Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Kjötmjöli dreift. Talið er að auðvelt sé að nýta það meira og betur. Langmest af næringarefnunum er að finna í búfjárúrgangi sem almennt er vel nýttur þó til séu undantekningar.
Kjötmjöli dreift. Talið er að auðvelt sé að nýta það meira og betur. Langmest af næringarefnunum er að finna í búfjárúrgangi sem almennt er vel nýttur þó til séu undantekningar.
Mynd / Landgræðslan
Í deiglunni 13. apríl 2023

Úrgangur verður auðlind

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Tillögur EFLU verkfræðistofu um bætta nýtingu lífrænna efna í landbúnaði og landgræðslu hafa verið birtar í Samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Stór hluti næringarefna sem finnast í lífrænum úrgangi og falla til á Íslandi, fara til spillis.

Heildarmagn næringarefnanna niturs, fosfórs og kalí í þessum lífræna úrgangi er hins vegar það sama og magn þessara næringarefna sem flutt er til landsins í formi tilbúins áburðar.

Þessar tillögur eiga rætur sínar að rekja til vinnu matvælaráðuneytisins á síðasta ári þegar ákveðið var að ráðast í gerð vegvísis um þessa nýtingu sem þörf var fyrir að bæta, meðal annars til að draga úr þörf fyrir innflutningi á áburði og fóðri – og minnka neikvæð loftslagsáhrif.

Greining Matís til grundvallar

Til grundvallar mati á umfangi lífrænna efna á Íslandi liggur skýrslan „Greining á magni lífrænna áburðarefna á Íslandi og tækifæri til aukinnar nýtingar“ sem unnin var hjá Matís og gefin út í apríl á síðasta ári. Með lögum um bann við urðun á niðurbrjótanlegum úrgangi, sem tóku gildi um síðustu áramót, má búast við að magn þessara efna aukist mjög á næstu misserum sem þarf fljótlega að finna frjóan farveg fyrir.

Í skýrslu Matís kemur fram að langmest af næringarefnunum sé að finna í búfjárúrgangi sem almennt sé vel nýttur þó til séu undantekningar. Einnig að mikið magn næringarefna sé að finna í úrgangi frá eldisdýrum eins og í svína- og alifuglarækt og í úrgangi frá fiskeldi, en talið er líklegt að magnið úr slíku eldi fari hratt vaxandi á næstu misserum. Næringarefni í skólpi og seyru eru metin talsverð sem og í matarúrgangi en nýting þeirra efna sé mjög lítil.

Þó er varað við því að draga þá ályktun að nóg sé til af næringar- efnum á Íslandi þar sem stór hluti næringarefna í búfjáráburði komi úr innfluttum tilbúnum áburði og kjarnfóðri og einnig ríki óvissa um hversu stór hluti sláturúrgangs og dýrahræja sé nýtanlegur sökum heilbrigðissjónarmiða.

Áskorun að verða fullkomlega sjálfbært

Í vegvísi EFLU segir enda að það sé ljóst, að á Íslandi sé áskorun að verða fullkomlega sjálfbært um innlendan áburð. Hins vegar sé vel gerlegt að minnka hlutfall hans verulega á næstu árum með því að nýta betur þau næringarefni sem til falla. „Tilbúinn áburður er í mörgum tilfellum framleiddur í löndum þar sem notast er við óendurnýjanlega orkugjafa enda er stærstur hluti kolefnisspors áburðar frá þeim löndum til kominn vegna framleiðslunnar.

Nitur má framleiða úr andrúmslofti og er í dag unnið að rannsóknum og þróun á umhverfisvænni aðferðum til slíkrar framleiðslu hér á landi. Það hefði víðtæk og jákvæð áhrif ef Ísland yrði sjálfbært um framleiðslu niturs. Lífræn áburðarefni skortir oft nitur. Sé hins vegar hægt að bæta nitri við slík efni verður áburðargildi þeirra mun betra. Niturframleiðsla hér á landi færir okkur einnig nær því að vera óháð innflutningi á tilbúnum áburði.

Fosfór er unninn úr námum og er því óendurnýjanleg og takmörkuð auðlind. Til að draga úr þörf á innflutningi á fosfór þarf á Íslandi, líkt og í öðrum ríkjum, að leggja áherslu á endurheimt hans úr úrgangsstraumum. Á Íslandi hefur einnig verið lögð áhersla á að veita bændum ráðgjöf varðandi kölkun jarðvegs sem dregur úr þörf á notkun fosfórs og gerir það einnig að verkum að fosfórinn er ekki eins bundinn í jarðveginum og nýtist þar af leiðandi betur,“ segir í vegvísinum.

