Hesturinn aflífaður á mannúðlegan hátt
Hestshaus var á dögunum settur á stöng við Skrauthóla á Kjalarnesi, eins fram kom í fréttum í lok síðustu viku. Í tilkynningu frá Matvælastofnun kemur fram að allt bendi til að hesturinn hafi verið aflífaður á mannúðlegan hátt, með skoti eða boltabyssu í hausinn.
„Aðkoma Matvælastofnunar að rannsókn lögreglu miðaði eingöngu að því að kanna hvort vísbendingar væru um að hesturinn hefði verið aflífaður með ólögmætum hætti. Farið var með hausinn í rannsókn á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum á Keldum. Niðurstaða rannsóknarinnar bendir til þess að hesturinn hafi verið aflífaður á mannúðlegan hátt, með skoti eða boltabyssu í hausinn. Aðkomu Matvælastofnunar að rannsókninni hvað dýravelferð varðar er lokið,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.