Mýrdælingar mótmæla harðlega hugmyndum um bann við fýladrápi
Einar Freyr Elínarson, oddviti Mýrdalshrepps, er mjög ósáttur við frumvarp umhverfisráðherra þar sem kveðið er m.a. á um að fýlaveiðar verði bannaðar. Hann hefur enga trú á því að frumvarpið verði samþykkt.
„Jú, það er rétt, við erum ósátt hér í Mýrdalnum, að sjálfbærar veiðar á fýl séu teknar fyrir með þessu móti í frumvarpinu og bannaðar. Löng hefð er fyrir veiðunum og ég botna í sjálfu sér ekki í því hvers vegna þetta er lagt til.
Aðferðin sem notuð er til að veiða fýl er síst verri en nokkur önnur veiðiaðferð. Fuglinn líður ekki meiri kvalir heldur en t.d. sá sem er skotinn og hrapar nokkra tugi metra til jarðar,“ segir Einar Freyr.
„Ég hef enga trú á því að þetta frumvarp fari óbreytt í gegn og á von á því að fá boð á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis til að leiðrétta þann misskilning sem virðist uppi um þessar veiðar. Þær eru sjálfbærar og á engan hátt verri en önnur veiði sem ekki er verið að banna með þessu frumvarpi.“
Einar Freyr Elínarson oddviti, sem segir Mýrdælinga
ósátta við þær hugmyndir að banna veiðar á fýl.