Aðgerðir flokkaðar niður eftir flækjustigi og kostnaði

Í vegvísinum eru lagðar til 28 aðgerðir og þær flokkaðar niður eftir því hversu fýsilegar þær þykja; hversu flóknar þær eru í framkvæmd og kostnaðarsamar. Þær byggja á tillögum sem komu fram á fundum með hagsmunaaðilum frá stofnunum matvælaráðuneytisins.

Brýnt er talið að nýta þurfi mun betur þau lífrænu efni sem til falla hér á landi á næstu árum og áratugum. Það muni koma í veg fyrir neikvæð loftslagsáhrif og mengun vegna förgunar þeirra en einnig draga úr þörf á innflutningi áburðar og fóðurs – sem hafi áhrif á fæðuöryggi landsins.

Kjötmjöl og kjúklingaskítur

Gróflega er áætlað hversu mikið af mismunandi lífrænum efnum sé ónýtt í dag og mat lagt á hvað sé auðveldast að auka nýtingu á. Niðurstaðan er sú að kjötmjöl, hrossatað, kjúklingaskítur og bokashi-molta er talið vera auðveldast að nýta meira og betur. Þetta séu efni sem séu þurrari en önnur efni og því ekki eins kostnaðarsöm í flutningum og þau sem innihalda mikið vatn. Þessi efni eru þó misnæringarmikil, til að mynda sé hrossatað ekki næringarríkt en það sé kjúklingaskítur hins vegar. Ekki þurfi að ráðast í kostnaðarsama innviðauppbyggingu til að auka nýtingu þessara efna, þótt nýtingunni fylgi alltaf flutningskostnaður.

Þau efni sem þurfa meiri fyrirhöfn áður en hægt er að auka nýtingu þeirra eru svínaskítur, svartvatn (salernisskólp), seyra, hliðarafurðir sláturhúsa og fiskeldismykja.

Tilgangur vinnunnar við vegvísinn er að draga úr þörf fyrir innflutningi á áburði og fóðri – og minnka neikvæð loftslagsáhrif. Mynd/Bbl.

Mikilvæg þróun á áburðarefnum frá fiskeldi

Aukin nýting á þessum efnum í áburðarskyni kalli á nýsköpun, auknar rannsóknir, skipulag og uppbyggingu innviða en ekki síður á samstarf stofnana, ráðuneyta, einkaaðila og annarra íbúa í landinu. Sumar af þeim aðgerðum sem þarf að ráðast í séu kostnaðarsamar og krefjist mikils undirbúnings, en aðrar séu vel þekktar aðferðir og auðveldari í framkvæmd.

Sérstaklega er tiltekið að þörf sé á því að haldið verði áfram að þróa og rannsaka aðferðir til framleiðslu á áburðarefnum úr úrgangi frá fiskeldi, en fyrirsjáanleg eru aukin umsvif í þeirri grein.

Í kaflanum um eftirfylgni og næstu skref kemur fram að á fundum hagsmunaaðila hafi verið til umræðu hvernig tryggja megi áframhaldandi samstarf og hvaða vettvangur væri hentugastur til þess. Mikilvægt sé að leita til þeirra aðila sem eru búnir að þróa ýmsar lausnir í nýtingu lífrænna efna, eins og bænda og rekstraraðila, að þeir verði hluti af samtalinu sem fram fer í kjölfar þessarar vinnu.

Hluti af lausninni er hringrásarhagkerfið

Vegvísirinn er einnig angi af stefnu íslenskra stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og í samræmi við það markmið að ná kolefnishlutleysi árið 2040. Hluti af þeirri lausn birtist í stefnunni „Í átt að hringrásarhagkerfi“ sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra gaf út árið 2021 og gildir til ársins 2032. Stýrihópur Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra vinnur að framgangi stefnunnar.

Vegvísirinn verður mikilvægur þáttur við innleiðingu hringrásar- hagkerfisins. Honum er einnig ætlað að nýtast í vinnu við mótun stefnu og aðgerðaáætlana fyrir matvæli, landbúnað, landgræðslu, skógrækt, fiskeldi og sjávarútveg.

Hvað er : Glúten?

