Verkefnið fram undan mun felast í því að rækta upp þolinn stofn hratt og vel
Gera má ráð fyrir að riðusjúkdómur í sauðfé hafi verið landlæg plága í sauðfjárrækt á Íslandi í um 150 ár, í upphafi einungis á Norðurlandi. Fyrsta vísindalega staðfesta tilfellið um riðusmit er reyndar skráð á Keldum í Landnámshólfi árið 1957. Upp úr 1980 var vandamálið orðið svo alvarlegt að ákveðið var að ráðast í stórfelldan niðurskurð á ákveðnum svæðum, til að mynda í Skagafirði, Barðaströnd, Borgarfirði eystra og víðar.
Niðurskurður hefur hingað til verið eina úrræðið til að hefta útbreiðslu riðusmita hér á landi – sem valdið hefur sauðfjárbændum ómældu tjóni og íslensku samfélagi; bæði fjárhagslegu og tilfinningalegu. Frá því að farið var að beita niðurskurði gegn riðu hafa ríflega 620 bæir þurft að fara í gegnum þann hreinsunareld. Á undanförnum misserum hafa glæðst vonir um að Íslendingar geti farið sömu leiðir og ýmsar aðrar Evrópuþjóðir leitast við – og notað verndandi arfgerðir gegn riðu til að útrýma á endanum þessum skæða sjúkdómi á Íslandi.
Tilgáta um enskan hrút
Tilgáta er um að sjúkdómurinn hafi borist til Íslands með enskum hrúti sem fluttur var að bænum Veðramóti í Skagafirði frá Danmörku árið 1878. Talið er að hann hafi grasserað á þessu svæði áður en hann breiddist út til annarra landshluta.
Svonefnd ARR-arfgerð í sauðfé er eina viðurkennda verndandi arfgerðin í Evrópusambandinu (ESB) gegn riðu. Ef upp kemur riðusmit í hjörð, í landi þar sem innleiðing reglugerða ESB um viðbrögð við riðusmiti hefur að fullu átt sér stað, eru gripir með þessa arfgerð verndaðir.
Reglur á Íslandi um viðbrögð við riðusmiti í sauðfé hafa í raun verið einfaldar og skýrar. Skera þarf niður allar hjarðir þar sem staðfest smit hefur fundist. Almennt séð tekur Ísland mið af þeim reglum sem gilda í Evrópusambandinu hvað varðar heilahrörnunarsjúkdóma í dýrum. Þar með talin er riðuveiki, en þó ekki þeim hluta reglugerðarinnar sem snýr að viðbrögðum við staðfestum tilfellum um riðuveiki. Fyrir þann hluta hefur Ísland haft undanþágu.
Vel á þriðja þúsund fjár skorið niður árið 2020
Í kjölfar sex riðutilfella í Húna- og Skagahólfi og Tröllaskagahólfi á árinu 2020, þar sem skorið var niður samtals tæplega 2.600 fjár, er eins og áhrifafólk í fræðasamfélaginu og stjórnkerfinu hafi vaknað til meðvitundar um að leita þyrfti allra leiða til nýrrar nálgunar gagnvart vandamálinu. Til viðbótar tjóninu árið 2020 voru svo þrjú tilfelli staðfest um smit í Vatnsneshólfi og Húna- og Skagahólfi á síðasta ári, sem hafði þær afleiðingar að skorið var niður 2.400 fjár.
Ljóst er að á hverjum tíma hafa yfirvöld dýrasjúkdóma á Íslandi unnið sína vinnu í góðri trú.
Niðurskurður á hjörð, í kjölfar riðusmits þar innanborðs, skilaði á sumum landsvæðum mjög góðum árangri, en á öðrum ekki eins góðum, enda er smitefnið lífseigt í margvíslegu umhverfi.
Leitað nýrra leiða
Eyþór Einarsson, sauðfjárræktarráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir það ánægjulega staðreynd, að núna virðist nokkuð víðtækur samhljómur um að leita nýrra leiða. „Satt að segja vorum við að setja okkur í stellingar fyrir að sækja erfðaefnið með þessari ARR- arfgerð út fyrir landsteinana þarna á fyrri hluta síðasta árs, en síðan hefur margt breyst,“ segir Eyþór. „Eins og aðrir stóðum við hér hjá RML, sem höldum utan um ræktunarstarfið, í þeirri meiningu að arfgerðin væri ekki til hérna. Eftir að hafa ráðfært okkur við vísindafólk á Keldum og sérfræðinga hjá Matvælastofnun var það niðurstaðan að ef til vill þyrfti að flytja hana inn. Fyrst yrði hins vegar að leita af sér allan grun hér á landi, en fyrri leit sem farið hafði verið í þótti kannski ekki mjög ítarleg.“
Þessar bollaleggingar leiddu til þess að sett var af stað rannsóknarverkefni með það að markmiði að leita að ARR-arfgerðinni á Íslandi – og var samstarfsverkefni RML og Keldna. Síðar sama ár var annað verkefni af svipuðum meiði sett af stað, sem heitir Átaksverkefni í arfgerðarannsóknum, þar sem bændum er gefinn kostur á að láta greina arfgerðir sinna hjarða.
