og kostnað á íslenska heilbrigðiskerfinu. Þó varað sé við að taka hástemmdar fullyrðingar um þessa hluti sem heilögum sannleik, er samt varla skynsamlegt að hundsa algerlega jákvæða reynslu leikmanna og hámenntaðra sérfræðinga um áhrif af inntöku D-vítamíns.
Skýrsla Embættis landlæknis og Rannsóknastofa í næringarfræði við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, sem kynnt var 10. mars síðastliðinn, sýnir að mikill skortur er á D-vítamíni hjá Íslendingum.
Lítil áhersla virðist lögð á það sem virðist augljós lausn
Þekkt er að sólarlandaferðir hafi góð áhrif á marga sem þjást hafa af ýmiss konar sjúkdómum eins og sóreasis (Psoriasis) húðsjúkdóma, gigt og sleni. Þá hefur D-vítamín áhrif á heilsu beina og tanna, vöðva og ónæmiskerfis. Athyglisvert er í því samhengi að velta því fyrir sér af hverju heilbrigðisyfirvöld hafi ekki lagt mun meiri áherslu á inntöku D-vítamíns fremur en að benda fólki á margvíslega rándýra lyfjakúra, t.d. við húðsjúkdómum, með afar takmörkuðum árangri.
Fituleysandi hormón
Þó talað sé um D-vítamín, þá er það í raun ekki vítamín heldur hópur fituleysanlegra hormóna, eða pre-hormón (secosteroid), sem ber ábyrgð á því að auka upptöku kalsíums, magnesíums og fosfats í þörmum ásamt mörgum öðrum líffræðilegum áhrifum. Mest áríðandi er D3-vítamín sem líka er þekkt sem cholecalciferol, en D2 er nefnt ergocalciferol. Líkaminn getur framleitt D-vítamín með hjálp sólarinnar. Þá eru það aðeins útfjólubláir geislar á bylgjulengdinni 290-315 nm (nanómetrar) sem duga til að framleiða það. Talið er líklegt að 40-75% jarðarbúa búi við skort á D-vítamíni.
Samband er á milli D-vítamíns í blóði og sjálfvakinna segamyndunar í neðri hluta bláæðanna, eða blóðtappa, að því er fram kemur í gögnum National Institutes of Health í Bandaríkjum. Rannsókn sem þar er vitnað í sýnir að skortur á D-vítamíni getur aukið líkur á blóðtappamyndun.
Staðan versnar og vaxandi skortur er á D-vítamíni hjá Íslendingum
Samkvæmt niðurstöðum landskönnunar á mataræði Íslendinga frá 2010-2011 var meðalneysla D-vítamíns hjá fullorðnum 8,1 µg/dag úr fæðu og lýsi samanlagt en ekki var reiknað með hve mikið D-vítamín kom úr öðrum fæðubótarefnum.
Í rannsókninni sem kynnt var 14. mars hefur staðan hins vegar versnað talsvert og má eflaust fullyrða að hún sé orðin talsvert alvarleg.
Þar segir:
- Meðalneysla á D-vítamíni úr fæðu er tæplega 5 µg/dag.
- Meðalneysla úr fæðu að viðbættum bætiefnum er að meðaltali 21 µg/dag.
- 75% karla og 65% kvenna í yngsta aldurshópnum ná ekki RDS.
- 50% í hinum aldurshópunum ná ekki RDS.
- Meðalneysla úr fæðu að viðbættum bætiefnum er að meðaltali 21 µg/dag.
Um 17% kvenna og þriðjungur karla fengu sem svarar ráðlögðum dagskammti eða meira af D-vítamíni. Í könnuninni sást að konur tóku síður lýsi og borðuðu minna af fiski. Fjórðungur kvenna og 8% karla náðu ekki lágmarksþörf fyrir vítamínið, sem er 2,5 µg/dag. Þeir hópar sem sögðust aldrei taka lýsi fengu að jafnaði um 4–5 µg/dag af D-vítamíni.
D-vítamín og fólat
Í skýrslunni er D-vítamíns og fólats fyrir konur á barneignaraldri getið sérstaklega, en þar segir m.a.:
„Þetta eru einu næringarefnin sem ráðlagt er að taka sem fæðubótarefni en öllum er ráðlagt að taka D-vítamín (lýsi, perlur, töflur eða úða) og konum á barneignaraldri er ráðlagt að taka fólat.“
- Meðalneysla á fólati er undir ráðleggingum, sérstaklega meðal kvenna.
- 30% kvenna á barneignaraldri ná RDS þegar reiknað með fæðubótarefnum.
- Einungis 12% þeirra taka fólat sem fæðubótarefni eins og ráðlagt er.
Höskuldur H. Dungal (t.h.) prófessor, Bruce W. Hollis, prófessor í barnalækningum við Lyflækningaháskólann í Suður-Karólínu og Debra, eiginkona hans (t.v.). Myndin var tekin 14. október 2018.
Segir hægt að fækka dauðsföllum og spara heilbrigðiskerfinu milljarða með auknu D-vítamíni
Höskuldur Dungal er einn þeirra sem mikið hefur velt fyrir sér áhrifum D-vítamíns á líkamann.
Fór hann að kynna sér þessi mál og hefur viðað að sér gríðarlegu magni upplýsinga og rannsókna um áhrif D-vítamíns á líkamann og m.a. kynnt sér nýjustu rannsóknir þekktra vísindamanna.
Hann telur að ef niðurstöður rannsókna á D-vítamínskorti Bandaríkjamanna væru yfirfærðar á Íslendinga, með námundun, mætti áætla að það sparaði íslenska heilbrigðiskerfinu 13 milljarða á ári. Ótímabærum dauðsföllum myndi fækka um 330 á ári með því að almenningur hafi nóg af D-vítamíni, eða a.m.k. 100 nmól/L, eða 100- 150 nmól/L.
Í sambandi við fjölmarga vísindamenn
Höskuldur sagði í samtali við Bændablaðið að hann hafi byrjað á að kynna sér rannsóknir sem hann fann á netinu á D-vítamíni. Í framhaldinu komst hann í samband við helstu sérfræðinga heims á þessu sviði.
Þar má nefna Michael Holick, prófessor við Boston háskóla, sem hefur rannsakað D-vítamín í meira er 40 ár. Einnig Cedric Garland, prófessor við háskóla í San Diego í Kaliforníu, sem hefur mikla reynslu á þessu sviði, Bruce Hollis (Ph.D), prófessor í barnalækningum við Lyflækningaháskólann í Suður-Karólínu, Carole Baggerly, stofnanda og framkvæmdastjóra „Grassrootshealth“ og dr. John Cannell, stofnanda „Vitamin D Council“, sem er mjög þekktur í Bandaríkjunum af baráttu sinni gegn reykingum.
Var vísað á tjörukrem, steralyf og sól en ekki D-vítamín
„Það vill svo til að einstaklingur sem ég þekki mjög vel, hefur verið með psoriasis á báðum olnbogum og hársverði í áratugi. Aldrei hefur læknir ávísað D-vítamíni til þessa einstaklings til að meðhöndla sjúkdóm hans. Hins vegar fékk hann alls konar sterakrem o.fl. en aldrei D-vítamín. Ljóst hefur þó verið að læknarnir hafa mælt með sólböðum og sólarlandaferðum. Þeim var ljóst að sól hafði góð áhrif á sjúkdóminn.
Það er eins og þeir hafi ekki getað tengt þetta saman – þ.e.a.s. það eina sem gerðist var að líkaminn / húðin framleiddi D-vítamín með hjálp útfjólublárra geisla sólarinnar.
Þessi einstaklingur fór að taka um 10.000 i.u. af D-vítamíni á dag og psoriasis hvarf. Hvers vegna gaf læknirinn ekki honum D-vítamín þar eð hann mælti með sól?
