Deild landeldis nýr þátttakandi
Deild landeldis var stofnuð innan Bændasamtaka Íslands síðasta sumar og því verður búgreinin þátttakandi í búgreinaþingi.
Þorvaldur Arnarsson, verkefnisstjóri hjá fiskeldisfyrirtækinu Landeldi, er formaður búgreinadeildar innar og hyggst bjóða sig fram til áframhaldandi formennsku.
Landeldissamtök Íslands (ELDÍS) voru einnig stofnuð síðasta sumar með aðild Landeldis hf., Samherja hf., Geo Salmo, Matorku og ILFS í Vestmannaeyjum. Undirrituð var viljayfirlýsing á milli ELDÍS og Bændasamtaka Íslands um að vinna sameiginlega að fullvinnslu lífræns úrgangs til áburðarframleiðslu á Íslandi.
„Ég er þakklátur fyrir tækifærið og hef metnað til að gera vel á þessum vettvangi.
Einmitt núna erum við í Landeldi hf. eina félagið í landeldisdeild Bændasamtaka Íslands. Við erum nýkomin inn og deildin í sjálfu sér nýstofnuð, og við erum að vinna í því þessi dægrin að kynna vettvang deildarinnar og Bændasamtakanna í heild fyrir samstarfsaðilum okkar í Landeldissamtökum Íslands,“ segir Þorvaldur um framtíð deildarinnar innan Bænda samtaka Íslands.
„Við höfum ekki afmarkað sérstaka málaskrá enn sem komið er fyrir búgreinaþingið, en við lítum á það sem kærkomið tækifæri til að tengjast bændasamfélaginu og vonandi eiga samtal um leiðir til að leggja okkar af mörkum með hvaða hætti sem það kann að vera.
Við lítum á okkur sem bændur þar sem við stundum matvælaframleiðslu á okkar eigin landi og leggjum mikinn metnað í að ná jákvæðum umhverfis áhrifum af okkar framleiðslu, vonandi til virðisauka fyrir landbúnaðarsamfélagið allt,“ bætir Þorvaldur við.