Á svipuðum tíma og RML- teymið skoðar möguleikana á að finna og koma ARR-arfgerðinni inn í íslenskar sauðfjárhjarðir, var Karólína Elísabetardóttir, bóndi í Hvammshlíð, komin í samband við ítalska vísindamenn því rannsóknarskýrslur á Ítalíu hefðu sýnt fram á að önnur arfgerð (T137) hefði sannað sig sem verndandi á Ítalíu. Þessar rannsóknir bentu til að þessi arfgerðin væri jafn verndandi þótt hún væri ekki arfhrein. En ólíkt ARR, þá hafði T137 arfgerðin fundist hér á landi í 12 gripum í rannsóknum Keldna á tíunda áratugnum. Í kjölfarið stofnaði Karólína til fjölþjóðlegs rannsóknarhóps, með íslenskum og erlendum vísindamönnum innanborðs ásamt íslenskum bændum, sem hafði það að markmiði að leita að þessari arfgerð á Íslandi sem er talin vera verndandi.
Eyþór segir að fljótlega hafi þessi verkefni nokkuð runnið saman, formlega séu þau rekin hvort í sínu lagi en mikil samvinna sé á milli.
Staðfest að 128 gripir bera annaðhvort ARR eða T137
Fyrir síðasta fengitíma fundust tveir gripir með T137, svo fleiri eftir áramót á svipuðum tíma og nokkrir gripir með ARR-arfgerð fundust í fyrsta skipti – og nokkrir í viðbót síðar. Nú þegar búið er að mestu að greina arfgerðir frá síðasta sauðburði kemur í ljós að ARR hefur fundist í 14 fullorðnum gripum og 41 lambi, allt á Þernunesi í Reyðarfirði. En 36 fullorðnir gripir bera T137 og 37 lömb, í sex hjörðum. Eyþór segir að miðað við þessar forsendur sé útlit fyrir að sá efniviður sem sé til staðar, muni duga nokkuð vel til að hægt sé að hefja skipulega ræktun á stofnum sem eru verndaðir gegn smiti – sérstaklega ef T137 reynist virka hér á landi sem þurfi þó að sannreyna. Niðurstöður sýnatöku fram til þessa bendi til að sú arfgerð hafi verið nokkuð útbreidd hér áður fyrr.
Verkefni innan RML sé í burðarliðnum þar sem eigi að ganga úr skugga um að T137 muni virka í ræktunarstarfinu fram undan, áður en kemur að fengitíma. Það gæti orðið liður í að fá arfgerðina viðurkennda í ESB.
Í Evrópu eru verndandi arfgerðir verndaðar
Sem fyrr segir hafa í Evrópu gilt þær reglur að þegar upp kemur riða á einstökum bæjum er strax farið í að yfirfara arfgerðir fjárins með tilliti til príonpróteinsins, sem segir til um líkur á smiti.
Sigurbjörg Bergsdóttir, sérgreinadýralæknir nautgripa og sauðfjársjúkdóma hjá Matvæla stofnun, segir að samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins geti þessi lönd valið um þrjár leiðir viðbragða, sem allar miða þó að því að vernda gripi með verndandi arfgerðir. „Algengast er að kindur sem eru með ARR arfgerð í öðru eða báðum sætum fá að lifa, en þær kindur sem ekki hafa arfgerðina eru aflífaðar.
T137 er verndandi
Sigurbjörg segir að í Evrópu sambandinu sé T137 arfgerðin ekki viðurkennd sem verndandi arfgerð gegn riðu, en það sé fyrst og fremst vegna þess að þar er ekki talin þörf á að nýta fleiri verndandi arfgerðir þar sem ARRarfgerðin er tiltölulega útbreidd arfgerð. „Fullnaðarrannsókn á verndandi eiginleikum T137 hefur því ekki farið fram, en það hefur sýnt sig að sú arfgerð er verndandi í ákveðnum fjárstofni á Ítalíu og ætlunin er að rannsaka hana nánar hér á landi. Þetta algenga verklag við uppkomu riðuveiki getum við tekið upp þegar tekist hefur að rækta upp kindur með ARR arfgerð eða jafnvel T137 á búum landsins. En reikna má með að það taki nokkur ár, varlega áætlað að minnsta kosti einn tug ára.
