Um sex hundruð milljónir til íslenskra aðila
Matís og samstarfsaðilar hafa tryggt sér 2,5 milljarða króna í styrki frá rammaáætlun Evrópu um rannsóknir og nýsköpun.
Þrjú alþjóðleg rannsókna- og nýsköpunarverkefni sem Matís kemur að hafa verið valin til fjármögnunar af Horizon Europe- rammaáætluninni. Matís fær um 310 milljónum króna úthlutað og innlendir samstarfsaðilar um 270 milljónum króna. Öll snúa þessi verkefni að því að auka sjálfbærni í fiskveiðum og fiskeldi, draga úr umhverfisáhrifum, og gera greinarnar betur reiðubúnar til að mæta áhrifum loftslagsbreytinga, sem og aukinna krafna um að fyrirtæki sýni fram á að sjálfbærnimarkmið séu höfð að leiðarljósi í rekstri, að því er fram kemur í tilkynningu Matís.
MarineGuardian-verkefnið hefur það að markmiði að efla sjálfbærar fiskveiðar og stuðla að verndun sjávarvistkerfa í Atlantshafi og Norðuríshafi. MeCCAM- verkefnið fjallar um að þróa mótvægis- og aðlögunaraðgerðir fyrir sjávarútvegsfyrirtæki og aðra hagaðila í Evrópu. Þriðja verkefnið sem Matís kemur að ber nafnið OCCAM og er systurverkefni MeCCAM, þar sem því er ætlað að styðja fiskeldisiðnaðinn við mótvægisaðgerðir og aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga.