Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Stafholtsveggir í Borgarfirði.
Stafholtsveggir í Borgarfirði.
Mynd / smh
Fréttir 18. september 2014

Brúnegg flytja hluta framleiðslunnar í Borgarfjörðinn

Höfundur: /smh

Eggjaframleiðslufyrirtækið Brúnegg var stofnað árið 2003 og stofninn sem notaður er til varpsins kom til landsins ári síðar. Fyrstu eggin komu svo í búðir árið 2005. Starfsemi Brúneggja hefur farið fram á Kjalarnesi - í Brautarholti nánar tiltekið og í Mosfellsbæ og Kjós – og er óhætt að segja að markaðssetningin á þessum brúnu, vistvænu eggjum hafi fallið í kramið hjá Íslendingum. Það eru bræðurnir Kristinn Gylfi og Björn Jónssynir sem eiga og reka Brúnegg, en þeir eru fæddir og aldir upp í Brautarholti, við svína- og alifuglaeldi – og eggjaframleiðslu.

Fyrirtækið hefur vaxið hægt og sígandi á undanfarandi árum og í sumar flutti það hluta starfseminnar  að Stafholtsveggjum 2 í Borgarfirði, sem þykir tíðindum sæta þar sem ekki hefur verið stundaður eggjabúskapur af þessu tagi þar í héraði um áratugaskeið.

„Í fyrstu var þetta tilraunaverkefni, vegna þess að þegar við komum inn á markaðinn þá var í sjálfu sér ekki vöntun á eggjum,“ segir Kristinn Gylfi. „En þetta var nýjung, annars vegar voru þetta brún egg og hins vegar komu þau úr vistvænu umhverfi, þar sem hænurnar ganga frjálsar um og verpa í hreiður. Það var fljótlega ljóst að það var eftirspurn eftir þessum eggjum og markaðurinn tók þeim vel. Við fluttum inn nýjan stofn, Lohmann Brown Classic frá þýska fyrirtækinu Lohmann. En þar sem eingöngu er leyft að flytja inn slíka fugla frá Noregi, þá fluttum við okkar stofn frá Steinsland & Co. í Noregi, þaðan sem frjó egg hafa komið til Íslands á undanförnum árum til að kynbæta varpstofninn í landinu.

Við bræður þekktum vel til eggjaframleiðslu hér heima og vissum hvaða þróun var í gangi í Evrópu, þar sem hlutfall lífrænt vottaðrar og vistvænnar eggjaframleiðslu fór sífellt vaxandi. Þar var tilhneigingin sú að brún egg voru nokkurs konar auðkenni fyrir egg sem komu úr vistvænni eða lífrænt vottaðri framleiðslu, eða í öllu falli frá hænum sem ekki eru í búrum. Við rekum svo stofnræktarbú fyrir þetta fuglakyn að Minna-Mosfelli í Mosfellsdal í samstarfi við bændur þar – og höfum gert síðastliðin tíu ár.“

Fóður og aðbúnaður

„Við fengum vistvæna vottun frá Búnaðarsambandi Kjalarnesþings þegar við hófum framleiðslu og höfum síðan unnið á grundvelli reglugerðarinnar um vistvæna vottun. Hún skiptir okkur töluvert miklu máli, enda notum við merki hennar á okkar umbúðir. Hún er mikilvæg til aðgreiningar frá eggjum úr búrhænum, þar sem kannski fjórar til fimm hænur eru á járnagrind á litlum búrfleti. Við slíkar aðstæður hefur ein hæna oft ekki meira svæði en sem nemur stærð eins A4 blaðs. Þetta búraeldi hefur verið víkjandi í Evrópu á undanförnum árum.

Líffræðilega séð eru brúneggin sömu gerðar og hvítu eggin, en við sáum þetta markaðstækifæri að auðkenna okkar vistvænu vöru með brúnum eggjum – eins og tíðkast víða í Evrópu. Þessi stofn okkar – þar sem hænurnar eru brúnleitar – verpir brúnum eggjum. Í raun má merkja lit eggjanna eftir lit eyrnasnepla fuglanna. Hænur með hvíta eyrnasnepla gefa af sér hvít egg, hænur með rauða snepla gefa brún egg. Fyrir utan það að hænurnar ganga frjálsar í okkar húsum felst sérstaða okkar einnig í því að við látum blanda sérstaklega fyrir okkur fóður fyrir fuglinn. Við teljum að það skili okkur bæði betri og frísklegri eggjum. Fóðrið er blandað í fullkomnustu fóðurverksmiðju í Danmörku og sérstaðan í þeirri blöndu er meðal annars sú að við höfum notað dálítið af repju í hana – og hærra hlutfall af hveiti er í blöndunni en tíðkast hefur hér, þar sem hlutfallið af maís hefur aftur á móti verið hærra. Þá eru nokkur atriði til viðbótar sem gera fóðrið betra, sem við gefum ekki upp. Við reynum að vera með níu til tíu fugla á fermetra. Í drögum að nýrri reglugerð um aðbúnað varpfugla í vistvænni ræktun er talað um níu fugla á fermetra að hámarki,“ segir Kristinn.

