Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Rangfærslur um meintar rangfærslur leiðréttar
Mynd / Bbl
Lesendarýni 25. október 2019

Rangfærslur um meintar rangfærslur leiðréttar

Höfundur: Þórólfur Matthíasson
Fyrrverandi landbúnaðarráð­herra kastaði fram áhugaverðri spurningu:  „Hver er munurinn á kolefnisfótspori íslensks lambakjöts og lambakjöts innfluttu frá Nýja Sjálandi?“, sjá Fréttablaðið 29. ágúst 2019.  Spurningunni var að formi til beint til umhverfisráðuneytisins.  En af samhengi og síðari skrifum mátti ráða að ráðherrann fyrrverandi ætlaðist ekki til að fá tölulegt svar. 
 
Þórólfur Matthíasson. 
Líklega hefur hann ætlast til að almenningur drægi þá ályktun, án gagna, að nýsjálenskt lambakjöt væri kolsótugt vegna flutningsfjarlægðar.  Ráðherrann fyrrverandi hefði betur kannað sótspor flutninga áður en hann lagði í þessa vegferð: Flutningur hvers kílós af varningi frá Eyjaálfu til Evrópu losar aðeins 4 kíló af CO2-ígildum.
 
Þegar ekkert tölulegt svar barst við spurningu landbúnaðarráðherrans fyrrverandi fór ég að afla upp­lýsinga um sótspor vegna fram­leiðslu íslensks og nýsjálensks lambakjöts. Samkvæmt nýlegri skýrslu Environice (Environice, 2017) hefur framleiðsla hvers kílós af lambakjöti á Íslandi í för með sér losun 28,6 kg CO2-ígilda. Forstjóri Environice benti mér á að finna mætti upplýsingar um sótspor í matvælaframleiðslu í hinum ýmsu löndum heims í yfirlitsgrein í tímaritinu Journal of Cleaner Production (Clune, Crossin, & Verghese, 2017). Í greininni eru dregnar saman upplýsingar úr 369 rannsóknum sem birtar hafa verið opinberlega.  Reynt er að gefa yfirlit yfir niðurstöður varðandi sótspor ferskra matvæla: grænmetis, ávaxta, kjötmetis, eggja og mjólkur svo dæmi séu tekin.
 
Í töflu 8 á bls. 775 í grein Clune og félaga er yfirlit yfir niðurstöður er tengjast sótspori jórturdýrakjötframleiðslu.  Þeir finna 19 gildi úr 9 birtum rannsóknum á sótspori lambakjötsframleiðslu í Eyjaálfu. Ein þeirra rannsókna er rannsókn Legarde og félaga (Legard, Lieffering, McDevitt, Boyes, & Kemp, 2010). Meðaltalsgildið er 19,01 kíló af CO2-ígildum á hvert kíló lambakjöts. Miðgildið, sem Clune og félagar nota í textanum í grein sinni er lægra, 17,63 kíló af CO2-ígildum á hvert kíló beinlauss lambakjöts.
 
Hér er kominn efniviður í svar við spurningu landbúnaðarráðherrans fyrrverandi.  Sótspor lambakjöts frá Nýja-Sjálandi komið til Íslands er á bilinu 21,5 til 23 kíló á hvert beinlaust kjötkíló. Má bera saman við 28,6 kíló CO2-ígilda á hvert kíló (með beini) á Íslandi.  Gerð var grein fyrir þessum niðurstöðum í Fréttablaðinu 26. september sl. (https://www.visir.is/g/2019190929195/af-kolefnisfotspori-saudfjarraektar-a-islandi-). Reynt var að hafa samanburðinn sem hagstæðastan íslenska kjötinu, þannig var í greininni sótspor nýsjálenska kjötsins miðað við meðaltalsgildið úr grein Clune og félaga (19 kg sótspor) og ekki miðgildið sem þó hefði mátt telja eðlilegra (17,63 kg sótspor). Þá var heldur ekki tekið tillit til kolefnislosunar vegna fóðrunar íslensks sauðfjár á afrétti [gæti réttlætt aukningu íslenska sótsporsins um 10 til 20%, sbr. skýrslu Jóns Guðmundssonar (Guðmundsson, 2016)]. Þá var ekki tekið tillit til þess að Environice hafði miðað sótsporsútreikninga sína við heildarfallþunga (kjöt og bein) en ekki við beinlaust kjöt.  Samkvæmt töflu 1 í grein Clune og félaga ætti að hækka CO2-ígildalosunar-töluna fyrir Ísland um 1/0,66 eða 51,5% til að taka tillit til þessa þáttar.  Sé tekið tillit til þessara tveggja atriða væri réttara að segja að sótspor íslenska lambakjötsins við afurðastöðvarvegg sé 47,5-52 kg CO2-ígilda á hvert kíló beinlauss kjöts.
 
