Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Gunnnarsstaðir í Þistilfirði.
Gunnnarsstaðir í Þistilfirði.
Mynd / HKr.
Lesendarýni 27. apríl 2020

Er Ísland til sölu?

Höfundur: Jóhannes Sigfússon

Í Bændablaðinu 19. mars sl. gaf að líta grein eftir Gísla Ásgeirsson undir heitinu „Um viðskipti með bújarðir“. Af lestri greinarinnar má glöggt ráða að höfundi hugnast lítt tilburðir þar til bærra stjórnvalda til að reisa einhverjar skorður við uppkaupum og uppsöfnun auðmanna, jafnt innlendra sem erlendra, á íslensku landi.

Jóhannes Sigfússon.

Slíkt þarf í raun ekki að koma á óvart þar sem Gísli hefur verið helsti forgöngumaður breska auðmannsins Jim Ratcliffe við kaup á tugum hlunnindajarða hér á Norðausturlandi. Hitt fannst mér öllu dapurlegra að hann skuli telja stjórn Bændasamtaka Íslands einn sinn helsta skoðanabróður í þessum efnum, og heldur eymdarleg rós í hnappagat  þeirrar stjórnar, sem í heilu lagi mátti taka pokann sinn á síðasta Búnaðarþingi.

Sem sagt, engar hömlur megi setja sem  afmarkað geti kaupendahópinn. Það geti í einhverjum tilfellum minkað verðmæti  jarða og veðhæfni.

En hver er þá staða hinna sem ekki hafa viljað selja sínar hlunnindajarðir og eru komnir í gíslingu og algjörlega undir hælinn á þessu erlenda auðvaldi? Er ekki búið að verðfella þeirra jarðir? Er þess langt að bíða að einhverjir þeirra gefist upp og hrökklist frá? Hefur stjórn BÍ tekið upp hanskann fyrir þá?

Það hefur hins vegar núverandi landbúnaðarráðherra gert með tillögu að breytingum á Lax- og silungsveiðilögum og tek ég ofan fyrir Kristjáni Þór fyrir það. Einnig tek ég ofan fyrir forsætisráðherra, sem gengið hefur fram fyrir skjöldu í því að koma einhverjum böndum á þessi mál.

Að selja frumburðarréttinn fyrir baunadisk

En grundvallarspurningin hér snýst ekki um einstakar jarðir. Hún snýst um það hvort Ísland sé yfir höfuð til sölu til útlendinga. Hvort mönnum finnist bara allt í lagi að erlendir auðmenn geti sölsað undir sig heilu landsvæðin, einhver ósnortnustu og víðfeðmustu öræfi landsins, fallréttinn í ánum ásamt óþrjótandi ferskvatnsauðlindum að ógleymdri laxveiðiauðlindinni sem hefur verið ein traustasta tekjustoð og lífæð byggðarinnar hér á norðausturhorninu.

Við þá sem telja þetta bara allt í besta lagi vil ég segja. Eigum við þá ekki bara að gera þetta með stæl? Gera þetta eins og alvöru menn og selja alla orkuauðlindina eða alla  fiskveiðiauðlindina á einu bretti? Ætli Evrópusambandið, eða jafnvel Rússar, vildu ekki borga dágóða summu? Þjóðin þyrfti ekkert að vinna, jafnvel í einhverja áratugi. Allir gætu bara legið á meltunni og haft það gott.

Við skulum ekkert vera að velta okkur upp úr því hvað svo tæki við. Þegar veislunni lýkur verðum við flest komin undir græna torfu,  kannski í erlendri eigu, þ.e.a.s. torfan yfir okkur, en hvað með það.