Glúten er prótein sem er að finna í kornvörum, eins og hveiti, byggi, rúgi og flestum höfrum. Glúten er límið sem heldur brauði saman og veldur meltingartruflunum hjá einstaklingum með glútenóþol. Þar sem áðurnefndar kornvörur eru notaðar í fjölmörg matvæli, leynist glúten í mjög mörgum vörum.

Hveiti er algengasta kornvaran sem inniheldur glúten og er brauð ein helsta birtingarmynd þess. Hveiti er einnig að finna í pasta, núðlum, morgunkorni, súpum, sósum, snakki, kjötbollum, fiskibollum og fleira. Enn fremur er afar algengt að hveiti sé innihaldsefni í nammi, eins og hlaupi og lakkrís. Eitt aðalinnihaldsefni hefðbundinnar sojasósu er hveiti. Þar sem hveiti er gagnlegt og aðgengilegt efni við framleiðslu þarf fólk með glútenóþol að skoða innihaldslýsingar flestra unninna matvæla. Ofnæmis- og óþolsvaldar eiga að vera feitletraðir á merkingum sem gerir fljótlegra að sjá þá.

Bygg eitt og sér er notað í grauta og matagerð. Það finnst einnig oft í morgunkorni eins og Corn Flakes og Rice Crispies. Enn fremur er byggmaltþykkni innihaldsefni sem gjarnan er notað í konfekt og nammi. Bygg er eitt aðalinnihaldsefni bjórs og malts og þurfa einstaklingar með glútenóþol að forðast þessa drykki. Því gruggugri sem bjórinn er því líklegra er að hann innihaldi meira glúten. Þar sem sum brugghús sækjast eftir að hafa sína bjóra tæra eru þær aðferðir sem þau nota oft að skila sér í glútenlausum bjór. Þar má annars vegar nefna notkun ensíma sem bætt er út í bjórinn þegar hann gerjast og er auðvelt að nota við heimabrugg. Stærri brugghús nota hins vegar skilvindu sem hreinsar burt gruggið – og þar með glútenið. Úrval glútenfrís bjórs hefur aukist undanfarin ár og hefur Bændablaðið heimildir fyrir því að ákveðin brugghús taki ekki fram á mörgum bjórum að þeir séu glútenlausir, þó þeir séu í raun búnir að fá sömu meðferð og bjórar sem markaðssettir eru sem slíkir. Viskí er bruggað úr möltuðu byggi, en við eiminguna hverfur allt glútenið.

Í upphafi var nefnt að flestir hafrar innihéldu glúten, en þessi planta framleiðir ekki glúten af náttúrunnar hendi. Ræktun á höfrum á sér hins vegar stað í miklu návígi við ræktun á hveiti, byggi og rúgi, og er gjarnan notaður sami tækjabúnaður við þreskingu og vinnslu. Krosssmit er því mikið og má gera ráð fyrir að hafrar innihaldi glúten nema annað sé tekið fram. Hafra má helst finna í hafragraut, morgunkorni, brauði, kexi, ásamt lifrar- og blóðpylsum.

Rúgur er líklegast óalgengasta korntegundin af þeim sem nefndar eru hér að ofan. Þó er hægt að finna hann í matvörum eins og rúgbrauði, brauði, lifrarpylsum og fleira. Þegar viskí er bruggað úr rúgi, verður glútenið eftir við eiminguna, rétt eins og með bygg.

Algengt er að fólk rugli saman glúteni og sterkju, en þetta er sitt hvor hluturinn. Glúten er ekki að finna í matvælum eins og kartöflum, hrísgrjónum og maís. Maíssterkja kemur sér vel í staðinn fyrir hveiti þegar þykkja á sósu. Úrval glútenlausra matvæla eykst með hverju ári, en í flestum matvöruverslunum finnst glútenlaust brauð, pasta, kex o.fl.

Ekki verður farið út í skilgreiningu á glútenóþoli, en engin lækning er til við þessum sjúkdómi og verður því ákveðinn hópur fólks að sneiða hjá glúteni allt sitt líf til að forðast veikindi. Rétt er að benda á að glútenóþol er ekki það sama og laktósaóþol eða vegan.

Skylt efni: hringrásarhagkerfið

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver
Fréttaskýring 30. desember 2024

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver

Stefnt er að stofnun rekstrarfélags á næstunni utan um starfsemi á lífgas- og áb...

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...