Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Til varnar landgræðslustjóra
Lesendarýni 9. maí 2019

Til varnar landgræðslustjóra

Höfundur: Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri

Upphlaup sauðfjárbænda í Biskupstungum vegna fyrirlesturs landgræðslustjóra á Fagráðstefnu skógræktar á dögunum vekur furðu, í ljósi þess að um var að ræða fullorðið fólk. 

Ég hlýddi á fyrirlestur landgræðslustjóra á Fagráðstefnunni og upplifði ekki að í honum væri tilefni til þvílíkrar reiði sem greina má af frásögn Bændablaðsins. Landgræðslustjóri var bara að segja sannleikann, þ.e.a.s. að þrátt fyrir áratugalangt landgræðslustarf væri aðeins búið að græða upp mjög lítinn hluta illa farinna afrétta. Stærstur hluti þeirra væri enn ekki hæfur til nota sem beitiland.

Bændur eiga stóran þátt í því landgræðslustarfi og því ber að hæla, t.d. með landgræðsluverðlaunum og með því að birta fréttir af góðum árangri. En hólið nær einungis til þess sem gert er, ekki til þess sem á eftir að gera. Það getur því verið blekkjandi, því einstök góð verk duga ekki endilega langt til að vega á móti almennt slæmu ástandi. Þau eru „góð byrjun“ eins og sagt er. Uppgræðsla á 2–3% afréttar dugar ekki til þess að öll afréttin sé allt í einu orðin beitarhæf og allt sé i himnalagi.

Við í skógrækt þekkjum þetta mjög vel. Við „tölum upp“ skógrækt með því að gera mikið úr árangrinum, en staðreyndin er sú að sá árangur er aðeins á smáum blettum hér og hvar. Í rúmlega aldarlangri sögu skógræktar höfum við aðeins náð að gróðursetja til skógar á 0,5% landsins og stuðlað að landnámi birkis á um 1,5%. Það þýðir að 98 hundraðshlutar landsins eru enn skóglausir. Landið er svo stórt og aðgerðir til úrbóta bæði dýrar og vinnufrekar. 

Það sama gildir á afréttum. Að einstakir bændur noti nokkra daga á ári til landgræðslustarfa á heiðum uppi er frábært, en gagnast ekki nema á tiltölulega mjög litlum blettum. Þetta er sannleikurinn sem bændur í Biskupstungum sárreiddust svo mjög.

Landgræðslustjóri sagði þennan sannleik í því samhengi að nú stöndum við (mannkynið) frammi fyrir ógnum af völdum loftslagsröskunar og við þurfum að finna leiðir til að draga úr þeim. Meðal leiða er að nota land til að binda koltvísýring úr andrúmsloftinu og varðveita í skógum, öðrum gróðri og mold. Til þess eru nokkrar aðferðir tiltækar. Á Íslandi liggur beinast við að nota til þess auðnir, sandsvæði og annað rýrt og rofið land. En vegna þess hvað aðgerðir eru dýrar og vinnufrekar er nauðsynlegt að stóla á sjálfsáningu og sjálfgræðslu ef takast á að ná að græða upp stór svæði. Það fer ekki saman við að nota sömu svæði jafnframt til beitar, a.m.k. ekki fyrr en gróður er orðinn það öflugur að beitin rýri ekki kolefnisforðann. Því er þörf á breytingum á landnotkun. Það er mikilvægara fyrir framtíð okkar allra að nota land til að binda kolefni en að nota það til að framleiða lambakjöt. 

Víða á láglendi eru mjög vel gróin lönd sem eru lítið eða ekkert nýtt til beitar. Þetta á til dæmis við um Suðurland. Þegar við okkur blasir það stóra verkefni að hamla gegn loftslagsbreytingum er skylda okkar að velja ávallt loftslagsvænni kostinn af tveimur, í þessu tilfelli beit á vel grónum láglendissvæðum í stað beitar á rýrum afréttum. 

Viðbrögð sauðfjárbænda í Biskupstungum við þessum ummælum landgræðslustjóra voru dapurleg. Í fyrsta lagi á þetta ekki að koma neinum á óvart. Í öðru lagi er enginn þjóðfélagshópur undanþeginn þátttöku í aðgerðum í loftslagsmálum, hvorki sauðfjárbændur, bílaeigendur né aðrir. Í stað þess að fara í fýlu og hóta sambandsslitum við Landgræðsluna ættu bændur að skilja orð landgræðslustjóra eins og þau voru meint, sem rýni til gagns og ákall um að breytinga sé þörf. Þar sem breytingarnar snerta hag sauðfjárbænda verða þeir að taka þátt í mótun og framkvæmd þeirra. Best væri að þeir tækju forystu í þeim efnum. Það er engin framtíð í að ríghalda í óbreytt ástand.

Skylt efni: ofbeit | afréttir | Skógrækt

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...