Ávinningur allra
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Fyrsti maðurinn sem talinn er hafa búið til plast var Alexander Parkes sem kynnti þá uppfinningu sína á Alþjóðasýningunni miklu í London árið 1862. Kallaði hann efnið arkesin sem var í grunninn lífrænt efni sem búið var til úr sellulósa. Það var hægt að móta með hita, en hélt síðan lögun sinni þegar það var kælt.
Með tilkomu þessa sellulósa upphófst mikil bylting og í kringum hann spratt upp alls konar iðnaður. Fram kom nítrósellulósi sem hægt var að nota í örþunnar filmur fyrir ljósmyndun í stað níðþungra glerplatna.
Úr þessu voru líka búnar til billjardkúlur og upp úr árinu 1900 komu fram kvikmyndafilmur úr kamfór og nítróselullósa og margt fleira. Nítrósellulósinn hafði þó þann ókost að vera afskaplega eldfimur. Ótölulegur fjöldi kvikmyndahúsa brann til ösku og fjölmörg slys urðu á billjardstofum þegar kúlurnar sprungu.
Upp úr frumgerðinni á plasti spruttu líka ótal uppfinningar og plastið varð æ betra og fjölbreyttara og efnafræðilega flóknara og fjær sínum lífræna uppruna.
Fyrsta eiginlega plastefnið sem sagt er hafa leitt til þeirrar byltingar sem við þekkjum í dag var uppfinning Leo Hnedrik Baekeland sem kynnt var 1909 og kallaði hann það einfaldlega Bakelite. Það var það sem nefnt er Phenol-Formaldehyde plast. Eftir þetta fór plastboltinn að rúlla hraðar og hraðar og olli straumhvörfum í heilbrigðisþjónustu, heimilishaldi og öllum mögulegum iðnaði.
Það er samt ekki fyrr en á allra síðustu árum sem heimsbyggðin hefur verið að vakna af sínum sæludraumi um plastið. Efnið sem skapað hefur mörgum mikil þægindi og hefur leitt til mikillar velmegunar víða um lönd er allt í einu orðið að martröð sem felur í sér dauða í lífríkinu hvert sem litið er. Enginn staður á jarðríki er nú lengur óhultur fyrir mengun af plasti og plastögnum. Fuglar, spendýr og fleiri lífverur gætu sumar hverjar verið að horfa fram á útrýmingu verði ekkert að gert. Þetta er ekki einhver kaldhæðin heimsendaspá, heldur fúlasta alvara.
Lífríki jarðar á það nú undir þeim sem leiða þjóðir heims, að brugðist verði við vandanum. Það þarf að setja stóraukinn kraft í hreinsun heimshafanna sem litið hefur verið á sem óseðjandi sorpkvarnir. Það er t.d. hægt að umbreyta öllu plastruslinu í orku. Við þurfum þó ekki að bíða eftir að leiðtogum heimsins detti í hug að fara að stefna heimsskútunni í rétta átt. Við getum nefnilega hvert og eitt okkar lagt helling til þessara mála.
Þegar kemur að íslenskum landbúnaði eru áskoranirnar og tækifærin gríðarleg. Hugsa þarf upp á nýtt alla þá plastnotkun sem þar viðgengst. Úrvinnslufyrirtæki í matvælavinnslu geta líka lagt þar þung lóð á vogarskálarnar.
Strax þarf að hefjast handa við að setja fjármuni í að virkja hugvit sem leysir af notkun á plastumbúðum utan um jógúrt, skyr, smjör í ýmsu formi, kjötvörur, drykkjarföng, grænmeti og hvað eina sem framleitt er í landbúnaði.
Í mjög mörgum tilfellum eru lausnirnar þegar fyrir hendi, meðal annars með notkun á pappa, pappír, hampi og fleiri lífrænum efnum þar sem landbúnaðurinn getur auk þess framleitt öll nauðsynlegt hráefni.
Gagnsætt lífrænt umbúðaefni úr þörungum hefur þegar litið dagsins ljós sem meira að segja er hægt að borða. Það er ekki spurning um hvort lausnirnar kunni að vera aðeins dýrari en plastið, við höfum einfaldlega ekkert val lengur. Þeir sem verða fyrstir til að stökkva á þennan vagn munu án efa uppskera mikla velvild. Slík vegferð felur líka í sér ávinning fyrir alla jarðarbúa.