Umferðin eykst á Hringvegi
Umferð um Hringveg heldur áfram að aukast. Í nýliðnum maímánuði var hún 8,4% meiri miðað við maí árið á undan, en er þó ekki jafnmikið og hún hafði dregist saman í þeim hinum sama maí fyrir ári síðan um ríflega 10%.
Útlit er fyrir að í ár geti umferðin aukist um 8% prósent en yrði eigi að síður um sex prósentum minni en árið 2019. Þess ber að geta að það var metár í umferðinni. Um er að ræða umferð yfir 16 lykilteljarasnið Vegagerðarinnar á Hringvegi.
Mest aukning á Austurlandi
Umferðin jókst mest yfir teljara á Austurlandi, eða um rúmlega 23%, en á síðasta ári hafði orðið tæplega 40% samdráttur á Austurlandi í sama mánuði. Minnst jókst umferð yfir lykilteljarasnið á og í grennd við höfuðborgarsvæðið, eða um 5%. Af einstökum mælisniðum jókst umferð mest yfir mælisnið á Mýrdalssandi, eða um rétt rúmlega 50%.
Frá áramótum hefur umferðin aukist um rúmlega 12% en á sama tíma á síðasta ári hafði safnast upp 15,5% samdráttur. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.