Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Víðerni Íslands eru einstök.
Víðerni Íslands eru einstök.
Mynd / Felix
Fréttir 18. febrúar 2025

Hjartað slær með náttúruvernd

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Sigrún Ágústsdóttir er forstjóri nýrrar Náttúruverndarstofnunar sem tók til starfa um áramótin. Höfuðstöðvar hennar eru á Hvolsvelli, í heimabyggð Sigrúnar.

Náttúruverndarstofnun fer með stjórnsýslu og eftirlit á sviði náttúruverndar, líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbærrar þróunar, friðlýstra svæða, verndar villtra fugla og spendýra og veiðistjórnun. Þá sinnir stofnunin eftirliti og samhæfingu.

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri nýrrar Náttúruverndarstofnunar, er flutt aftur á æskuslóðir sínar á Hvolsvelli. Mynd/Aðsend

„Allt sem lýtur að vernd náttúrunnar í allri sinni dýrð heyrir undir stofnunina auk lífríkis- og veiðistjórnunarmála. Við erum aðgerða- og þjónustustofnun,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri hinnar nýju stofnunar.

Náttúruverndarstofnun rekur átta gestastofur um allt land og samtals eru starfsstöðvarnar um fimmtán. Starfsmenn á ársgrundvelli eru um hundrað talsins. Á sumrin tvöfaldast starfsmannafjöldinn og starfsstöðvum fjölgar vegna landvörslu, meðal annars inni á hálendinu.

Öll friðlýst náttúruverndarsvæði landsins, utan Þjóðgarðsins á Þingvöllum, tilheyra hinni nýju Náttúruverndarstofnun en þau eru 130 talsins af öllum stærðum og gerðum. Áður var Vatnajökulsþjóðgarður sér stofnun en önnur friðlýst svæði heyrðu áður undir Umhverfisstofnun.

Sigrún hefur starfað að umhverfismálum í rúm tuttugu ár. Hún var sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun frá árinu 2008 og var auk þess staðgengill forstjóra áður en hún var skipuð í embætti forstjóra 2020. Þá starfaði hún sem lögfræðingur hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu á árunum 2000–2008. „Mín aðkoma að umhverfismálum byrjaði í náttúruverndinni. Ég skrifaði lokaverkefni á sínum tíma í mínu háskólanámi um friðlýsingar. Þá varð áhugasviðið alveg skýrt. Síðan vann ég að umhverfismálum í ráðuneytinu áður en ég færðist yfir til Umhverfisstofnunar.“

Nú hefur Umhverfisstofnun verið lögð niður og skiptast verkefni hennar á tvær stofnanir. „Hjartað hefur alltaf slegið mjög taktfast með náttúruverndinni og mér fannst starfið því virkilega spennandi,“ segir Sigrún. Fyrstu verkin í nýjum forstjórastól eru að tengja saman starfshópinn og leggja grunn að fjölmörgum verkefnum stofnunarinnar. Þá sé nú þegar farinn í gang undirbúningur á náttúruverndarsvæðum fyrir sumarið.

Landverðir skipta meginmáli

Sigrún segir nauðsynlegt að fylgjast vel með náttúruverndarsvæðum, sífellt þurfi að huga að þjónustu og aðstöðu, sér í lagi á álagssvæðum. „Við gerum ástandsmat á friðlýstum svæðum árlega til að sjá hvernig svæðin þola umferðina og þá skiptir máli að vera með rétta innviði sem hæfa hverju svæði fyrir sig svo þau geti tekið við því fólki sem þangað vill koma. Langflestir ferðamenn koma hingað til lands út af náttúrunni. Það verður að veita þeim viðeigandi þjónustu og fylgjast vel með að þessi sérstaða haldi sér,“ segir Sigrún.