Lyf sem verið er að ávísa fólki til að meðhöndla sóreasis eru í sumum tilvikum allavega að kosta ríkið um eða yfir eina milljón á ári. Hins vegar má gera ráð fyrir að kostnaður sjúklings sé lítill því ríkið niðurgreiðir það að mestu. Með því að taka D-vítamín myndi ársskammtur af því líklega kosta innan við 5.000 krónur án niðurgreiðslu,“ segir Höskuldur.
Segist sleginn yfir þekkingarskorti hámenntaðra lækna
„Eftir að ég fór að kynna mér þessi mál betur komst ég að því að þekkingarskorturinn í heilbrigðiskerfinu á áhrifum D-vítamíns er gríðarlegur.
Ég var með dóttur mína uppi á Borgarspítala á árinu 2017 og við vorum eitthvað að ræða við lækni almennt um vítamín. Þetta var heila- og taugaskurðlæknir. Hann segir við okkur: Vitið þið hvað? Hvað meinarðu? segi ég. – Já, vitið þið hvað? segir læknirinn. – Ég var allur í vöðvastrengjum og verkjum um allan líkamann. Þá segir kollegi minn við mig; heldur þú að þig vanti bara ekki D-vítamín? – Síðan segir læknirinn við okkur að hann hafi í framhaldinu farið að taka D-vítamín og losnað við alla strengina í líkamanum og verki í vöðvum.“
Hámenntaður læknir sem þjáðist af hörgulsjúkdómi!
„Nú, við kvöddum lækninn og svo þegar ég kom heim var eins og ég hafi fengið hamar í hausinn. Ég fór að hugsa. Var þetta Raggi rakari eða Bjössi bílstjóri sem ég var að tala við rétt áðan? Nei, þetta var hámenntaður læknir sem starfaði á Landspítalanum og þjáðist af hörgulsjúkdómum vegna D-vítamínskorts.
Þegar ég gerði mér grein fyrir alvarlegum þekkingarskorti þessa hámenntaða læknis fór ég á netið og leitaði mér upplýsinga. Þá var eins og ég væri aftur sleginn í hausinn með sleggju. Gat það virkilega verið rétt að læknar væru ekki betur að sér um áhrif vítamínsskorts á líkamann?
Við skoðun mína á fjölda rannsókna komst ég að því að D-vítamín dró úr áhrifum 19 tegunda krabbameina. Það dregur úr líkum á að fá sykursýki eitt og tvö, einnig MS og svo framvegis. Ég varð svo gáttaður að sjá þetta.“
Núll klukkutímum varið í næringarfræði í læknadeildinni
„Um einu og hálfu ári eftir þetta fór ég upp í Háskóla Íslands til að hitta þar prófessor í næringarfræði. Við spjölluðum saman í tvo klukkutíma, en þá var ég búinn að viða að mér upplýsingum og lesa um D-vítamín í meira en ár. Í miðju okkar spjalli spyr hún mig: Veistu hvað er mikil kennsla í næringarfræði í læknadeild? Nei, sagði ég, mig grunar samt að hún sé nú ekki mikil. Þá segir hún: Það eru núll klukkutímar! Ég veit allt um það, segir hún, því ég er yfir næringarfræðideildinni í Háskóla Íslands.“
Samkvæmt þessari töflu úr skýrslu Embættis landlæknis og Rannsóknastofu í næringarfræði við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, þá eru jafnvel efstu mörkin í D-vítamínneyslu Íslendinga allt of lág.
Stöðugt á varðbergi gagnvart fölskum upplýsingum
„Nú, ég hélt áfram að kynna mér þessi mál á netinu og var allan tímann mjög meðvitaður um að þar gæti verið aragrúi af falsupplýsingum. Alltaf leiddu upplýsingarnar mig samt að sömu prófessorunum. Þá vildi svo til að einn þeirra, Bruce Hollis, sem er prófessor í barnalækningum, kom hingað til lands í skemmtiferð með vinum sínum 2018. Hann er búinn að stúdera D-vítamín í yfir 30 ár. Ég spyr hann hvort hann sé ekki til í að koma með mér í heimsókn til landlæknis. Eftir smá umhugsun sagðist hann hafa tíma 10. október. Það varð síðan úr að ég fór með honum á fund landlæknis þennan dag. Þar mættum við 5 fulltrúum embættisins – en landlæknir sá sér ekki fært að mæta.
