Rakel Jakobína fékk 29 milljóna króna skógræktarstyrk
Rakel Jakobína Jónsdóttir, doktorsnemi og sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, hlaut annan hæsta styrkinn við fyrstu úthlutun úr doktorsnemasjóði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sem úthlutað var úr á dögunum.
Hlaut Jakobína tæpar 29 milljónir króna til þriggja ára. Peningarnir verða nýttir til rannsókna sem tengjast framleiðslu skógarplantna og nýskógrækt og aðlögun að nýjum aðferðum.
Á heimasíðu Skógræktarinnar kemur m.a. fram að auka þarf framleiðslu skógarplantna í landinu og því er vélvæðing í framleiðsluferlum ákjósanlegur kostur.
Rakel vinnur m.a. að verkefni með tveimur norskum skógarplöntuframleiðendum, sem hafa tekið vinnuþjarka eða róbóta í sína þjónustu til þess að auka framleiðslu og hagræða í rekstri.