Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Rekstrarkostnaður við framleiðslu landbúnaðarvara árið 2022 hækkar um 8,9 milljarða kr. Til að bregðast við þessu leggur Spretthópur til að ríkið veiti 2,5 milljarða í sérstakan stuðning. Áætlað er að hækkanir á afurðaverði muni skila 3,6 milljörðum í auknar tekjur til landbúnaðarframleiðslu. Eftir standa rúmir 2 milljarðar af óbrúuðum vanda, sem bændur, afurðafyrirtæki, verslunin og neytendur þurfa að horfast í augu við.
Rekstrarkostnaður við framleiðslu landbúnaðarvara árið 2022 hækkar um 8,9 milljarða kr. Til að bregðast við þessu leggur Spretthópur til að ríkið veiti 2,5 milljarða í sérstakan stuðning. Áætlað er að hækkanir á afurðaverði muni skila 3,6 milljörðum í auknar tekjur til landbúnaðarframleiðslu. Eftir standa rúmir 2 milljarðar af óbrúuðum vanda, sem bændur, afurðafyrirtæki, verslunin og neytendur þurfa að horfast í augu við.
Mynd / Odd Stefán
Fréttir 23. júní 2022

Sérstakur stuðningur upp á 2,5 milljarða króna

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Spretthópur matvælaráðherra skilaði af sér skýrslu þann 14. júní sl. sem inniheldur tillögur til sérstaks stuðnings til landbúnaðar upp á tæpa 2,5 milljarða króna til að mæta gífurlegum kostnaðarauka í matvælaframleiðslu.

Samkvæmt skýrslunni hækkar rekstrarkostnaður landbúnaðarins árið 2022 um 8.900 milljónir vegna hækkana á áburði, kjarnfóðri, olíu og rúlluplasti. „Þar af hækkar áburður um 3.000 milljónir, fóður um 4.500 milljónir og olía og plast um 1.400 milljónir. Nú þegar hefur verið komið til móts við hækkun á áburðarkostnaði sem nemur 650 milljónum. Áætlað er jafnframt að hækkanir á afurðaverði, sem þegar eru komnar fram, muni skila um 3.600 milljónum í auknum tekjum á þessu ári. Eftir stendur kostnaðarauki upp á 4.650 milljónir.

Þar að auki er hér ekki horft til þess að flestir aðrir kostnaðarliðir hækka verulega milli ára.“

Heildarkostnaður við þær aðgerðir sem Spretthópurinn leggur til er 2.461 milljón króna en það er 0,07% af áætlaðri landsframleiðslu í ár. Tillagan tónar við þann stuðning sem yfirvöld í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hafa boðað í sínum sértæku aðgerðum en umfangið á árinu 2022 samsvarar frá 0,06– 0,08% af landsframleiðslu landanna.

Tillögur til aðgerða á yfirstandandi ári

Tillögur til aðgerða á þessu ári eru í sex liðum og fela í sér að greitt verði 65% álag á jarðræktarstyrki og landgreiðslur, 50% álag á gæðastýringargreiðslur í sauðfjárrækt, 75% álag á nautakjötsframleiðslu, 20% álag á holdakýr, 12% álag á mjólkurkýr og 30% álag á framlög til geitfjárræktar. Þá verði greitt 25% álag á beingreiðslur C til garðyrkju og 45% álag á jarðræktarstyrki til útiræktaðs grænmetis ásamt því að 45% álag verði greitt á framlag til aðlögunar að lífrænni framleiðslu. Þá verði varið 450 milljónum króna til að mæta að hluta hækkun fóðurverðs hjá svína-, alifugla- og eggjaframleiðendum.

Einnig leggur hópurinn til að stjórnvöld komi á fót vakthópi um fæðuöryggi með aðild lykilráðuneyta og stofnana ásamt helstu hagaðilum, svo sem fulltrúum bænda, neytenda, atvinnulífsins, launamanna o.s.frv. Stjórnvöld eigi að tryggja að fjárheimildir verði til staðar ef grípa verður í samstarfi við innflytjendur áburðar og fóðurs til sérstakra ráðstafana til að tryggja stöðu landsins hvað varðar áburðar- og fóðurstöðu út þetta ár og á hinu næsta.

Það er mat hópsins að mikil þörf sé fyrir endurskipulagningu og hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu og eru í því fólgnir umtalsverðir hagsmunir bæði neytenda og bænda. Hópurinn leggur því til að veitt verði tímabundin heimild í lögum, t.d. til fjögurra ára, fyrir sláturleyfishafa og frumvinnslu afurðastöðva í kjötvinnslu til samstarfs um sameiningu eininga, samninga sín í millum og verka- skiptingu. „Samtökum fyrirtækja í þessum geira verði gert að skila til stjórnvalda fyrir haustið áætlun um hvernig þau hyggist nýta slíkar samstarfs- og hagræðingar heimildir og áætlaðan langtímaávinning neytenda og bænda,“ segir í skýrslunni.

Í skýrslunni má sjá verðþróun landbúnaðarvara á neytendamarkaði sl. ár. Það endurspeglar hins vegar ekki misjafna hækkun rekstrarkostnaðar einstakra greina. Verð eggja hefur hækkað mest en verð á mjólk og fuglakjöti hefur einnig hækkað talsvert meira en sem nemur hækkun almenns matvöruverðs, sem var 6,2% hér á landi. Verð lamba- og svínakjöts hækkaði í samræmi við almennt verðlag síðastliðna tólf mánuði en nautakjöt litlu minna. Grænmeti hefur nær ekkert hækkað í verði á tímabilinu.

Tillögur til lengri tíma

Auk tillagna til aðgerða á yfir- standandi ári leggur hópurinn áherslu á átta atriði sem huga þurfi að til lengri tíma. Þar er meðal annars lagt til að gerðar verði reglulegar úttektir í því skyni að tryggja að nægar birgðir séu til í landinu og skilgreina lágmarksbirgðir af matvælum og aðföngum til matvælaframleiðslu.

Þá sé æskilegt að stjórnvöld, í samstarfi við garðyrkjuna, innleiði fullnægjandi hvata til að skapa vaxtarumhverfi í græn- metisframleiðslu því þar séu augljósir möguleikar. Þá skuli settur stóraukinn kraftur í að efla innlenda kornrækt til manneldis, fóðrunar og fóðurgerðar.

„Ríkið bjóði fram stuðning til fjárfestinga í nauðsynlegum innviðum svo sem til svæðisbundinna söfnunar- og kornþurrkunarstöðva, stuðli að því að einhvers konar áhættudreifingar- eða tryggingakerfi gegn uppskerubresti komist á fót og tryggi nægan stuðning við ræktun á hvern hektara til þess að fleiri sjái sér fært að hefja kornrækt og eigi möguleika á markaðsfærslu framleiðslunnar“, segir í skýrslunni.

Markvisst verði unnið að því að gera landið minna háð innfluttum áburði, með því að greiða fyrir áformum um innlenda áburðarframleiðslu sem og að framleiðsluaðferðir sem notast ekki við tilbúinn áburð, s.s. lífræn ræktun, njóti ríkulegs stuðnings.

Fjárfesta þurfi í grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum í jarðrækt. Þá þurfi að samþætta aðgerðir á sviði loftslagsmála og í þágu
fæðuöryggis með markvissum hætti þannig að unnið sé að báðum markmiðum samhliða. Einnig er snert á skipulagsmálum. „Möguleikar til matvælaframleiðslu og mikilvægi matvælavinnslu þurfa að hafa forgang þegar línur eru lagðar um landnýtingu og staðarval fyrir atvinnustarfsemi.“

Loks er lagt til að unnin verði fæðuöryggisáætlun fyrir Ísland.

Vörslusviptu fé slátrað og kúabændur sviptir leyfi
Fréttir 10. janúar 2025

Vörslusviptu fé slátrað og kúabændur sviptir leyfi

Matvælastofnun hefur lagt stjórnvaldsákvarðanir á umráðamenn dýra undanfarna tvo...

Minnkun í sölu dráttarvéla milli ára
Fréttir 9. janúar 2025

Minnkun í sölu dráttarvéla milli ára

Á vef Samgöngustofu má sjá að 127 nýjar dísilknúnar dráttarvélar voru nýskráðar ...

Kostir og gallar við erlent kúakyn
Fréttir 9. janúar 2025

Kostir og gallar við erlent kúakyn

Á mánudaginn var haldinn fjarfundur um kosti og galla þess að flytja inn erlent ...

Ekki til setunnar boðið að hrinda verkefnum í framkvæmd
Fréttir 9. janúar 2025

Ekki til setunnar boðið að hrinda verkefnum í framkvæmd

Nýr ráðherra landbúnaðarmála er Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar í...

Svínabændur fá frest til aðlögunar
Fréttir 9. janúar 2025

Svínabændur fá frest til aðlögunar

Svínabændum hefur verið gefinn lengri frestur til aðlögunar að tilteknum skilyrð...

Barbora hlaut umhverfisverðlaun
Fréttir 8. janúar 2025

Barbora hlaut umhverfisverðlaun

Barbora Fialová hlaut umhverfisverðlaun Bláskógabyggðar 2024.

Borið níu kálfum í sex burðum
Fréttir 8. janúar 2025

Borið níu kálfum í sex burðum

Kýrin Þruma á bænum Björgum í Köldukinn í Þingeyjarsveit er ansi mögnuð, en hún ...

Færri útflutt hross
Fréttir 7. janúar 2025

Færri útflutt hross

Útflutningur íslenskra hrossa árið 2024 verður minni en í fyrra.