Prófessorinn sagði á þessum fundi að Landlæknisembættið þyrfti að leiðrétta þá ráðgjöf á sinni heimasíðu að ekki væri ráðlegt að taka meira en 600 alþjóðlegar einingar (IU) af D-vítamíni á dag. Hvað þá barnshafandi konum. Það ætti ekki að ráðleggja 600, heldur að minnsta kosti ríflega tífalt meira, eða 6.400 einingar.
Málið er að ef barnshafandi konur fara að ráðleggingum Landlæknisembættisins, þá eru 76% kvenna með D-vítamínskort við fæðingu og 82% barnanna sem fæðast,“ segir Höskuldur, sem vísar í rannsóknir prófessors Michael F. Holick.
Þýskir vísindamenn segja hægt að fyrirbyggja dauða vegna Covid-19 með nægu D-vítamíni
Þessar niðurstöður um D-vítamín í könnun um mataræði Íslendinga eru áhugaverðar fyrir margra hluta sakir. Þekkt er að D-vítamín hefur áhrif á hæfni ónæmiskerfisins til að takast á við sýkingar og veirusjúkdóma.
Í vandaðri rannsókn og ritrýndri vísindagrein þýskra vísindamanna sem gefin var út 14. október 2021 kemur fram að dánartíðni vegna Covid-19 verði nánast engin ef D3 vítamín í líkama sjúklings er nægilega hátt, eða 125 nmól/L að minnsta kosti.
Þeirri stöðu er fræðilega hægt að ná samkvæmt greininni ef hlutfall D3 í blóði nær 50 nanógrömmum í millilítra blóðs (ng/ml). Þar er að sjálfsögðu miðað við stöðu fólks í Þýskalandi þar sem mun sólríkara er að jafnaði en á Íslandi. Samkvæmt þeirri rannsókn og íslensku rannsóknarinnar ættu Íslendingar að þurfa að taka inn umtalsvert af D-vítamíni til að vinna upp neikvæð áhrif sólarleysis á heilsuna.
Íslenskar rannsóknir sýna lágan D-vítamín styrk
Samkvæmt þýsku og íslensku rannsóknunum ættu Íslendingar að þurfa að taka inn umtalsvert af D-vítamíni til að vinna upp neikvæð áhrif sólarleysis á heilsuna. Til að ná eðlilegu D-vítamínmagni í blóði er talið að daglega þurfi að taka 6.000–9.000 IU. Almennt eru sérfræðingar á þessu sviði sammála um að magn í blóði eigi að vera að lágmarki 100 nmól/L.
Oft má sjá í dag ráðleggingar erlendra sérfræðinga að 100–200 nmól/L sé eðlilegt. Í fyrsta tölublaði Læknablaðsins 2004, (https://www.laeknabladid.is/2004/1/fraedigreinar/nr/1515/) kemur fram að Íslendingar voru undir skortmörkum D-vítamíns 2001-2003 eða meðalstyrkur D-vítamíns var 46,5±20 nmól/l.
Í apríl 2022 eru flestir sérfræðingar sammála um að lágmark eigi að vera 100 nmól/ L í stað 50 áður. Ráðleggingar Landlæknisembættisins eru samkvæmt þessu enn í dag langt undir eðlilegum mörkum. „Ráðlagðir dagskammtar Landlæknis á D-vítamíni eru hneyksli,“ segir Höskuldur.