Til samanburðar er sótspor Ný Sjálenska kjötsins 17,6-19,1 kg án flutnings til Evrópu og 21,5-23 kíló með flutningnum.  Með öðrum orðum þá er sótspor íslensks lambakjöts meira en tvöfalt meira en sótspor ný sjálensks lambakjöts.  Þess má einnig geta að sótspor íslenska lambakjötsins samkvæmt endurskoðuðum útreikningum er nálægt hæsta gildi sem Clune og félagar finna nokkurs staðar í heiminum, sbr. töflu 8 í áður tilvitnaðri skýrslu.  Annars er sótspor lambakjötsframleiðslu í Evrópusambandinu (32,7 CO2-ígildi/kg) hærra en sótspor lambakjötsframleiðslu í Stóra Bretlandi (25,6 CO2-ígildi/kg).  Til samanburðar má nefna að sótspor fyrir þorsk á heimsvísu er 3,5 CO2-ígildi/kg samkvæmt Clune og félögum.  Samkvæmt íslensku rannsóknunum sem þeir vísa til var sótspor línuveiða við Ísland 1,58 CO2-ígildi/kg og 5,14 CO2-ígildi/kg í togveiðum.  Lambakjötsmáltíð fylgir því 10 til 25 falt sótspor samanborið við þorskmáltíð!  Sótspor kjúklinga og svínakjöts (á heimsvísu) er síðan á bilinu 3-6 CO2-ígildi á hvert kíló beinlauss kjöts.   Kjöt af jórturdýrum er „sótugasta“ kjöt sem hægt er að leggja sér til munns.
 
Málsvörn Landssamtaka sauðfjárbænda
 
Framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda skrifar grein í Bændablaðið 10. október sl.  (Rangar ályktanir prófessors um kolefnislosun íslenkrar sauðfjárræktar).  Greinarhöfundur virðist hafa haft að leiðarljósi við skrifin að betra sé fyrir hagsmunagæslumenn að veifa röngu tré en öngvu.  Greinarhöfundur telur að tölur fyrir Ísland og Nýja-Sjáland (Eyjaálfu) séu ekki sambærilegar.  Hann bendir m.a. á að erlendu gögnin séu miðuð við beinlaust kjöt en íslenska talan miði við skrokka með beinum. Honum láist hins vegar að gera grein fyrir því að þessi „yfirsjón“ verði til þess að vanmeta sótspor íslenska lambakjötsins um þriðjung! Greinarhöfundur bendir á að áætlun um losun CO2 frá sauðfjárrækt á Íslandi sé  byggð á líkanaútreikningum en ekki raun­tölum.  Þar með séu íslensku tölurnar ekki sambærilegar við þær erlendu. Þetta er ekki rétt.  Allar erlendu tölurnar byggja á líkanaútreikningum vegna þess að það er ekki nein önnur aðferð í boði við að reikna út sótspor í dýrahaldi!  Þá telur framkvæmdastjórinn að upplýsingar um sótspor nýsjálensku lambakjötsframleiðslunnar sé komin úr ranni nýsjálensku bændasamtakanna. Síðan upphefst mikil barátta við þá fuglahræðu, þar sem m.a. er sett fram sú fullyrðing að ekkert sé að marka niðurstöður úr skýrslu sem unnin er fyrir Ný-sjálensk bændasamtök þar sem þær niðurstöður séu litaðar af hagsmunum skýrslubeiðanda!  (Minntist einhver á bjálka, flís og auga?)  En skýrsla Legard og félaga (Legard, Lieffering, McDevitt, Boyes, & Kemp, 2010) er aðeins ein af níu skýrslum sem Clune og félagar byggja sínar niðurstöður á.  Clune og félagar leggja mikla vinnu í að samræma upplýsingar úr þeim níu skýrslum sem nota til að meta CO2-ígilda losun í nýsjálenskum landbúnaði. Þar á meðal leiðrétta þeir alla útreikninga þannig að CO2-ígilda talning hættir við vegg afurðastöðvar. Tölurnar sem birtar eru í Fréttablaðsgreininni eru teknar frá Cluen og félögum, ekki frá Legard og félögum.  Allt tal um skringilega stuðla og annan ósambærileika fellur því um sjálft sig. Reyndar vekur athygli að framkvæmdastjórinn gerir ekki minnstu tilraun til að setja fram tölulegan samanburð á sótspori íslenskrar lambakjötsframleiðslu annars vegar og nýsjálenskrar hins vegar. Líklega veit hann fyrirfram að sá samanburður er óhagstæður umbjóðendum hans. Þess vegna kýs hann að veifa röngu tré. Trúverðugleiki hans hefði þó verið styrkari hefði hann öngvu tré veifað. En það verður hann að eiga við sjálfan sig. Undirritaður er hins vegar sekur um að hafa vanmetið sótspor íslenskrar lambakjötsframleiðslu stórlega. Á því er rétt að biðjast afsökunar.
 
