Forstjóri Skipulagsstofnunar telur að ógnir við góð landbúnaðarlönd hafi komið fram á síðustu árum. Eitt af stefnumálum nýrrar ríkisstjórnar er að breyta jarðalögum til að koma í veg fyrir samþjöppun á eignarhaldi jarða og
stuðla að nýtingu á ræktarlandi til búrekstrar.
Forstjóri Skipulagsstofnunar telur að ógnir við góð landbúnaðarlönd hafi komið fram á síðustu árum. Eitt af stefnumálum nýrrar ríkisstjórnar er að breyta jarðalögum til að koma í veg fyrir samþjöppun á eignarhaldi jarða og stuðla að nýtingu á ræktarlandi til búrekstrar.
Mynd / smh
Fréttir 30. janúar 2025

Ramminn skýr fyrir vernd landbúnaðarlanda

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Forstjóri Skipulagsstofnunar telur að ógnir við góð landbúnaðarlönd hafi komið fram á síðustu árum og mikilvægt sé að nákvæmari mynd fáist af umfangi þessara landa.

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er ákvæði um breytingar á jarðalögum sem ráðist verði í til að koma í veg fyrir samþjöppun á eignarhaldi jarða og stuðla að nýtingu á ræktarlandi til búrekstrar.

Sveitarstjórnir með ákvörðunarvald um breytta landnotkun

Árið 2021 varð sú breyting á jarðalögum að sveitarstjórnum er falið það hlutverk að taka ákvörðun um breytta landnotkun, það er að veita heimild fyrir því að taka landbúnaðarland úr landbúnaðarnotkun og ráðstafa því til annarra nota við gerð skipulagsáætlana. Fram til þess tíma þurfti sveitarstjórn að leita til þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til að fá heimild til þess.

Ólafur Árnason.

Að sögn Ólafs Árnasonar, forstjóra Skipulagsstofnunar, tengjast þessi stefnumál beint og óbeint skipulagsmálum. „Í jarðalögum er í fimmtu grein sett fram þau viðmið sem sveitarstjórnum ber að leggja til grundvallar og taka afstöðu til, við ákvörðun um að taka landbúnaðarsvæði úr landbúnaðarnotum. Viðmiðin eru þau annars vegar, hvort landið sé stærra en þörf krefur að teknu tilliti til þeirra nýtingaráforma sem skipulagstillagan felur í sér. Jafnframt, eftir því sem við á, hvort aðrir valkostir um staðsetningu komi til greina fyrir fyrirhugaða nýtingu á landi sem hentar síður til landbúnaðar og þá sérstaklega jarðræktar.

Hins vegar mat á áhrifum breyttrar landnotkunar á aðlæg landbúnaðarsvæði, meðal annars hvort hæfileg fjarlægð er milli lands með breyttri landnotkun og landbúnaðar sem fyrir er og hvort girt verði með nýtingaráformum fyrir möguleg búrekstrarafnot af landinu í framtíðinni.“

Varðveita eigi land til búvöruframleiðslu

Ólafur segir að einnig komi fram í fimmtu grein að ákvörðun um mögulega breytta landnotkun skuli tekin á grundvelli heildstæðs mats samkvæmt skipulagsáætlun og þeirra sjónarmiða sem fram koma í markmiðum jarðalaga þar sem segir meðal annars að það skuli tryggja eins og kostur er við framkvæmd laganna að land sem er vel fallið til búvöruframleiðslu sé varðveitt til slíkra nota og að fæðuöryggi sé tryggt til framtíðar.

„Ákvæði jarðalaga eru studd með þeim áherslum sem eru í Landsskipulagsstefnu 2024–2038 varðandi verndun á landbúnaðarsvæði sem hentar vel til ræktunar og sveitarstjórn þarf einnig að líta til. Í þriðju málsgrein fimmtu greinar jarðalaga er jafnframt kveðið á um að við gerð aðalskipulags skuli land flokkað með tilliti til ræktunarmöguleika. Skipulagsstofnun ber ábyrgð á framfylgd þessara lagaákvæða,“ segir Ólafur.