Ráðleggingar Landlæknisembættisins undir eðlilegum mörkum
Ef miðað er við þessa rannsókn frá 2003 þá var D-vítamínhlutfall greinilega of lágt og er enn samkvæmt nýju rannsókninni sem birt var 10. mars 2022. Í ljósi þýsku rannsóknarinnar væri þá æskilegt lágmark 125 nmól/L en það er nálægt því meðaltali sem simpansar mælast með í náttúrunni. Í þessu samhengi er áhugavert að skoða hvað Landlæknisembættið á Íslandi ráðleggur fólki. Á vefsíðu landlaeknir.is segir:
Mikil fræðileg vinna liggur að baki því að setja fram ráðleggingar um neyslu á vítamínum og steinefnum. Norrænn sérfræðihópur birti árið 2013 endurskoðaðar ráðleggingar fyrir D-vítamín (1). Í kjölfarið voru íslenskir ráðlagðir dagskammtar (RDS) fyrir D-vítamín hækkaðir úr 10 míkrógrömmum (µg) á dag í 15 µg á dag fyrir 10-70 ára. Fyrir 71 árs og eldri var RDS fyrir D-vítamín hækkaður í 20 µg á dag en fyrir ungbörn og börn 1–9 ára var RDS óbreytt eða 10 µg á dag.
Ráðlagðir dagskammtar (RDS) fyrir D-vítamín á Íslandi
Ungbörn* og börn 1-9 ára 10 µg (míkrógrömm) eða 400 AE (Alþjóðlegar Einingar - IU). 10 ára-70 ára 15 µg eða 600 AE. 71 árs og eldri 20 µg eða 800 AE.
*Frá 1–2 vikna aldri er ráðlagt er að gefa ungbörnum D-vítamíndropa (10 μg/dag).
Vanmat á áhrifum sólarleysis
Ljóst er af nýju íslensku rannsókninni að í fyrrgreindum ráðleggingum er verið að vanmeta stórlega neikvæð áhrif sólarleysis á Íslandi. Landlæknisembættið vísar í norræna sérfræðinefnd og sérfræðinefnd Institute of Medicine í Bandaríkjunum og Matvælaöryggistofnun Evrópu (European Food Safety Authority). Ráðlagðir dagskammtar (RD) hjá Landlæknisembættinu eru nákvæmlega þeir sömu og ráðlagt er af Institute of Medicine í Bandaríkjunum.
Samt segir að styrkur D-vítamíns í blóði þurfi að minnsta kosti að vera 50 nmol/l (50 µg), eða sem nemur 2.000 AE.
Miðað við niðurstöður rannsóknarinnar sem birt var nú í mars virðist greinilegt að íslensk heilbrigðisyfirvöld verði að taka ráðleggingar um inntöku Íslendinga á D-vítamíni til alvarlegrar endurskoðunar.
Þörf talin á margfalt meiri inntöku á D-vítamíni
Fólk sem þekkir D3-vítamínglösin sem hér fást víða í matvæla- og lyfjaverslunum hafa séð á þeim standa upplýsingar um styrkleika virka efnisins, t.d. 2.000 AE. Það jafngildir 50 míkrógrömmum á millilítra (50 µg). Það er sá styrkleiki sem margir telja nauðsynlegt að innbyrða til að vega upp á móti sólarleysinu hér á landi. Hins vegar eru aðrir, eins og Bruce Hollis prófessor, sem telja æskilegt að magnið sé mun meira og óhætt að taka inn 10.000 AE daglega eða sem nemur 250 µg.
Á móti því kemur að sumt fólk sem hefur tekið svo stóra skammta af D3-vítamíni telur sig upplifa þreytu og óeirð, t.d. í fótum.
Ráðlegast ætti því að vera að leita upplýsinga hjá læknum ef óeðlilegra einkenna verður vart. Þá er heldur ekki hægt að mæla með að fólk sé að gera tilraunir með inntöku á bætiefnum af ýmsum toga nema að kynna sér vel áhrif þess á líkamann.
