Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Búskapur með blóðgjafahryssur
Mynd / Elín Vigdís Andrésdóttir
Fréttir 13. febrúar 2020

Búskapur með blóðgjafahryssur

Höfundur: Arnþór Guðlaugsson

Undanfarna daga og vikur hefur umræða skapast, m.a. á net­­miðlum, um búskap bænda sem halda folaldshryssur og nýta þær jafnframt til blóðgjafa.  Einnig lagði þingmaður nýlega fram fyrirspurn til ráðherra um þennan búskap.

Hryssublóði hefur verið safnað á Íslandi í um 40 ár í þeim tilgangi að vinna úr því virka lyfjaefnið eCG til framleiðslu á frjósemislyfjum. Frjósemislyf sem innihalda eCG eru notuð um allan heim til meðferðar á frjósemisvandamálum í húsdýrum og til samstillingar gangmála. Þau eru notuð m.a. fyrir nautgripi, svín, kindur og geitur, en eCG virkar einnig á önnur spendýr. Ekkert nothæft efni er til sem kemur í staðinn fyrir eCG.

Í kringum 1980 var blóði safnað og það flutt úr landi til vinnslu. Síðar var ákveðið að vinna blóðið hérlendis og var lyfjaverksmiðja byggð í þeim tilgangi. Eins og þekkt er um sprotafyrirtæki var reksturinn erfiður í fyrstu.

Ísteka ehf. er GMP vottað fyrirtæki

Arnþór Guðlaugsson.

Líftæknifyrirtækið Ísteka ehf. var stofnað utan um reksturinn í desember árið 2000 og er því nú að verða 20 ára. Framleiðslan byggist á hátækniaðferðum sem fyrirtækið hefur þróað. Ísteka er GMP vottað fyrirtæki (Good Manufacturing Practice / góðir framleiðsluhættir í lyfjagerð) og er verksmiðjan og framleiðslukerfi fyrirtækisins skoðuð reglulega af innlendum og erlendum lyfjayfirvöldum til að ganga úr skugga um að ströngum lagakröfum GMP kerfisins sé fylgt. Ísteka er nú þekkt um allan heim fyrir vandaða framleiðslu og á það stærstan þátt í velgengni félagsins.

Allt eCG sem er framleitt er selt erlendum lyfjaframleiðendum sem framleiða úr því fullbúið frjósemislyf. Veltan síðustu 10 árin, eins og sjá má af ársreikningum (2009-18), hefur ríflega þrefaldast.  Starfsmenn eru nú tæplega 40, þá eru ótalin afleidd störf, m.a. hjá dýralæknum og bændum. 


Félagið hefur verið kynnt á landbúnaðarsýningum, á fundum um land allt og fjallað hefur verið um þessa starfsemi í tímaritum, dagblöðum, sjónvarpi og útvarpi. Með vaxandi eftirspurn erlendra aðila og aukinni framleiðslugetu Ísteka hafa frekari tækifæri skapast fyrir bændur til sölu á blóði úr fylfullum hryssum.

Bændur halda folaldshryssur sem áður voru eingöngu nýttar í kjötframleiðslu en gefa nú af sér þessa aukaafurð sem Ísteka kaupir.

Bændabýlin eru flest fjölskyldu­bú dreifð út um allt land, alls um 100 talsins, með ríflega 5000 hryssur. Margir bændanna eru jafnframt sauðfjárbændur, kúabændur eða afla sér viðurværis með annarri starfsemi.

Meðalverð á blóðgjöf (5 L) í ár er rúmar 10.000 krónur án vsk og að meðaltali fást um 80.000 krónur fyrir afurðir hryssu á ári að folaldi meðtöldu.

Folöldunum er annaðhvort slátrað til manneldis í sláturhúsum að hausti eða þau sett á vetur til frekari ræktunar. Bændur hafa af þessu drjúgar tekjur og þannig er stutt við að byggð haldist í fámennum sveitum.

