Riðuveiki í Skagafirði rædd í ríkisstjórn
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun grein fyrir stöðunni sem komin er upp í Skagafirði vegna staðfestrar riðuveiki í Tröllaskagahólfi.
Hinn 22. október síðast liðinn greindist riðuveiki á bænum Stóru- Ökrum 1 og Matvælastofnun hefur undanfarna daga kortlagt frekari útbreiðslu veikinnar.
Reiðarslag að sögn ráðherra
Í frétt á vef Stjórnarráðsins er haft eftir Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: „Þessar fréttir eru mikið reiðarslag. Ég hef undanfarna daga fylgst náið með framvindu þessa máls og ljóst er að tjónið er mikið og tilfinnanlegt. Unnið er að því að átta sig á umfangi riðuveikinnar og er Matvælastofnun nú að kortleggja mögulega útbreiðslu. Ég hef gefið út skýr fyrirmæli til ráðuneytisins og Matvælastofnunar um að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að styðja við bændur á svæðinu í gegnum þetta áfall.“
Sterkur grunar
Matvælastofnun hefur undanfarna daga unnið að sýnatöku á svæðinu. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að sterkur grunur er um að riðuveiki sé til staðar í sauðfé á þremur búum en endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir. Ekki hefur greinst riðuveiki á þessu svæði í Tröllaskagahólfi frá árinu 2000.
Heildarfjöldi gripa sem skera þarf niður liggur ekki fyrir en sterkar vísbendingar eru um að hann verði umtalsverður. Í ljósi þess hefur Matvælastofnun óskað eftir að Umhverfisstofnun liðsinni stofnuninni um lausnir við förgun. Þá liggur fyrir að kostnaður ráðuneytisins vegna málsins mun verða töluverður en ríkið mun greiða bætur og kostnað vegna riðuveikinnar til eigenda búfjár þar sem niðurskurður er nauðsynlegur.