Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Ég tel að raunar sé rétt að stefna að því að allur íslenskur landbúnaður sé lífrænn – að því gefnu að vottunin sé byggð á gagnreyndum vísindum.
Ég tel að raunar sé rétt að stefna að því að allur íslenskur landbúnaður sé lífrænn – að því gefnu að vottunin sé byggð á gagnreyndum vísindum.
Lesendarýni 20. nóvember 2019

Þurfum nýja græna byltingu

Höfundur: Kári Gautason
Ísland hefur sett sér það takmark að verða kolefnishlutlaust árið 2040. Því eru 20 ár til stefnu að laga landbúnaðinn að þessu markmiði. Það er ljóst að ríkur pólitískur vilji er fyrir því að styrkja landbúnað á Íslandi og ríkur vilji bænda til þess að láta ekki sitt eftir liggja í baráttunni við hamfarahlýnun jarðar. Því þarf að finna leiðir að takmarkinu. 
 
Kári Gautason.
Bændur hafa oft áður tekist á við áskoranir. Nefnum það þegar bændur sömdu um að frysta upphæðir búvörusamninga eftir hrun til að leggja sitt af mörkum í glímu þjóðarinnar við afleiðingar kasínókapítalismans. Af mörgu er að taka en minnumst til dæmis  niðurskurðar á fé til að útrýma mæði/visnu og strangar reglur til að ná stjórn á kampýlóbaktersýkingum í alifuglarækt. Þá eru ótaldar glímurnar við náttúruhamfarir sem lifa í sameiginlegri minningu þjóðarinnar frá fyrri öldum. Sú hægfara krísa sem nú er við að fást er í eðli sínu ekki frábrugðin fyrri hremmingum. Það þarf sem áður að skilgreina vandamálið, leita lausna og hrinda þeim í framkvæmd. Bændur hafa séð það svartara. Bændur ætla að leysa þessa áskorun, samanber nýlega búvörusamninga við sauðfjár- og kúabændur.
 
Tókst að leysa fæðuvandann á 20. öldinni
 
Heimsendaspár eru ekki nýjar af nálinni. Svartsýni klerkurinn Thomas Malthus hóf þessa tegund bókmennta á ofanveðri átjándu öld með ritgerð sinni um fólksfjölgun og matvælaframleiðslu. Nýlegra dæmi er bók Paul Ehrlich, „The Population Bomb“, árið 1968 þar sem fullyrt var að framleiðni landbúnaðar hefði náð hámarki sínu og fram undan væru hallæri og hungur. Um svipað leyti var græna byltingin að ná hámarki. Niðurstaðan varð sú að þó að mannfjöldinn á jörðinni hafi tvöfaldast frá miðri síðustu öld þá hefur hlutfall þeirra sem eru vannærðir farið úr 30% árið 1970 í 10% í dag. 
 
Þetta er árangur sem náðist með tæknivæðingu landbúnaðar og sérstaklega með kynbótum á nytjaplöntum. Um það bil 40% af mannkyni fær fæðu sína vegna tveggja tæknibyltinga, tilbúins áburðar og hveitiyrkja Normans Borlaugs. Á Íslandi framleiða nú 550 kúabændur helmingi meiri mjólk en 1300 gerðu fyrir 30 árum og með færri kúm í ofanálag. Bú hafa stækkað og allur aðbúnaður búfjár tekið stakkaskiptum til hins betra.
 
Matvælaframleiðsla heimsins á tuttugustu og fyrstu öldinni þarf að glíma við miklar áskoranir. Fyrst ber að nefna að ef ekkert verður að gert mun útblástur vegna landbúnaðarframleiðslu aukast gríðarlega á næstu áratugum sökum fjölgunar mannkyns og breytinga í neysluháttum. Það þarf að nærri tvöfalda matvælaframleiðslu á næstu 30 árum. Það tókst á 20. öldinni með því að brjóta meira land undir matvælaframleiðslu, með kynbótum, með tilbúnum áburði og svo framvegis. 
 
Á 21. öldinni þarf minna að verða meira 
 
En græna byltingin sem þörf er á núna er háð þeim takmörkunum að hún má ekki nota meira land – því það er einfaldlega af skornum skammti. Þá veldur hamfarahlýnun því að stór landsvæði munu verða ónothæf til matvælaframleiðslu. Það verður að nota minna vatn. Landbúnaður notar nú þegar 70–80% af því ferskvatni sem mannkynið hefur aðgang að og víða er gengið á óendurnýjanlega vatnsgeyma. Það verður að nota minni tilbúinn áburð, en framleiðsla á áburði er stór losandi gróðurhúsalofttegunda auk þeirra umhverfisvandamála sem útskolun áburðarefna getur haft í för með sér. 
 
Breytist aðfanganotkun ekki í landbúnaði samfara því að spurn eftir matvælum eykst í takt við spár, þá mun útblástur gróðurhúsalofttegunda aukast gríðarlega. Samkvæmt nýlegri grein í Nature mun umhverfisfótspor landbúnaðar aukast um 50–90% verði þetta niðurstaðan. Sú niðurstaða er ekki bara óásættanleg, hún er stórhættuleg mannkyninu. Við henni verður að bregðast og ekki seinna en strax. 
 