Auðvelt er fyrir bændur að koma sér upp folaldshryssum. Upphafskostnaður er fremur lítill og aðalvinnan á blóðgjafatímabili felst í smölun og aðstoð við dýralækni. Utan blóðgjafatímabils er vinna fólgin í gjöfum, tilhleypingum að vori og almennu eftirliti árið um kring.

Aðlögunarsamningur í sauð­fjár­rækt hjá Framleiðnisjóði land­bún­aðarins getur nýst bænd­um á starfandi búum við að breyta um áherslur og styrkja reksturinn. (http://www.fl.is/adlogunar­samningar-i-saudfjarraekt/).

Dýravelferð er lögð til grundvallar

Grundvöllur starfsemi bænd­anna og Ísteka er dýravelferð. Hrossin fá góða umönnun og meðferð í samræmi við bestu starfshætti í landbúnaði og þau lög og reglur sem gilda um dýravelferð (meðal annars lög um velferð dýra nr. 55/2013 og reglugerð um velferð hrossa nr. 910/2014). Hrossin eru í stórum hjörðum með gott rými allt árið um kring. Þau eru félagsverur og njóta samneytis við önnur hross eins og þeim er eðlislægt. Á haustin hafa þau góðan fituforða til að takast á við veturinn.

Blóðgjafirnar fara þannig fram að hryssan er leidd í bás þar sem dýralæknir tekur við henni. Hann staðdeyfir hryssuna, setur nálina upp og leyfir 5 L að renna í þar til gert ílát. Hryssan stoppar við í básnum í 10-15 mínútur og er eftir það hleypt út þangað sem hún fær aðgang að vatni, salti og beit og folaldið bíður hennar. Blóðgjafatímabilið er einu sinni á ári í um 2 ½  mánuð síðsumars og fram á haust. Á því tímabili eyðir hver hryssa að meðaltali rúmum klukkutíma í blóðgjöf og launar þannig gott líf og frelsi árið um kring.

Áratuga reynsla og margítrekað­ar rannsóknir á hryssunum hafa sýnt fram á að blóðgjafirnar hafa engin neikvæð áhrif á heilsu þeirra. Þær þyngjast eðlilega og blóðgildi þeirra eru í jafnvægi yfir blóðgjafatímabilið. Fyl þeirra þroskast eðlilega og folöldin þeirra stækka eins og önnur folöld.

Ísteka hefur notað þekkingu sína og reynslu af GMP gæðakerfi lyfjaframleiðslunnar við að þróa eftirlitskerfi með velferð hryssanna. Dýravelferðarfulltrúi Ísteka heimsækir bæi á blóðgjafa­tímabilinu og einnig yfir vetrar­tímann. Hlutverk hans er að sannreyna að skilyrðum dýra­velferðar­samninga milli Ísteka og bænda sé fullnægt. Í samning­unum koma fram ákvæði laga og reglugerða ásamt kröfum Matvælastofnunar (MAST) vegna leyfis fyrirtækisins til starfseminnar. MAST hefur jafn­framt eftirlit með starfseminni í samræmi við lög og reglur.

Hefur bætt hag hrossabænda

Framleiðendur folaldakjöts hafa seinustu ár í auknum mæli aukið tekjur sínar með því að selja blóð úr hryssum sínum til lyfjaframleiðslu. Ísland er mjög heppilegur staður til þessarar framleiðslu. Hér þekkjast sárafáir smitsjúkdómar í hrossum miðað við það sem þekkist í öðrum löndum. Hér á landi er enn fremur bæði menningu og löggjöf þannig háttað að dýravelferðarsjónarmiðum eins og þau gerast ströngust er hér fylgt sem sjálfsögðum hlut.

Samstarf bænda og Ísteka hefur aukið fjölbreytni í búskap og skapað bændum aukin tækifæri til tekna og styrkt viðkvæmar byggðir út um landið. Samstarfið hefur auk þess skapað rótgróinn iðnað, hátæknistörf og eftirsótta útflutnings­vöru. Útlit er fyrir að vöxtur verði áfram í greininni og framleiðsla aukist enn frekar á komandi árum.

Arnþór Guðlaugsson
framkvæmdastjóri Ísteka ehf.

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...