Markmiðið með öllum  þessum jarðakaupum er  að sögn Gísla að vernda Atlantshafslaxinn og stöðva hnignun hans. En vernda hann fyrir hverju? Vernda hann fyrir bændunum? Vernda hann fyrir eignarhaldi allra annarra en þeirra sjálfra á hlunnindajörðunum? Hér í Veiðifélagi Hafralónsár, þar sem hvað harðast hefur verið gengið fram í að ná undir sig eignarhaldi á jörðum að undanförnu  og þ.m. atkvæðisrétti í Veiðifélaginu, hafa þessi verndunaráform ekkert verið kynnt þeim sem ennþá lafa þó á sinum eignum. Ekkert verið leitað álits þeirra eða skoðana. Það eina sem við vitum eru fréttir af einhverjum halelújakynningum á blaðamannafundum sem hinir sjálfskipuðu verndarar laxins boða til sjálfir.

Síðan er stefnan að byggja upp lúxusaðstöðu fyrir hundruð milljóna við hverja á. Er það í þágu friðunar?

Ég ætla ekki að halda því fram  að Gísli og félagar hafi ekki vilja og getu til að gera góða hluti varðandi verndun Atlantshafslaxins, en hvers vegna er ekki byrjað á því að leita eftir samstarfi og  sátt við nærumhverfi ánna? Ekki hefur staðið á bændum hér hingað til að grípa til þeirra ræktunar- og verndunaraðgerða sem mælt hefur verið með af kunnáttumönnum, enda þarf almennt ekki utanaðkomandi auðmenn til að fræða þá sem búskap stunda um mikilvægi bústofnsins.

Ég tel augljóst mál að þessar flugeldasýningar um verndun laxins séu ekki síður til að afvegaleiða umræðuna um samþjöppun eignarhalds á hlunnindajörðum og landi, og kaupa sér jákvæðari ímynd. En fyrst og síðast tel ég tilganginn vera að ná undir sig eignarhaldi og umráðum yfir auðlind sem til framtíðar séð getur verið verðmætari en nokkurn órar fyrir í dag.

Landbúnaðarhagfræði Gísla

Grátbroslegar finnast mér vanga­veltur Gísla um hagsmuni bænda og hvað það sé nú góður kostur að selja jörðina sína og gerast leiguliði, hafandi selt frá sér öruggasta árvissa tekjuliðinn og allan veðrétt til uppbyggingar. Og þó Gísli segi þá jákvæða fyrir áframhaldandi landbúnaði á þeirra jörðum getur hann enga tryggingu gefið fyrir því til framtíðar. Enginn getur sagt með vissu hvernig eignarhaldi verður háttað, jafnvel eftir tíu ár, það sýna best nýleg dæmi. Enginn er eilífur. Enginn getur tryggt hvaða viðhorf nýir eigendur munu hafa til  landbúnaðar og búsetu á tugum jarða hér á svæðinu.

Í full sextíu ár man ég eftir mér starfandi við landbúnað hér. Lengi í forsvari fyrir sveitarfélagið mitt og í margs konar félagsmálavafstri fyrir bændur samhliða búskapnum. Ýmsar plágur hefur þurft að fást við, s.s. hafísvetur, stórfellt kal í túnum og erfið haustáfelli. Á öllu slíku hafa menn sigrast og risið upp aftur sterkari en áður. Þessa síðustu plágu, ásælni erlends auðjöfurs í tugi hlunnindajarða undir handleiðslu Gísla, tel ég vera þá hættulegustu fyrir landbúnaðinn til lengri tíma litið. Hún mun ekki víkja fyrir hækkandi sól og hagstæðari tíð. Hún sundrar samstöðu manna og  er komin til að vera.

Er aukefnunum ofaukið?
Lesendarýni 30. desember 2024

Er aukefnunum ofaukið?

Ég (Anna María) bjó lengi í Danmörku, en eftir að hafa flutt til Íslands fór ég ...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2024

Við áramót

Við áramót er gott tilefni til að hyggja að þeim atriðum sem hæst ber í blóðnytj...

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu
Lesendarýni 27. desember 2024

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu

Hér á bæ fæddist svartflekkóttur lambhrútur 14. maí 2021, fremur smár tvílembing...

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...