Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að markmiði að auka gagnsæi í raforkuviðskiptum.
Raforkukauphöllin, fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins, var opnuð fyrr í mánuðinum. Sér Vonarskarð ehf. um rekstur hennar sem á sér allnokkurn aðdraganda en fékk leyfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins til starfsemi skömmu fyrir sl. áramót. Níu aðilar eru í kauphöllinni í byrjun. Orkustofnun hefur eftirlit með því að fyrirtækið fullnægi þeim lagaskilyrðum sem gilda um rekstur raforkumarkaðarins. Framkvæmdastjóri Vonarskarðs er Björgvin Skúli Sigurðsson.
Landsvirkjun er ekki þátttakandi í raforkukauphöllinni að sinni, þrátt fyrir að framleiða um 70% allrar íslenskrar raforku, og segir Landsvirkjun það vera vegna slæmrar vatnsstöðu á hálendinu og verði möguleg þátttaka endurmetin í maí. Önnur orkufyrirtæki landsins eru þátttakendur á markaðnum frá upphafi, að sögn forsvarsmanns Vonarskarðs.
Ekki aðeins eigi raforkukauphöllin að auka gagnsæi heldur jafnframt að einfalda innkaup á rafmagni, sérstaklega fyrir opinber fyrirtæki og stofnanir sem hafi hingað til þurft að bjóða út raforkukaup sín til að uppfylla kröfur laga. Með tilkomu raforkumarkaðarins geti þessir aðilar keypt rafmagn af markaðnum í staðinn.
Segir Vonarskarð raforkukauphöll vera eðlilega þróun á raforkumarkaði og raunar löngu tímabært að Ísland stökkvi á þann vagn. Gegnsærra verði hvert sé verð raforku hverju sinni og áhætta færð milli aðila með skýrari hætti en áður tengt raforkusölu fram í tímann.