Þar skipti landverðir sköpum. „Þetta er ekki bara spurning um að vera með réttan pall og stíga, heldur skiptir þetta mannlega gríðarlega miklu máli, bæði leiðsögn, fræðsla og leiðbeiningar.“

Hún telur því náttúruvernd hér á landi vera nokkuð góða. „Ég held við séum að standa vaktina prýðilega. Hér hefur byggst upp góður mannauður á undanförnum árum og mikil sérþekking. Þá hefur fjármagn til sviðlýstra svæða frekar verið að styrkjast, sem er jákvæð þróun. Það eru til dæmis einstök víðerni á Íslandi.“

Áskoranirnar felast í að finna rétta jafnvægið milli náttúruverndar og nýtingar. „Við erum álitsgjafar varðandi orkuöflun, í hvaða formi sem hún kann að vera, við áform um ýmsar framkvæmdir. Þá veitum við ráðuneytinu einnig ráðgjöf. Þetta eru stórar áskoranir, því þegar byrjað er að raska einu svæði þá er tilhneiging til að halda áfram. Við þurfum því að vera mjög skýr á því hvað einkennir íslenska náttúru, hvað við viljum halda í og hverju við viljum alls ekki fórna. Þá erum við náttúrlega að tala um þessi einstöku víðerni sem eru á Íslandi. Við erum líka með skýrar skuldbindingar varðandi líffræðilega fjölbreytni og verðum að gera okkur grein fyrir því hvað þarf til að ná þeim markmiðum sem við höfum samið um – og framkvæma það, bæði á landi og á hafi.“

Sefur betur og laus við umferðarþunga

Höfuðstöðvar Náttúrverndarstofnunar eru nú á Hvolsvelli en Sigrún er ættuð þaðan og er því flutt aftur á æskuslóðir.

„Það er æðislegt að vera komin í sveitina, ef svo má segja. Hér sef ég miklu betur og er aðeins þrjár mínútur að fara í vinnuna, sem er mikil breyting frá umferðarþunga höfuðborgarsvæðisins þar sem ég hef búið undanfarin ár.

Ég er því núna að endurnýja kynnin við fólk sem ég þekkti þegar ég var lítil stelpa. Ég bjó hér á Hvolsvelli fram á unglingsaldur en var líka við sveitastörf hjá afa og ömmu á Hemlu, sem var þá hrossa- og sauðfjárbú. Ég var því vön því að vera við sauðburð, smala hrossum og kindum og hjálpa til í heyskap. Það var baggaheyskapur í þá tíð og gott að geta þess að baggatínan var fundin upp hér á Hvolsvelli. Hún er úr smiðju kaupfélagsins og þótti mikil búbót á sínum tíma,“ segir Sigrún.

Ferðaþjónusta sem hluti af heildinni
Fréttir 28. mars 2025

Ferðaþjónusta sem hluti af heildinni

Nærandi ferðaþjónusta er ný nálgun í ferðaþjónustu sem miðar að því að leggja ræ...

Endingarmeira malbik og vegklæðing
Fréttir 28. mars 2025

Endingarmeira malbik og vegklæðing

Með því að blanda hágæða jarðbiki úr endurunnum þakdúki í malbik eða vegklæðingu...

Amerísk kögurvængja og dvergmítill nýir landnemar
Fréttir 28. mars 2025

Amerísk kögurvængja og dvergmítill nýir landnemar

Dvergmítlar og ný tegund kögurvængju eru nýlegir landnemar á Íslandi og geta val...

Strandirnar standa sterkari eftir
Fréttir 27. mars 2025

Strandirnar standa sterkari eftir

Strandamenn hafa staðið í átaki til að stöðva fólksfækkun og efla innviði og atv...

Íslenskar paprikur árið um kring
Fréttir 27. mars 2025

Íslenskar paprikur árið um kring

Sölufélag garðyrkjumanna fékk nýverið 13,5 milljóna króna styrk vegna rannsókna ...

Brugðist við áfellisdómi
Fréttir 27. mars 2025

Brugðist við áfellisdómi

Matvælastofnun hefur brugðist við niðurstöðum stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoð...

Fjölmennum eigendahópum fjölgar
Fréttir 26. mars 2025

Fjölmennum eigendahópum fjölgar

Undanfarin ár hefur orðið veruleg fjölgun jarða í fjölmennri sameign. Sé miðað v...

Rekstrarfélag um lífgas- og áburðarver
Fréttir 26. mars 2025

Rekstrarfélag um lífgas- og áburðarver

Í byrjun mars var rekstrarfélag stofnað utan um starfsemi á lífgas- og áburðarve...