Mjólkurkvótinn aukinn um ríflega eitt prósent á næsta ári
Heildargreiðslumark mjólkur fyrir næsta ár verður aukið um ríflega eitt prósent, samkvæmt breytingu á reglugerð um stuðning við nautgriparækt sem Svandís Svavarsdóttir landbúnaðarráðherra hefur undirritað.
Framkvæmdanefnd búvörusamninga hefur fjallað um málið og lagði til við ráðherra að heildargreiðslumark næsta árs yrði 146,5 milljón lítrar. Á þessu ári var heildargreiðslumark 145 milljón lítrar af mjólk, sem var þriðja árið í röð þar sem það hélst óbreytt.
Forsendur nefndarinnar eru, samkvæmt tilkynningu úr ráðuneytinu, áætlun neyslu á innlendum mjólkurvörum sem gerir ráð fyrir svipaðri sölu og 2021. „Hins vegar hafa stuðlar um samsetningu mjólkur tekið breytingum til hækkunar. Fitu- og próteininnihald mjólkur tekur sífellt náttúrulegum breytingum og nú hefur það þau áhrif að fleiri lítra mjólkur þarf til þess að framleiða sama magn mjólkurvara,“ segir í tilkynningunni.
Beingreiðslurnar miðast við heildargreiðslumark mjólkur
Heildargreiðslumark mjólkur er það magn mjólkur sem beingreiðslur ríkissjóðs miðast við og er ákveðið fyrir upphaf hvers verðlagsárs.
Við ákvörðun nefndarinnar skal byggt á neyslu innlendra mjólkurvara sem farið hafa um afurðastöðvar á árinu og áætlun ráðherra fyrir komandi verðlagsár, að teknu tilliti til birgða. Við mat á neyslu og birgðum skal miða við gildandi stuðla um samsetningu mjólkurafurða. Þá skal ráðherra byggja áætlun fyrir komandi verðlagsár á upplýsingum frá afurðastöðvum.