Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, boðar breytingar á fyrirkomulagi um úthlutun tollkvóta. Hann vill leggja niður ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning á landbúnaðarvörum.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, boðar breytingar á fyrirkomulagi um úthlutun tollkvóta. Hann vill leggja niður ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning á landbúnaðarvörum.
Fréttir 1. ágúst 2019

Ekki opnað fyrir innflutning á lambahryggjum á lágum tollum

Höfundur: Ritstjórn

Ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara komst að þeirri niðurstöðu í dag að ekki sé fyrir hendi skortur á lambahryggjum. Ekkert verður því af innflutningi á lágum tollum af erlendum lambahryggjum á næstu vikum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Í Facebook-færslu hjá Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir hann: „Nefndin mun því ekki leggja til við mig sem ráðherra að opnað verði á tollkvóta á hryggjum og málinu þar með lokið.“

Hann útskýrir málið jafnframt á FB-síðu sinni þar sem hann fjallar um gildandi reglur um innflutning og tilgang nefndarinnar. Ráðherra gagnrýnir afurðastöðvar fyrir sinn þátt í málinu og segir að það sé áminning um að endurskoða þurfi lagaumgjörð um úthlutun tollkvóta.

„Samkvæmt gildandi lögum er það hlutverk ráðgjafanefndarinnar að meta hvort skortur sé á tiltekinni vöru en til þess að svo sé þurfa tiltekin lagaskilyrði að vera uppfyllt, m.a. þarf varan að vera fáanleg frá ákveðnum fjölda framleiðenda. Ef skortur er fyrir hendi þá skal nefndin gera tillögu til ráðherra um úthlutun tollkvóta þannig að heimilt sé að flytja umrædda vöru inn til landsins á lægri tollum. Seint í síðustu viku lagði ráðgjafanefndin til við mig að opnað yrði á tollkvóta á lambahryggjum í ljósi þess að skortur væri fyrir hendi. Áður en ég afgreiddi málið fékk nefndin upplýsingar um breytta birgðastöðu afurðastöðva. Meðal annars hafði ein afurðastöð, sem átti enga lambahryggi samkvæmt fyrri upplýsingum nefndarinnar, keypt lambahryggi af annarri afurðastöð. Eftir samráð við lögfræðinga ráðuneytisins var ljóst að í þessum upplýsingum fólst að forsendur fyrir niðurstöðu nefndarinnar um skort væru mögulega brostnar. Því var óumflýjanlegt annað en að óska eftir því við nefndina að hún myndi endurmeta fyrri afstöðu sína og beindi ég því sérstaklega til hennar að rannsaka birgðastöðuna eins náið og kostur væri. Sem fyrr segir liggur endanleg niðurstaða nefndarinnar nú fyrir þess efnis að ekki sé skortur á lambahryggjum,“ segir í færslu Kristjáns Þórs.

Afurðastöðvar fóru fram úr sér

Hann segir að um málið megi hafa mörg orð: „Ég tel t.d. augljóst að afurðastöðvar fóru fram úr sér með því að flytja til útlanda síðastliðinn vetur umfangsmikið magn af hryggjum. Afleiðing þeirra ákvarðana virðist vera sú að þessar sömu afurðastöðvar geta nú ekki sinnt eftirspurn íslenskra verslana og þar með neytenda eftir hryggjum. Slík staða er ekki til þess fallin að gæta hagsmuna hvorki neytenda né bænda.“

Ráðherra vill leggja nefndina niður

Kristján Þór segir að málið sé áminning um að endurskoða þurfi lagaumgjörð þessara mála. „Almennt séð verður að teljast óeðlilegt að einstakar afurðastöðvar geti að sjálfsdáðum beitt sér fyrir því að koma í veg fyrir innflutning með því að versla sín á milli með þessum hætti. Úthlutun tollkvóta þarf raunar að endurskoða með heildstæðum hætti og hófst sú vinna á fyrri hluta síðasta árs. Afrakstur hennar má sjá í frumvarpi sem ég lagði fram í samráðsgátt stjórnvalda í síðasta mánuði en þar er m.a. lagt til að ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara verði lögð niður. Markmið frumvarpsins er m.a. að gera allt regluverk um úthlutun tollkvóta sanngjarnara og einfaldara. Þetta mál kallar mögulega á frekari breytingar á því frumvarpi en það verður lagt fram á Alþingi í haust,“ segir Kristján Þór.


Íslenskir lambahryggir í Krónunni í dag.

Tilkynningin á vef stjórnarráðsins er birt hér í heild sinni:

„Ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara hefur ákveðið að leggja ekki til við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að opna tollkvóta fyrir lambahryggi. Rannsókn nefndarinnar undanfarna daga hefur leitt í ljós að skilyrði 65. gr. A búvörulaga eru ekki uppfyllt.

Hinn 26. júlí sl. lagði ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara til við ráðherra að opnað yrði á tollkvóta fyrir lambahryggi tímabilið 29. júlí til 30. ágúst þar sem nefndin hafði komist að þeirri niðurstöðu eftir rannsókn sína að ekki væri nægilegt framboð til staðar.

Samkvæmt lögunum telst framboð ekki nægjanlegt ef varan er ekki til stöðugrar dreifingar eða áætla má að hún verði það ekki í að lágmarki 90% magni af eftirspurn a.m.k. tveggja leiðandi ótengdra dreifingaraðila og er ekki fáanleg frá a.m.k. tveimur framleiðendum. Áður en ráðherra hafði tekið afstöðu til tillögu nefndarinnar fékk nefndin upplýsingar um breytta birgðastöðu framleiðenda. Með hliðsjón af þeim upplýsingum óskaði ráðherra eftir því að nefndin tæki málið til afgreiðslu að nýju og lyki rannsókn sinni í þessari viku. Nefndin hóf því rannsóknarferli sitt að nýju og aflaði upplýsinga frá framleiðendum og dreifingaraðilum.

Rannsókn nefndarinnar dagana 30. og 31. júlí leiddi í ljós nýjar og ítarlegri upplýsingar bæði frá framleiðendum og dreifingaraðilum. Bæði hafði birgðastaða framleiðenda breyst auk þess sem nýjar upplýsingar bárust um birgðastöðu dreifingaraðila. Þá hefur verið tekin ákvörðun um að hefja slátrun fyrr hjá hluta framleiðanda. Þessar upplýsingar breyttu stöðunni frá því sem áður hafði legið fyrir. Niðurstaða ráðgjafanefndarinnar er því sú að skilyrði  65. gr. A búvörulaga fyrir opnun á tollkvóta fyrir lambahryggi eru ekki uppfyllt.

Það regluverk sem gildir um úthlutun tollkvóta hefur verið til endurskoðunar hjá ráðuneytinu um nokkurt skeið. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lagði í síðasta mánuði fram á samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum og stendur umsagnarferlið til 8. ágúst nk.  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á úthlutun tollkvóta og er markmið frumvarpsins að stuðla að auknum ábata fyrir neytendur og að aukinni samkeppni á markaði með landbúnaðarvörur. Frumvarpið á auk þess að einfalda og skýra regluverk um úthlutun tollkvóta. Stefnt er að því að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi á komandi haustþingi.“

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...