Í grein eftir dr. Samantha Kimball (PhD, MLT) kemur fram að líkurnar á að deyja úr of stórum skömmtum af D-vítamíni séu 0,0000000000002%. Hún vísar í rannsókn The Pure North clinic sem tók til 44.000 einstaklinga sem tóku að jafnaði inn 6.000–15.000 IU einingar á dag í 8 ár. Höskuldur Dungal segir að ekki sé vitað til þess að nokkurn tíma hafi orðið vart við D-vítamín eitrun á Íslandi.
Eituráhrif af inntöku D3-vítamíns sögð sjaldgæf
Í leiðbeiningum frá Mayo Clinic í Bandaríkjunum eru eituráhrif af inntöku stórra skammta af D-vítamíni (hypervitaminosis D) sögð sjaldgæf nema slík inntaka vari í mjög langan tíma. Helsta afleiðing af eiturverkunum D-vítamíns er talin uppsöfnun kalsíums í blóðinu (hypercalcemia), sem getur valdið ógleði og uppköstum, máttleysi og tíðum þvaglátum. D-vítamín eiturverkanir gætu þróast yfir í beinverki og nýrnavandamál, svo sem myndun kalsíumsteina.
Áhugavert er í þessu samhengi að lesa grein sem birtist í tímaritinu „Journal of Steroid Biochemistry and Molecular Biology“, sem birt var 4. janúar 2019. Þar segir að dagleg inntaka frá 5.000 til 50.000 IU (alþjóðlegar einingar) af D3 vítamíni virðist vera hættulausar. (https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0960076018306228?via%3Dihub). Þar er einnig vísað í meðferðartilraunir á sóreasis, asma og berklum sem gerðar voru á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar. Þar var verið að prófa daglega skammta af D-vítamíni upp á 60-300.000 IU og jafnvel mun hærri skammta í sumum tilfellum.
Uppsöfnun kalsíums í blóði er sögð hafa jafnað sig á nokkrum mánuðum eftir að inntöku í 2–18 mánuði var hætt.
Þess má geta að D3-vítamíntöflur sem innihalda 10.000 I.U. í hverju hylki eru seldar í Bandaríkjunum, Englandi, Þýskalandi og víðar, en ekki á Íslandi svo vitað sé. Á boxunum stendur yfirleitt að taka eigi 1 hylki á dag.
Prófessor Bruce W. Hollis sagði við Höskuld 2018, þegar hann var hér á landi, að lögfræðingar væru örugglega búnir að loka öllum þeim fyrirtækjum sem framleiða D-vítamín ef ráðleggingar utan á glasinu væru rangar. Hann taldi það eina bestu sönnun þess að dagleg inntaka 10.000 IU af D-vítamíni væri með öllu hættulaus.
Ráðleggingar EFSA margfalt hærri en hjá Landlæknisembættinu
Svo því sé haldið til haga segir Landlæknisembættið á sinni heimasíðu að Matvælaöryggistofnun Evrópu (EFSA) setji viðmiðunargildi fyrir efri mörk daglegrar meðalneyslu fyrir D-vítamín, þ.e. daglegrar neyslu yfir lengri tíma. Þessi mörk eru margfalt hærri en ráðlagðir dagskammtar hjá Landlæknisembættinu á Íslandi. Það er þrátt fyrir að mun sólríkara sé yfirleitt á meginlandi Evrópu. Er því í raun óskiljanlegt að mörkin séu höfð eins lág hér og raun ber vitni.
Viðmiðunargildin hjá EFSA eru 100 µg á dag (4000 AE) fyrir fullorðna og börn yfir 11 ára aldri, 50 µg (2000 AE) fyrir börn eldri en eins árs að tíu ára aldri, 35 µg (1400 AE) fyrir ungbörn (6-12 mánaða) og 25 µg (1000 AE) fyrir ungbörn að hálfs árs aldri. Skammta umfram efri mörk ætti aðeins að taka í samráði við lækni.
Greinilegt er af könnuninni á mataræði Íslendinga, að hækka þarf ráðlögð mörk Landlæknisembættisins verulega. Ekki síst ef það getur orðið til þess að létta álagið á heilbrigðiskerfinu.