Spurður um þá tilhneigingu sem borið hafi á að landbúnaðarjarðir séu keyptar til kolefnisbindingar með skógrækt, segir Ólafur að í aðalskipulagi sé yfirleitt heimiluð ýmiss konar atvinnustarfsemi á landbúnaðarsvæðum önnur en hefðbundinn landbúnaður upp að tilteknu hámarksumfangi. Þá þurfi ekki að breyta aðalskipulagi vegna slíkra áforma.

„Séu áform um umfangsmeiri starfsemi en heimiluð eru á landbúnaðarsvæðum þarf hins vegar að breyta aðalskipulaginu og skilgreina viðeigandi landnotkun á umræddu svæði, til dæmis skógræktar- og landgræðslusvæði. Þær breytingar sem við höfum séð fram til þessa vegna slíkra áforma hafa aðeins tekið til hluta af landsvæði viðkomandi jarðar eða frá nokkrum tugum upp í nokkur hundruð hektara. Enn sem komið er höfum við því ekki dæmi um að heilar jarðir hafi verið færðar úr landbúnaðarnotum en fyrir því eru ekki aðrar takmarkanir en áður segir.“

Sveitarfélög segi til um hvaða nýting er heimil

Spurður um hvort ástæða sé til að óttast samþjöppun eignarhalds á jörðum sem ógn við landbúnaðarlönd, segir Ólafur að burtséð frá eignarhaldi lands sé það því sveitarstjórnar að taka afstöðu til landnýtingar á hverju svæði. Sveitarfélag hafi þar talsvert um að segja hvaða nýting sé heimil, enda fara þær með skipulagsvald og beri ábyrgð á skipulagsgerð. Jafnframt séu ákvæði landbúnaðarstefnu skýr, um verndun landbúnaðarlands.

„Áhrif samþjöppunar á eignarhaldi eru þó umhugsunarverð fyrir margra hluta sakir, sem á ýmsan hátt tengjast skipulagsmálum. 

Svo sem vegna nýtingar lands og auðlinda en einnig í samfélagslegu tilliti.

Ramminn sem settur er utan um þessi mál er nokkuð skýr í jarðalögum og landsskipulagsstefnu. Hins vegar hafa komið upp ýmsar áskoranir á síðustu árum í sveitum landsins sem hafa haft áhrif til skerðingar landbúnaðarsvæða. Í fyrsta lagi er það svo að skiljanlega getur verið talsverður fjárhagslegur ávinningur af því að taka land úr landbúnaðarnotum og ráðstafa því til annars. Dæmi um þetta er uppbygging ferðaþjónustu. Meðan að ekki er fyrir hendi fjárhagslegur hvati af hálfu stjórnvalda til þess að viðhalda eða vernda úrvals landbúnaðarland er skiljanlegt að til greina komi að nýta land með öðrum hætti, til að mynda til þjónustu við ferðamenn,“ segir Ólafur.

Heildstæð landbúnaðarsvæði minnka

Ólafur nefnir einnig að landverð hafi hækkað, mismikið eftir svæðum, en verulega á ákveðnum svæðum landsins. „Þegar kemur að sölu jarða eða kynslóðaskiptum á bújörðum hefur uppskipting lands því aukist verulega á síðustu árum. Afleiðingarnar verða minni jarðir og jafnvel skikar, sem gerir það að verkum að heildstæð svæði til umfangsmikillar ræktunar minnka. Ásókn í búsetu í dreifbýli hefur líka leitt til uppskiptingar lands í vaxandi mæli, meðal annars af þessum sökum.