Nýja reglugerðin og vistvæna vottunin

Að sögn Kristins er dagur í lífi varphænu mjög svipaður frá degi til dags – eins og vænta má. „Þegar þær vakna á morgnana fá þær sér að borða og fara svo að huga að varpi. Þær verpa mest fyrri part dags. Síðan eftir hádegi, þegar þær eru farnar úr hreiðri, er blandað geði við aðrar hænur, sinna þörfum sínum og svo fara þær í svokallað rykbað. Þá þyrla þær ryki og undirburðinum yfir sig og hrista sig síðan vel.  Þetta er mikilvægur hluti af þeirra lífsháttum. Þær eru mikið á ferðinni og njóta þess að fara um húsið.

Þær byrja að verpa svona 18–20 vikna gamlar. Við erum með stofnrækt, sem fyrr segir, og svo ölum við ungana upp á gólfi í varphænustærð. Þá fara þær í varphúsin og verpa í u.þ.b. 12–16 mánuði. Að svo búnu er þeim slátrað og höfum við reynt að nýta allt kjöt sem til fellur. Við höfum slátrað þeim hjá Ísfugli og selt sem vistvænar unghænur. Það er fugl sem er ekki eldaður eins og venjulegur kjúklingur, hann þarf mun meiri eldun og er til að mynda vinsæll í austurlenska matargerð.“

Möguleikar á Stafholtveggjum fyrir útivist

Kristinn segir að þeir hafi verið búnir að leita sér að húsnæði um tíma til að geta aukið framleiðsluna og bætt við aðstöðu til uppeldis á hænuungum, þegar þeir fréttu af því að jörðin Stafholtsveggir 2 væri til sölu, en þar var áður hrossaræktarbú og svínabú þar á undan. „Við höfum smátt og smátt verið að brjóta niður veggi og koma húsum í stand. Við erum núna búnir að taka um helming af húsakosti í notkun,“ segir Kristinn sem reiknar með að um þriðjungur heildarframleiðslunnar muni fara þar fram þegar allt verður tilbúið. „Við sjáum einnig fyrir okkur framtíðartækifæri á Stafholtsveggjum 2 til að vera með útivist fyrir fuglana. Við gerum okkur grein fyrir því að það er æskilegt að sá möguleiki sé fyrir hendi, enda kemur það fram í reglugerð um vistvæna framleiðslu. Þar sem við höfum verið með okkar framleiðslu, að Teigi í Mosfellsbæ,  hefur hins vegar verið örðugt að koma því við. Inn í það spilaði til dæmis tveggja ára bann við útivist alifugla vegna hættu sem var talin á fuglaflensusmiti. Í tengslum við þessa útivistarmöguleika sem við sjáum nú fyrir okkur hefur vaknað áhugi á því að skoða framleiðslu á lífrænt vottaðri eggjaframleiðslu. Það liggur fyrir að það vantar framleiðslu á slíkri vöru á Íslandi.  Það þarf hins vegar talsverðan undirbúning fyrir slíkt, því stofninn sem gefur af sér hænuungana þarf einnig að vera lífrænt vottaður,“ segir Kristinn Gylfi.

4 myndir:

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...

Vilja fá Gömlu Þingborg gefins
Fréttir 17. desember 2024

Vilja fá Gömlu Þingborg gefins

Sveitarstjórn Flóahrepps hefur samþykkt að selja „Gömlu Þingborg“ svonefndu, sem...

Ullarvörur og námskeiðahald
Fréttir 17. desember 2024

Ullarvörur og námskeiðahald

Ullarverið er nafn á nýrri verslun með ullartengdar vörur í verksmiðjuhúsnæði í ...

Borað eftir köldu vatni í Ingólfsfjalli
Fréttir 17. desember 2024

Borað eftir köldu vatni í Ingólfsfjalli

Sveitarfélagið Árborg er nú að láta bora eftir köldu vatni í Ingólfsfjalli til a...

Gjaldfrjáls skólaganga
Fréttir 17. desember 2024

Gjaldfrjáls skólaganga

Leikskóli verður gjaldfrjáls fyrir öll börn í sveitarfélaginu Eyja- og Miklaholt...

Matvæli fyrir níutíu milljónir evra gerð upptæk
Fréttir 13. desember 2024

Matvæli fyrir níutíu milljónir evra gerð upptæk

Matvælasvindl er vaxandi vandamál í heiminum. Engin mál tengd meintum matarsviku...

Kortleggja ræktarlönd
Fréttir 13. desember 2024

Kortleggja ræktarlönd

Matvælaráðuneytið ætlar að ráðast í kortlagningu á gæðum ræktarlands á Íslandi.