Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Fréttir 1. júlí 2019
Óttast frekari hækkanir á orkukostnaði við innleiðingu orkupakka 3
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands garðyrkjubænda, hefur ítrekað greint frá andstöðu garðyrkjumanna við innleiðingu orkupakka 3. Hann óttast um afdrif greinarinnar verði þetta samþykkt á Alþingi.
Í viðtali í þættinum Í bítið á Bylgjunni 4. júní síðastliðinn benti hann m.a. á að þótt bara sé búið að innleiða orkupakka 1 og 2 þá hafi það þegar leitt til verulega aukins kostnaðar garðyrkjunnar vegna tilskipana ESB um aðskilnað flutnings og framleiðslu á raforku. Garðyrkjubændur hafi því eðlilega verulegar áhyggjur af afleiðingum þriðja og fjórða orkupakkans.
270–323% kostnaðarhækkun á orkuflutningi milli ára
Hann nefndi sem dæmi að í febrúar 2017 hafi ein garðyrkjustöð sem notaði 40–50 þúsund kílówattstundir af raforku verið að greiða 43 þúsund krónur í flutning á orkunni fyrir einn mánuð. Í febrúar 2018 hafi sama garðyrkjustöð verið að greiða um 139 þúsund krónur fyrir sama orkumagn. Hækkunin nemur því um 323%.
Önnur garðyrkjustöð sem væri að nota um 200 til 210 kílówattstundir hafi borgað 162 þúsund krónur í febrúar 2017 en 437 þúsund á mánuði í febrúar 2018. Þetta er nærri 270% hækkun á einu ári. Þá á eftir að reikna verðið fyrir raforkuna sjálfa.
„Við höfum gríðarlegar áhyggjur af þessu. Ég bið menn og konur sem sitja á Alþingi að tryggja það að við förum ekki í einhverja tóma vitleysu í þessu máli,“ sagði Gunnar.
Hærra flutningsverð til landsbyggðarnotenda
Hann benti líka á þá gríðarlegu mismunun sem felst í staðsetningu orkukaupenda á landinu. Þar væri flutningskostnaður til neytenda í dreifbýli umtalsvert hærri en til íbúa í þéttbýli. Oft eru notendur í dreifbýlinu samt mun nær orkuverunum sem framleiða raforkuna en notendur í þéttbýli. Styrkir sem kæmu á móti væru auk þess í krónutölu þannig að vægi þeirra styrkja minnkaði hratt í takt við hlutfallslega aukningu á notkun.
Orkugjald hækkar um 47%
Þá benti hann einnig á að við innleiðingu á orkupakka 3 ætti Orkustofnun að verða sjálfstæðari og væri það þegar að koma fram í því að orkugjald stofnunarinnar hækki um 47%.
„Það talar enginn um þetta. Nú, hvað á Orkustofnun að gera? Jú, hún á að sinna eftirlitsskyldu og sanngjarnara raforkuverði til neytenda. Ég bíð bara spenntur eftir því að sjá það á reikningnum áður en maður hrópar húrra. [...] Ég velti því fyrir mér, hversu íþyngjandi verður orkupakki þrjú á þessum grunni?“
Hann segir augljóst að svona hækkanir á orkukostnaði hljóti að skila sér út í verðlagningu á framleiðslu garðyrkjubænda. Ef ekki væri svo mikill ákafi opinberra fyrirtækja í að hækka álögur á greinina þá gæti grænmetið verið ódýrara og meira af íslensku grænmeti á markaðnum og meiri fjölbreytni. Í dag væru íslenskir grænmetisbændur vart að anna nema um 50% markaðshlutdeild.
„Ég er alveg sannfærður um að við sæjum meiri framleiðslu á tómötum. Ég held að við séum ekki að anna nema um 40% af tómatasölunni á Íslandi í dag. Ef við fengjum hagstæðari kjör á raforku og meiri fyrirsjáanleika í verði orkunnar þannig að flutningskostnaður þrefaldist ekki á einu ári, og við hefðum sirka 10 ára framtíðarsýn, þá hefðu menn einhverjar forsendur til að leggjast í fjárfestingar. Meðan staðan er eins og hún er þá leggja menn ekkert í alvöru fjárfestingar í greininni.“
Gunnar sagði að sóknarfærin í garðyrkjunni væru gríðarleg, m.a. í framleiðslu á jarðarberjum – ef rétt væri haldið á spöðum. Hann sagðist einnig í samtali við Bændablaðið ekki skilja þá heift sem væri í málinu af hálfu stuðningsfólks innleiðingar orkupakka 3. Gert væri lítið úr fólki sem efaðist, en engin haldbær rök hafi verið lögð fram um af hverju Íslendingar ættu að innleiða þetta.