Í þriðja lagi er jafnframt orðið mikilvægara en var áður að heimildir aðalskipulags séu skýrari þegar kemur að landbúnaðarsvæðum. Í mörgum eldri skipulagsáætlunum, og þess er einnig dæmi í nýrri aðalskipulagsáætlunum, eru ekki skýr ákvæði um við hvaða aðstæður og í hvaða mæli skógrækt sé leyfileg á einstökum landnotkunarreitum landbúnaðarsvæða eða hvaða önnur ráðstöfun sé þar leyfð án breytingar á landnotkun. Gildir þetta bæði fyrir almenna skilmála um landbúnaðarsvæði og fyrir einstaka reiti,“ segir Ólafur.

Hann bendir einnig á að jafnframt hafi uppbyggingarheimildir á landbúnaðarjörðum aukist verulega á síðustu árum, sérstaklega á Suður- og Vesturlandi.

Gögn skortir um raunverulegt umfang ræktanlegs lands

„Loks er vert að geta þess að gögn hefur skort um hver sé raunveruleg útbreiðsla og stærð úrvals landbúnaðarlands. Áætlað hefur verið að gott ræktunarland á Íslandi sé 200–600 þúsund hektarar Þessar tölur eru þó ónákvæmar og þörf er á nákvæmari gögnum til að meta umfang og gæði ræktanlegs lands á landinu. Eitt af framfylgdarverkefnum landsskipulagsstefnu er að kortleggja landbúnaðarland á landsvísu en sú vinna er hafin af hálfu matvælaráðuneytisins og Lands og skóga.

Að mati Skipulagsstofnunar er mikilvægt að nákvæmari mynd fáist á umfang úrvals ræktunarlands og til verði gögn um þróun á stærð þess. Þó það sé ekki á starfssviði Skipulagsstofnunar er það samt ljóst að fjárhagslegur hvati til verndunar og viðhalds úrvals ræktunarlands muni jafnframt sporna við skerðingu á slíku landi.“

Skylt efni: Landsskipulagsmál

Brostnar forsendur búvörusamninga
Fréttir 20. febrúar 2025

Brostnar forsendur búvörusamninga

Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Mjólkursamsölunnar, segir að stórar spurningar v...

Fjárhús fuku á Vattarnesi
Fréttir 20. febrúar 2025

Fjárhús fuku á Vattarnesi

Á Vattarnesi í Fáskrúðsfirði varð mikið tjón á íbúðarhúsi, fjárhúsum, farartækju...

Ólögleg förgun dýrahræja
Fréttir 20. febrúar 2025

Ólögleg förgun dýrahræja

Um 87 prósent dýrahræja fóru til urðunar á árunum 2020 til 2022, samkvæmt tölum ...

Frumvarp vekur furðu
Fréttir 20. febrúar 2025

Frumvarp vekur furðu

Frumvarp sem ætlað er að vinda ofan af breytingum sem gerðar voru á búvörulögum ...

Ostur með viðbættri jurtafitu verði tollfrjáls
Fréttir 20. febrúar 2025

Ostur með viðbættri jurtafitu verði tollfrjáls

Áform eru um breytingu á tollflokkun á mjólkurosti með viðbættri jurtafitu þanni...

Kakó er að verða dýrara en gull
Fréttir 19. febrúar 2025

Kakó er að verða dýrara en gull

Verð á hrávörum á alþjóðamarkaði fer almennt lækkandi. Verð á t.d. kakóbaunum, k...

Neysluverð matvæla hefur hækkað umfram framleiðsluverð matvæla
Fréttir 19. febrúar 2025

Neysluverð matvæla hefur hækkað umfram framleiðsluverð matvæla

Neytendur hafa orðið varir við hækkandi matvælaverð, ekki hvað síst á síðustu þr...

Hjartað slær með náttúruvernd
Fréttir 18. febrúar 2025

Hjartað slær með náttúruvernd

Sigrún Ágústsdóttir er forstjóri nýrrar Náttúruverndarstofnunar sem tók til star...