Sigurbjörg segir að hnitmiðaðar aðgerðir til útrýmingar á riðu hérlendis hafi ekki byrjað fyrr en seint á 20. öldinni. „Á árunum frá 19801995 var skorið niður á öllum bæjum í heilu sveitarfélögunum á þeim svæðum þar sem riðan var útbreidd og ljóst að þær aðgerðir hafa skilað miklum árangri. Á stórum svæðum hefur riðan ekki komið upp aftur síðan,“ bætir hún við.
Rækta upp þolinn fjárstofn, hratt og vel
Eyþór segir að verkefnið fram undan sé skýrt hjá þeim sem stýra ræktunarstarfinu; að rækta upp þolinn fjárstofn fyrir riðuveiki og gera það hratt og vel. „Áskorunin verður að gera þetta á sem mestum hraða en á sama tíma gefa sem minnst eftir í þeim ávinningi sem hefur náðst í gegnum ræktunarstarfið og tapa sem minnstu af erfðafjölbreytileikanum í stofninum.
Hvetja þarf alla bændur til þess að vinna með niðurstöður arfgerðargreininga í sinni ræktun, þannig að vinna megi að útrýmingu áhættuarfgerðarinnar og vali fyrir þolnari arfgerðum. Hversu bratt bændur fari í þessa ræktun fyrir þolnum arfgerðum verður að byggjast á staðsetningu búanna með tilliti til smithættu. Það er hvorki nauðsynlegt né æskilegt að í öllum varnarhólfum sé þetta gert á jafn miklum hraða. Það getur minnkað möguleika okkar til lengri tíma í ræktunarstarfinu ef við minnkum erfðabreytileikann of mikið. Það má útskýra þetta þannig að það er ekki æskilegt að hver einasta kind í landinu sé orðin afsteypa af Gimsteini frá Þernunesi eftir aðeins örfá ár.“
Arfgerðirnar í fyrsta sæti
Eyþór segir að í grófum dráttum verði verkefnið nálgast þannig í byrjun að bændur á „verstu riðusvæðunum“ verði hvattir til þess að setja arfgerðirnar í fyrsta sæti og gefa þá eftir í öðrum eiginleikum á meðan verið er að byggja upp þolinn stofn. Þeir ættu ekki að hafa of miklar áhyggjur þó skyldleikarækt aukist tímabundið. „Auk þess leggjum við til að bændur á þessum svæðum láti greina hrúta sína, því þær greiningar munu auka hraðann talsvert ef menn jafnframt kortleggja ærstofninn og arfgerðargreini þær ásetningsgimbrar sem þarf hverju sinni. Þegar hafa allmargir bændur unnið að því að kortleggja stofna sína í gegnum þær umfangsmiklu arfgerðargreiningar sem fram fóru í vetur og vor og veitir það þeim færi á að geta spáð fyrir arfgerðir lambanna að einhverju leyti.
Verulegur akkur er í því ef bændur koma sér upp sem fyrst arfhreinum hrútum sem dreifa þá æskilegu arfgerðunum til allra sinna afkvæma og getur það líka dregið úr þörfinni á að arfgerðagreina jafn mikið af ásetningsgripum. Varðandi arfgerðirnar þá er markmið á þessum svæðum að útrýma áhættuarfgerðinni sem fyrst og vinna að því að allir gripir beri lítið næmar eða verndandi arfgerðir á næstu árum. Hlutlausa arfgerðin veitir enga vernd. Því er æskilegt að menn noti kynbótagripi með verndandi arfgerðir eftir því sem framboð leyfir en annars gripi sem bera lítið næmar arfgerðir.“
Hægar farið á öðrum svæðum
Á svæðum þar sem tiltölulega lítil áhætta er af riðu í dag, segir Eyþór að fara megi hægar í þetta en engu að síður sé mikilvægt að taka þessa ræktun föstum tökum. Því til lengri tíma er markmiðið að gera íslensku sauðkindina þolna fyrir riðuveiki og koma þessum arfgerðum inn í allan stofninn. Jafnframt hafi ræktunarbú um allt land mikilvægu hlutverki að gegna í því að framleiða úrvalsgripi fyrir hið sameiginlega ræktunarstarf og þurfa þessir gripir í auknum mæli að bera þolnar arfgerðir. Sömuleiðis sé mikilvægt að sölubú séu ábyrg þegar kemur að því hvernig gripi þau selja frá sér – en kannski ekki síður að kaupendur séu meðvitaðir og geri þá lágmarkskröfu að afþakka gripi með áhættuarfgerð.