Umræðan þessi misserin lýtur aðallega að því hvort að mannkynið nái að uppfylla Parísarsamkomulagið, sem er yfirlýsing um að halda hlýnun jarðar innan við tvær gráður. Erfitt er að koma orðum að því hversu geigvænlega slæmar afleiðingar af slíkri hlýnun verða. Landbúnaður á alþjóðavísu þarf að standa sig betur í loftslagsmálum. Um 14% af útblæstri gróðurhúsalofttegunda er úr landbúnaði. Jafnframt er landbúnaður ákaflega viðkvæmur fyrir áhrifunum af hlýnandi jörð. Gríðarlegur fjöldi fólks hefur lifibrauð sitt af landbúnaði, eða um 2,5 milljarðar, langflestur í þróunarlöndum sem er ógnað af hlýnun jarðar. 
 
Íslenskur landbúnaður þrói eigin lausnir
 
Samkvæmt skýrslu um útblástur gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum landbúnaði er heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum landbúnaði mikil. Bein losun innan býla er metin sem 2,5 milljónir tonna af koldíoxíðígildum. Þar af er losun úr túnum vegna framræsts jarðvegs 1,8 milljónir tonna. Afgangurinn er innyflagerjun búfjár, losun vegna áburðarnotkunar, geymsla búfjáráburðar og eldsneytisnotkun. Mun meiri óvissa er um losun af beitarlandi. Þar er óvissan  svo mikil að erfitt er að fullyrða neitt umfram það að hún sé að minnsta kosti ekki engin. Stjórnvöld verða að koma myndarlega að rannsóknum á bæði losun úr framræstum mýrum og beitarlandi til að komast nær sannleikanum. Einnig bindingu eða losun kolefnis í túnum og graslendi.
 
Íslenskur landbúnaður glímir við annars konar áskoranir heldur en landbúnaður víðast hvar. Hér er mikið landrými og engin hætta á því að Ísland muni nokkru sinni skorta vatn. Hér er notkun á eiturefnum meiri á golfvöllum en í landbúnaði og úskolun á áburði er engin. Undanfarna áratugi hefur verið mikill vöxtur í lífrænum landbúnaði á heimsvísu. Neytendum blöskrar sá kokteill eiturefna sem notaður er við ýmsa framleiðslu og þó að þeim sé talin trú um að þau séu hættulaus þá segja grímur og gúmmíhanskar þeirra sem bera eitrið á jarðarberin sína sögu. 
 
Hérlendis eru fá lífræn bú og er það kannski ekki furða. Bændum finnst það ósennilegt að þeir geti séð fyrir fjölskyldum sínum ef að þeir mega ekki bera áburð á túnin. Þá finnst mörgum það í hæsta máta órökrétt að það megi nota ólífrænan áburð (til að mynda fosfór) ef hann er með lága leysni en stranglega bannað sé að nota áburð með háa leysni – framleiddan úr sama grjótinu, úr sömu námunni. Sérstaklega þegar það liggur ljóst fyrir að íslenskur jarðvegur er alveg sérstaklega vel til þess fallinn að binda fosfór og engin hætta á að hér myndist dauð hafsvæði við ósa Ölfusár vegna ofauðgunar á næringarefnum.
 
Ég tel að raunar sé rétt að stefna að því að allur íslenskur landbúnaður sé lífrænn – að því gefnu að vottunin sé byggð á gagnreyndum vísindum. Neytendur vilja ekki borða plöntuvarnarefni með morgunkorninu. Það að neytendur hafi áhuga á því að lágmarka vistspor sitt er sóknarfæri fyrir innlendan landbúnað. Það er óþarfi að streitast á móti og benda á að það sé nú ýmsum spurningum ósvarað hvað varðar losun úr framræstum mýrum per hektara. Það sem skiptir máli er hvernig við byrjum? Þeirri spurningu verður reynt að svara í framhaldsgrein.
Strengdir þú nýársheit?
Lesendarýni 10. janúar 2025

Strengdir þú nýársheit?

Samkvæmt 4.000 ára gamalli hefð sem hófst í Babýlóníu, tíðkast í dag víða um hei...

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám
Lesendarýni 8. janúar 2025

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám

Síðastliðinn vetur vann Arev álitsgerð fyrir Landssamband veiðifélaga um gildand...

Loftslagsmál og orka
Lesendarýni 7. janúar 2025

Loftslagsmál og orka

Í Bændablaðinu þ. 7. nóvember er fjallað um áform um uppbyggingu vindmyllugarðs ...

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst
Lesendarýni 3. janúar 2025

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst

Nú er að hefjast málsmeðferð á þjóðlendukröfum ríkisins í eyjar og sker. Þegar k...

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?
Lesendarýni 2. janúar 2025

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?

Viðurkennt er að koltvísýringur (CO2) getur fangað ákveðna tíðni varmaútgeisluna...

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð
Lesendarýni 2. janúar 2025

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð

Geislar sólarinnar voru í aldaraðir nýttir til beinnar upphitunar híbýla. Elstu ...

Er aukefnunum ofaukið?
Lesendarýni 30. desember 2024

Er aukefnunum ofaukið?

Ég (Anna María) bjó lengi í Danmörku, en eftir að hafa flutt til Íslands fór ég ...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2024

Við áramót

Við áramót er gott tilefni til að hyggja að þeim atriðum sem hæst ber í blóðnytj...