Stefnt er að því að reisa tilgátuþorp á svæðinu
Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkti nýverið að auglýsa tillögu að deiliskipulagi minjastaðar á Gáseyri. Ætlunin er að byggja upp aðstöðu á svæðinu svo hægt verði að taka á móti gestum á minjastaðnum. Stefnt er að því að reisa tilgátuþorp á svæðinu.
Skipulagssvæðið í heild er 33,6 hektarar að stærð og er að hluta til um að ræða friðlýst minjasvæði hins forna verslunarstaðar á Gáseyri. Innan skipulagssvæðisins er fyrirhugað að útbúa aðstöðuhús, kirkju, koma upp salernum, auk þess sem gert verður bílastæði og lagðir göngustígar um svæðið þannig að það verði aðgengilegra fyrir gesti og gangandi.
Í núgildandi aðalskipulagi Hörgársveitar er gert ráð fyrir að á Gásum verði uppbygging tengd miðaldakaupstaðnum sem þar var í eina tíð.
Skipulagstillagan liggur frammi á skrifstofu Hörgársveitar til 21. desember næstkomandi en er einnig aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins.