Íslendingar – vaknið, náttúran og orkupakki 3 eru andstæður!
Ég hef verið jákvæður fyrir því að kanna með aðild að Evrópusambandinu, að því tilskildu að við misstum ekki yfirráð yfir fiskimiðunum né öðrum náttúruauðlindum landsins. Náttúru Íslands eigum við sjálf að njóta, ósnortinnar, og selja ferðamönnum hana eins og gert er í dag.
Íslendingar framleiða 0,57% þeirrar raforku sem framleidd er í Evrópu. Ef sæstrengur kæmi og við virkjuðum t.d. 200% meira en við höfum nú þegar gert færum við upp í 1,5% hlutfall. Þá myndi fjöldi fossa hverfa og landið yrði stórskemmt til frambúðar. Þrátt fyrir þetta gætum við ekki bjargað heiminum. Að gefa stjórnmálamönnum möguleika á stórfelldum virkjunum í framtíðinni, það vil ég ekki – ég treysti þeim ekki! Nýja stjórnarskráin þarf að koma strax, því hún stendur vörð um hagsmuni almennings og náttúru landsins!
Í dag hefur mannkynið minna en 10 ár til að snúa af þeirri sóunarbraut sem það er á í dag varðandi hlýnun jarðar og súrnun sjávar. Við þurfum virkilega að hægja á, áður en það er orðið um seinan – það er ekki annað tækifæri!
Þegar ég var í Danmörku fyrir 50 árum voru umhverfismál mjög á döfinni, svo ég hugsaði þegar ég kom aftur til Íslands að bíllinn sem ég keypti þá yrði minn síðasti bíll. Í Danmörku var mikið rætt um að ekki væri framtíð í því að allir eignuðust eigin ísskáp og eigin bifreið því mengunin sem af þessu stafaði væri svo mikil að heimurinn þyldi það ekki.
Þegar ég kom heim til Íslands gleymdi ég þessu öllu, fór í lífsgæðakapphlaupið eins og aðrir og hef síðan flotið með þeim að feigðarósi!
Orkupakki 1–2 gekk út á að aðskilja framleiðslu og flutning raforku á Íslandi og koma á samkeppni.
Sjónarmið starfsmanna Landsvirkjunar voru mismunandi. Margir sáu tækifæri í honum.
Einn vinnufélagi minn sagði að „við Íslendingar hefðum möguleika á því að sækja um undanþágu vegna smæðar raforkumarkaðarins hér, þar sem á honum myndaðist aldrei samkeppni, hann væri svo lítill“. Hann sagði einnig þegar rætt var um sæstreng, „þó við legðum alla orkuna frá Kárahnjúkavirkjun í púkkið til Evrópu, þá hjálpaði það þeim aðeins til að fresta byggingu kjarnorkuvers um ½ mánuð“. Auk þess taldi hann sæstreng til Íslands og viðhald hans illframkvæmanlegt. Aðrir töldu að skipta Landsvirkjun og gera tvö fyrirtæki úr einu, myndi auka yfirbyggingu og hækka rekstrarkostnað.
Starfsmennirnir höfðu allir rétt fyrir sér
Þeir sem höfðu haldið því fram að í breytingunum væru tækifæri, fengu stöður hjá nýja fyrirtækinu. Sá sem hélt því fram að raforkumarkaðurinn væri of lítill til að hér myndaðist samkeppni á raforkumarkaði og að raforkan héðan gæti ekki bjargað Evrópu, hann fékk starfslok langt um aldur fram. En hann talaði manna réttast, því raunveruleg samkeppni á orkumarkaði hefur varla orðið enn.
Þótt þeir stjórnmálamenn sem standa með þessum pökkum kalli það „frjálsa samkeppni“,þá hafa aðeins um 300 raforkukaupendur af 145.000 skipt um orkusala! Sá sem talaði um meiri yfirbyggingu og minni arð, var vitni að minna viðhaldi og hækkun flutningskostnaðar eftir breytinguna.
Markaðsstofa Landsvirkjunarog iðnaðarráðuneytisins, eins og hún hét þá
Einu sinni gekk ég yfir Fimmvörðuháls með starfsmannafélagi Landsvirkjunar. Þegar við stóðum við varðeldinn um kvöldið hitti ég mann sem vann hjá markaðsstofunni. Hann hóf umræðuna á þennan hátt: „Skógarfoss, hann þarf virkja, það er ótækt að hann renni svona óbeislaður til sjávar.“
Ég svaraði „ég held ekki“. Þá barst talið að Kárahnjúkavirkjun sem baráttan stóð um, og ég sagði „það fáið þið aldrei!“ Eftir á sá ég eftir því, mér fannst orð mín virka á hann, eins og þegar naut er egnt. Ég frétti síðar að þessi sami maður hefði notað óhefðbundnar aðferðir í vinnu sinni á markaðsstofu Landsvirkjunar í sambandi við aðaltilboð virkjunarinnar og framgangi þess!
Orkupakki 3, langstærsti draumur (LSD) þeirra sem vilja rústa landinu
Ég, sem er andvígur orkupökkum 3 og 4, var á Austurvelli um daginn með skoðanabræðrum mínum. Þar hitti ég konu sem var gráti næst því að hún taldi að pökkunum fylgdi að tekinn yrði hluti af vatni Dettifoss og fleiri stórfljóta Íslands.
Þá rifjast upp fyrir mér að þegar verið var að byggja Kárahnjúkavirkjun og kom í ljós að jarðgöngin frá Hálslóni til Fljótsdalsstöðvar voru mikið víðari en þurfti fyrir virkjunina. Þegar leitað var skýringa, fengust þau svör að þetta væri gert svo flytja mætti meira vatn um jarðgöngin frá Jökulsá á Fjöllum ef til virkjunar hennar kæmi. Einnig voru línurnar, Fljótsdalslína 1 og Fljótsdalslína 2, hafðar 440kV (í stað 220kV sem hefði nægt fyrir álverið á Reyðarfirði) sem geta flutt um 2000 MW hvor um sig. Ég spurðist fyrir um þetta hjá hönnuðum línunnar, og mér var sagt að þetta væri gert til þess að flytja mætti rafmagn fyrir sæstreng (ef til hans kæmi), því leiðin um Þórudal væri eina leiðin til sjávar á þessu svæði frá flutningskerfinu tengivirki Fljótsdalsstöðvar!
Einnig hef ég furðað mig á því, hvers vegna Landsnet kallar eftir nýrri línu milli Kröflu og Fljótsdals, til viðbótar við gömlu línuna sem nú er aðeins 25 % lestuð þegar mest er. Var ekki talað nýlega um djúpboranir við Kröflu til útflutnings?
Ég tel að kubbarnir séu farnir að raðast vel saman í umræðunni og spyr því náttúruverndarfólk og samtök þeirra í landinu:
Er þetta það sem þið viljið?
Örn Þorvaldsson, umhverfisverndarsinni, rafiðnaðarmaður og fyrrverandi starfsmaður Landsvirkjunar
og Landsnets.