Landgræðslu- og landsáætlun í skógrækt
Drög að landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt eru nú til kynningar á vefsíðum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Vinna við áætlanirnar tvær er í samræmi við lög um landgræðslu og lög um skóga og skógrækt.
Meginmarkmið landgræðsluáætlunar lúta að vernd og endurheimt vistkerfa, vernd kolefnisríks jarðvegs, samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá landi og bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri samhliða því að efla líffræðilega fjölbreytni. Jafnframt er fjallað um hvernig má auka þanþol og viðnámsþrótt vistkerfa og nýta land á sjálfbæran hátt, í takt við vistgetu þess.
Landsáætlun í skógrækt fjallar um málaflokkinn skógrækt, sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Skógræktin er sú ríkisstofnun sem fæst við málaflokkinn. Heildstæð stefna á þeim forsendum sem hér gilda hefur ekki áður verið unnin. Lokaafurð er heildarstefna í skógrækt á Íslandi til næstu 10 ára.
Drögin eru kynnt í sex vikur ásamt umhverfismati. Óskað er eftir umsögnum um drögin og er umsagnarfrestur til og með 14. júní.