Niðurstaða
 
Þegar tekið er tillit til afréttarbeitar og leiðrétt fyrir beinamálið þá kemur í ljós að sótspor íslenskrar lambakjötsframleiðslu er nálægt 50 kílóum af CO2-ígildum á kíló af beinlausu lambakjöti. Sótspor nýsjálensks lambakjöts, komið til Íslands, er undir 25 kílóum af CO2-ígildum á hvert kíló beinlauss bita.
 
Þórólfur Matthíasson
 
Tilvitnanir
Clune, S., Crossin, E., & Verghese, K. (2017). Systematic review of greenhouse gas emissions for different fresh food categories. Journal of Clener Production, 766-783.
Environice. (2017). Losun gróðurhúsalofttegunda frá sauðfjárbúum á Íslandi og aðgerðir til að draga úr losun. Reykjavík: Environice.
Guðmundsson, J. (2016). Greining á losun gróðurhúsa­lofttegunda frá íslenskum landbúnaði. Landbúnaðar­háskóli Íslands. Hvanneyri: Landbúnaðarháskóli Íslands.
Legard, S., Lieffering, M., McDevitt, J., Boyes, M., & Kemp, R. (2010). A Greenhouse Gas Footprint Study for Exported New Zealand Lamb (Report prepared for the Meat Industry Association, Ballance Agri Nutrients, Landcorp and MAF). Hamilton, New Zealand: Agresearch.
Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi
Lesendarýni 11. nóvember 2024

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi

Landbúnaður hefur löngum verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Norðausturkjörd...

Hnignun ESB
Lesendarýni 8. nóvember 2024

Hnignun ESB

„Evrópusambandið líkist Sovétríkjunum í vestrænum fötum“, á Mikhail Gorbasjov að...

Gróska eða stöðnun?
Lesendarýni 7. nóvember 2024

Gróska eða stöðnun?

Árið 2018 vann KPMG skýrslu fyrir þáverandi landbúnaðar­ráðherra þar sem sviðsmy...

Þjóðarátak í samgöngumálum
Lesendarýni 6. nóvember 2024

Þjóðarátak í samgöngumálum

Íslenskt samfélag stendur á tímamótum þegar kemur að samgöngumálum. Vegakerfi la...

Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar
Lesendarýni 5. nóvember 2024

Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar

Íslendingar eru og hafa ætíð verið landbúnaðarþjóð. Ræktun lands og nytjar hafa ...

Kvenfélagið Freyja 90 ára
Lesendarýni 1. nóvember 2024

Kvenfélagið Freyja 90 ára

Það var í júní árið 1934 sem nokkrar konur komu saman að Krossi í Austur-Landeyj...

Leitum samstarfsaðila fyrir landsbyggðarverkefni
Lesendarýni 31. október 2024

Leitum samstarfsaðila fyrir landsbyggðarverkefni

Landsbyggðin lifi leitar eftir samstarfi við framfarafélög, þorp, bæjarfélög eða...

Sjónum beint að fiskauganu
12. nóvember 2024

Sjónum beint að fiskauganu

Ný Hrútaskrá og hrútafundir
12. nóvember 2024

Ný Hrútaskrá og hrútafundir

Matur handa öllum
12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Litafjölbreytni og æði skrautleg litaheiti
12. nóvember 2024

Litafjölbreytni og æði skrautleg litaheiti

Gras fyrir menn
12. nóvember 2024

Gras fyrir menn