Indverjar hefta útflutning
Indland, sem er annar stærsti hveitiframleiðandi í heiminum, setti útflutningshömlur á hveiti í vor.
Í kjölfarið jókst útflutningur á möluðu hveiti um 200% miðað við sama tíma í fyrra. Þetta leiddi til verðhækkana á innanlandsmarkaði. Fyrir skemmstu lokuðu indversk stjórnvöld á útflutning á hveitimjöli.
Þetta gera indversk stjórnvöld til að tryggja fæðuöryggi sinna þegna og sporna við hækkuðu verði á innanlandsmarkaði. Guardian greinir frá. Vonir stóðu til að Indland gæti fyllt það skarð sem varð við lokun hafna við Svartahaf við innrás Rússa í Úkraínu. Uppskerubrestur, verðhækkanir og minnkaðar neyðarbirgðir í korngeymslum urðu til þess að indversk stjórnvöld settu skyndilegar hömlur við útflutningi á hveiti 14. maí síðastliðinn.
Útflutningshömlurnar í vor höfðu tímabundin áhrif til verðlækkunar á hveiti. Útflytjendur nýttu sér fljótlega glufu í reglugerðinni sem bannaði ekki útflutning á möluðu hveiti.
Það leiddi til 20% verðhækkunar í sumar. Indversk stjórnvöld brugðust við í lok ágúst og settu útflutningshöft á malað hveiti.