Ræktunarplan fyrir stofninn í heild verði síðan uppfært og unnið af nákvæmni eftir því sem nauðsynlegar upplýsingar berast.
Endurskoðun á reglum um viðbrögð við smiti
Í kjölfar tilfellanna á Norðurlandi árið 2020 var Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir fengin til að ráðast í endurskoðun á reglum sem varða viðbrögð við riðuveiki.
Hún hefur skilað drögum til matvælaráðuneytisins sem vinnur að smíði nýrra reglna, eftir yfirferð umsagna, en drögin fóru í lokað umsagnarferli.
Verkefni í vændum
PMCA-rannsóknir á næmi mismunandi arfgerða fyrir riðusmiti í íslensku sauðfé. Það verður unnið í Frakklandi nú í sumar og haust. Það gengur út á að bera saman næmi mismunandi arfgerða príonpróteinssins fyrir riðusmiti úr íslenskri kind. RML er í forsvari fyrir þessu verkefni en það er rannsóknarteymið sem samanstendur af Karólínu í Hvammshlíð, Stefanía Þorgeirsdóttur og Vilhjálmi Svanssyni f.h. Keldna ásamt Eyþóri Einarssyni fyrir hönd RML. Markmið er að fá hér betri vitneskju um næmi mismunandi arfgerða, til dæmis staðfestingu á því að T137 sé einnig fullkomlega verndandi gegn þeirri riðuveiki sem þrífst hér á landi.
Erfðarannsónir á íslenska sauðfjárstofninum með áherslu á gripi með verndandi arfgerðir. Undirbúningur að þessu verkefni er hafinn en það byggir fyrst og fremst á því sýnasafni sem orðið hefur til síðasta árið í gegnum arfgerðargreiningarverkefnin. Hér um ræðir samstarfsverkefni milli RML og háskólans í Giessen þar sem áherslurnar eru mótaðar í samráði við sérfræðinga RML. Karólína er hér mikilvægur tengiliður í samskiptum milli Íslands og Þýskalands við undirbúning verkefnisins.
Arfgerðargreiningar og utanumhald. Arfgerðargreiningar eru að sjálfsögðu lykilþáttur í þessu verkefni og munu verða fastur liður í rekstri flestra sauðfjárbúa á komandi árum. Verið er að áætla umfang greininga á komandi hausti en nýlega var send út könnun til bænda sem einnig má finna inn á heimasíðu RML. RML mun bjóða upp á greiningar og setja síðan upp plan í samráði við sína samstarfsaðila um hvenær sýni þurfa að berast til greiningar svo tryggt sé að niðurstöður fáist fyrir ákveðnar dagsetningar. Í haust verður áfram lagt upp með að greina sex sæti á príongeninu. Miklar endurbætur standa nú yfir á Fjárvísi sem miða að því að gera allt utanumhald aðgengilegt fyrir sauðfjárbændur og er góður gangur í þeirri vinnu.
Dreifing erfðaefnisins. Hér hafa sæðingastöðvarnar mikilvægu hlutverki að gegna. Stöðvarnar hafa þegar fengið vilyrði fyrir því að fá hrúta með arfgerðirnar ARR og T137. Ljóst er að bæði ARR-hrúturinn Gimsteinn frá Þernunesi og T137-hrúturinn Austri frá Stóru-Hámundarstöðum verða á sæðingastöðvunum næsta vetur ef ekkert óvænt kemur upp á. Þá verða einnig valdir lambhrútar inn á stöðvarnar með þessar arfgerðir. Þá verður meira úrval en áður af hrútum með H154 (lítið næmu arfgerðina). MAST hefur þegar gefið grænt ljós á að mögulegt verði að fá undanþágu með ákveðnum skilyrðum til að flytja ARR- og T137-gripina inn á sæðingastöðvarnar þrátt fyrir að þá sé eingöngu að finna í dag í hólfum sem eru „lokuð“ með tilliti til sjúkdómastöðu. Vel lítur því út með að fjölbreytt úrval verði í haust af hrútum með mismunandi arfgerðir.
Að lokum er það verkefni á vegum RML sem Þórdís Þórarinsdóttir mun fara fyrir sem ber yfirskriftina „Ræktun gegn riðu – hermirannsókn“ en auk hennar eru tilkallaðir kynbótasérfræðingar innan og utan RML. Verkefnið mun hjálpa okkur að ákveða hversu hratt æskilegt er að innleiða verndandi arfgerðir út frá gefnum forsendum m.t.t. skyldleikaræktar, erfðabreytileika, kostnaðar og erfðaframfara í öðrum eiginleikum.