Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Unnur Brá Konráðsdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Oddný Steina Valsdóttir, Sindri Sigurgeirsson og Bjarni Benediktsson.
Unnur Brá Konráðsdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Oddný Steina Valsdóttir, Sindri Sigurgeirsson og Bjarni Benediktsson.
Mynd / TB
Fréttir 11. janúar 2019

Samkomulag um endurskoðun sauðfjársamnings í höfn

Höfundur: Tjörvi Bjarnason

Fulltrúar Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda hafa skrifað undir samkomulag um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar. Markmið samkomulagsins er meðal annars að stuðla að auknu jafnvægi framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir, auka frelsi sauðfjárbænda og að auðveldara verði að takast á við sveiflur í ytra og innra umhverfi greinarinnar. Áhersla er lögð á að auðvelda aðlögun að breyttum búskaparháttum eða nýrri starfsemi með sérstökum aðlögunarsamningum. Þær breytingar sem gerðar eru á samningnum kalla ekki á aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

Styrkir grundvöll sauðfjárræktarinnar

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði við undirritun samkomulagins að það myndi styrkja grundvöll íslenskrar sauðfjárræktar. „Sérstaklega er ánægjulegt að stuðlað verður að meira jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir en það hefur verið einn helsti vandi greinarinnar undanfarin ár. Jafnframt má nefna þá ánægjulegu breytingu að við veitum bændum meira frelsi með sérstökum aðlögunarsamningum til að nýta tækifæri framtíðarinnar – bændum og neytendum til heilla.“

Verkfæri til að takast á við sveifur

„Í samkomulaginu koma inn ferlar til að takast á við sveiflur í rekstrarumhverfi sauðfjárræktarinnar, það er mikilvægt,“ segir Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda sem segir jafnframt að dregið verði úr framleiðsluhvata stuðningsgreiðslna. „Eftir sem áður er stefnt að því að jafna stöðu bænda sem starfa innan samningsins og draga úr kostnaði greinarinnar af kerfinu. Þá eru samningsaðilar sammála um mikilvægi þess að ná fram hagræðingaraðgerðum innan afurðageirans, að því marki verður áfram að vinna. Ég tel þær breytingar sem samkomulagið felur í sér sé jákvætt skref sem muni styðja við aukna verðmætasköpun afurða. Þá er einnig ánægjulegt að samhliða þessu samkomulagi hefur ríkisstjórnin ákveðið að hefja kolefnisverkefni í samstarfi við sauðfjárbændur.  Gæði, fagmennska og heilnæmi er aðalsmerki okkar sauðfjárbænda og á þeim styrkleikum ætlum við að byggja til framtíðar,“ segir Oddný Steina.

Aðlögunarsamningar gerðir við bændur

Í samkomulaginu felst að heimilt verður að gera aðlögunarsamninga við framleiðendur sem tilbúnir eru að hætta eða draga úr sauðfjárbúskap og reyna fyrir sér í nýrri starfsemi. Framleiðendur geta óskað eftir að gera slíka samninga til ársins 2022. Breytingar verða gerðar á fyrirkomulagi beingreiðslna, gripagreiðslur falla út og hlutföll til einstakra verkefna breytast. Markmið þeirra breytinga er að draga úr vægi greiðslna sem tengdar eru við framleitt kjötmagn eða gripafjölda. Heildarfjárhæð greiðslna hvers árs verður sem áður samkvæmt gildandi samningi en áhersla er frekar lögð á stuðning sem er síður hvetjandi til offramleiðslu.

Markaður fyrir greiðslumark

Stofnsettur verður markaður fyrir greiðslumark sem verður í höndum Búnaðarstofu Matvælastofnunar. Greiðslumark verður innleyst og boðið til sölu á innlausnarverði ár hvert. Heimilt er að gefa ákveðnum hópum framleiðenda forgang á kaupum á því greiðslumarki sem boðið verður til sölu hverju sinni. Þessi aðgerð er til þess fallin að halda niðri kostnaði af kerfinu og sameina hagsmuni innan stéttarinnar.

Aukið jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir

Í samkomulaginu er ákvæði sem ætlað er að stuðla að framleiðslujafnvægi á sauðfjárafurðum. Fjárhæðum samkvæmt þeim lið verður ráðstafað ef bregðast þarf við breytingum á framboði og eftirspurn á markaði. Það verður m.a. gert með því að efla markaðsfærslu sauðfjárafurða og greiða sérstakar uppbætur fyrir slátrun áa til fækkunar. Þá verður komið á fót svokallaðri innanlandsvog sem skilgreinir þarfir og eftirspurn innanlandsmarkaðar eftir kindakjöti. Árlega skal Matvælastofnun áætla sölumagn kindakjöts á innanlandsmarkaði næsta almanaksár og byggja þá áætlun á sölu síðustu 24 mánaða og líklegri söluþróun. Mismunur á raunverulegri framleiðslu og innanlandsvog gefur til kynna árlega útflutningsþörf sláturleyfishafa. Álagsgreiðslur vegna gæðastýringar munu skiptast á þann hluta heildarframleiðslunnar sem ætlaður er til innanlandsmarkaðar. 

Ásetningshlutfall verður lækkað úr 0,7 í 0,6 frá og með 1. janúar 2020. Jafnframt er gerð sú breyting að ráðherra verður heimilt að endurmeta hlutfallið árlega að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga, með tilliti til innanlandsvogar og þróunar á framboði og eftirspurn sauðfjárafurða. Í núgildandi samningi er ásetningshlutfallið ákveðið í lögum.

Samstarf við sauðfjárbændur um kolefnisjöfnun

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að gengið verði til samstarfs við sauðfjárbændur á árinu 2019 um kolefnisjöfnun greinarinnar.

Unnið verður að þróun og innleiðingu verkefnisins á grundvelli þeirra tillagna og greininga sem fram hafa komið. Verkefnið verður vistað í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og unnið í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Næsta endurskoðun árið 2023

Endurskoðun sauðfjársamnings fer fram næst árið 2023. Fyrst og fremst verður horft til þess hvernig framleiðsla sauðfjárafurða og afkoma í greininni hefur þróast og hvernig markmið samningsins og þess samkomulags sem nú er gert hafa gengið eftir. Einnig skal skoða þróun í bústærð, fjölda búa eftir svæðum og fjárfjölda í landinu. Þá skal endurskoða býlisstuðning, bæði fjárhæðir og þrep.

Sérstök bókun var gerð í samkomulagið þar sem lögð er áhersla á að mikilvægt sé að ná fram aukinni hagræðingu í greininni og að kannað verði hvort sláturleyfishafar geti átt samstarf um afmarkaða þætti í starfsemi sinni.

Í viðaukum samkomulagsins er fjallað með nákvæmari hætti um aðlögun að nýrri starfsemi til sveita, fyrirkomulag beingreiðslna og þróun afurðaverðs og fjárfjölda.

Það voru þau Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkisins, og Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, og Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, og Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður samninganefndarinnar, sem skrifuðu undir samkomulagið. Það er undirritað með fyrirvara um samþykki Alþingis á nauðsynlegum lagabreytingum og samþykki félagsmanna LS og BÍ í atkvæðagreiðslu. Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 19. febrúar 2016.

Samkomulag um breytingar á samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...