Hve mikilvæg er kolefnisbinding?
Höfundur: Ari Trausti Guðmundsson
I
Algengt er að meta sem svo að skóglendi á Íslandi, kjarr og hávaxin birki- og reynitré hafi einkennt land undir 400-500 m hæðarlínu. Má ætla að mikið af núverandi mólendi, sumar mýrar og stór örfoka svæði hafi borið trjágróður, sennilega milli 20 og 30% landsins eða 25.000 ferkm ef við veljum miðtölu, víða samfellt svo tugum ferkílómetrum skipti. Nú til dags lætur nærri að innlend og erlend tré þekki mörg smásvæði, samtals um 2,0% af landinu eða um 2.000 ferkílómetra, þar af eru birkiskógar 1.500 ferkílómetrar. Um 90% skóglendis er horfið. Það er neikvætt af þeirri einföldu ástæðu að skógur, hvort sem er kjarr eða hávaxin tré, er ein mikilvægasta náttúruauðlind heims. Tré binda meiri koltvísýring, stærðar vegna, en aðrar jurtir og framleiða um leið súrefni í miklum mæli. Tré binda jarðveg af miklum móð, veita skjól og leiða til þess að mólendisgróður festir rætur og heldur velli milli skóglenda og ofan við trjámörk.
II
Gróðursagan bendir til þess að gróðurlendi á Íslandi sé harðgert, en ekki eins viðkvæmt, almennt séð, líkt og oft er gefið í skyn. Til eru viðkvæm vistkerfi, t.d. mosavaxið land, en það mega teljast undantekningar enda þótt mosavaxin hraun geti verið stór. Birkiskógar og undirgróður þeirra eru harðgerð gróðurlendi, mólendisgróður þolir mikið álag, hraun eru fljót að taka á sig grænan slikju, melar eru undrafljótir að gróa upp neðan 400-500 metranna, jafnvel í foksandi þrífast jurtir, og votlendisgróður er seigari en flest annað. Í raun á styrkur og aðlögunarhæfni íslensks gróðurs að hleypa okkur kapp í kinn. Einnig ættum við að hætta að láta eins og flest gróðurlendi þoli hvorki beit né umtalsverða umferð gangandi fólks eða hesta. Þolmörk í þeim efnum eru sannarlega til og kalla á beitarstjórnun og stígagerð eða vegi en það er önnur saga. Akstur er fljótur að skemma gróðurlendi, einkum akstur torfæruökutækja nú orðið, og þar eru þolmörkin afar lág og víðtæk bönn skulu gilda. Þegar öllu er á botninn hvolft er það auðvitað svo að vistkerfin hefðu breyst hvort sem land var numið eða ekki, einfaldlega vegna veðurfarsbreytinga frá 9. öld til 21. aldar, einkum milli 1400 og 1900. Víða í mógröfum sjást tvö birkilurkalög frá þeim tíma er mýrar voru mólendi fyrir þúsundum ára. Sennilega hefði þó stærstur hluti hins forna skóglendis, án íhlutunar manna, haldið velli ofan við 400 m hæðarlínu.
III
Votlendi er vegna margra hliða býsna merkilegt. Sem vistkerfi er það mikilvægt vegna fjölbreyttra jurta og smádýralífs, það er ýmsum fuglategundum afar mikilvægt og hluti af vatnskerfi landsins ofan fastra jarðlaga. Í votlendi binst kolefni, sbr. mó sem allir þekkja. Grunnar tjarnir og mýrlendi er í stöðugri þróun, vatnsstæði gróa upp og verða að votlendi á meðan mýrar geta þornað og orðið að mólendi en breytt vatnsrennsli t.d. framan við hopandi jökla, framkallar nýtt votlendi. Á því leikur enginn vafi að of mikið hefur verið ræst fram af votlendi í byggð og nálægt byggð. Framræslubylgjan sem hófst upp úr 1945 var fram haldið án þess að fyrir lægi vel metin þörf býla fyrir nýtt þurrlendi. Enginn vafi leikur á að of mikið hefur verið ræst fram af votlendi í byggð og nálægt byggð. Tilgangurinn er að efla túnrækt og búa til beitiland. Framræslubylgjan hófst fyrir alvöru upp úr 1945. Henni var fram haldið án þess að fyrir lægi vel metin þörf býla fyrir nýtt þurrlendi. Talið er að grafnir hafi verið um 32.000 km af skurðum! Með því voru um 40% alls votlendis þurrkuð, um 3.900 km2 af 10.000 km2.
Og eftir að býlum tók að fækka fengu framræsluskurðir að vera opnir áfram. Þar með er ekki sagt að hvergi þurfi að ræsa fram land nú til dags. Hitt er alveg ljóst að víða má endurheimta votlendi, með því að loka skurðum eða græða upp blauta sanda. Við framræslu votlendis losnar kolsýringur (koltvíildi) í verulegu magni (milljónir tonna á ári) þegar efnahvörf verða við loftun og þornun.
IV
Allar jurtir með blaðgrænu binda kolsýring úr lofti eins og áður segir, í stofni/stöngli, öðrum vefjum, rótum og jarðvegi við jurtirnar. Skógrækt og uppgræðsla, ásamt endurheimt votlendis, eru þar með árangursríkar aðferðir við að hamla gegn loftslagshlýnun og súrnun sjávar. Tré, stærðarinnar vegna, eru stórtækust. Margvíslegar rannsóknir gefa ýmsar tölur til kynna. Til dæmis má reikna út að 20-25 íslensk tré, sem lifa í 90 ár, þurfi til að kolefnisjafna útblástur eftir notkun meðalbíls í eitt ár. Samkvæmt Vísindavef HÍ (23. nóv. 2000) er bindihraði kolefnis í gróðri hérlendis tiltölulega hár. Í ræktuðum skógum er binding kolefnis mest: 1-3 tonn af hreinu kolefni C/ha á ári). Hér er ha = hektari og C = hreint kolefni. Binding er einnig í gróðri á uppgræðslusvæðum, 0,01-0,5 tC/ha á ári, og í jarðvegi þar sem sáð er í sendnar auðnir verður hún 0,6 tC/ha á ári. Samkvæmt skýrslum Alþjóðlegu loftslagsnefndarinnar (ICCP) er bindihraði við uppgræðslu auðna að meðaltali 0.25 tC/ha á ári. Binding kolefnis við uppgræðslu hérlendis er því meiri en þetta meðaltal og í skógrækt er svipað uppi á teningnum. Talið er að árlega binda megi meira en milljón tonn af kolsýringi á Íslandi með margvíslegum hætti þegar fram í sækir, mest með nýskógrækt og umhirðu skóga sem fyrir eru. Eitt verður þó að ítreka: Kolefnisbinding á ekki að nota sem mótvægi við að t.d. auka notkun olíu og bensíns. Þá notkun verður að minnka og binda samtímis sem mest af kolefni. Ástæðan er einföld. Við verðum að hægja á aukningu kolsýrings í lofti og lækka magn þess sem fyrir er.
V
Endurheimt landgæða, þar með talin skógrækt snýr að mörgum aðilum, ríki, sveitarfélögum, margs konar áhugafólki og auðvitað bændum. Starfið í heild krefst skipulags og lágmarks samkomulags ólíkra skoðana- og notendahópa. Nokkur hundruð skógarbændur eru að störfum og á mörgum býlum er stunduð skógrækt til að bæta og fegra næsta umhverfi. Enn fleiri bændur taka þátt í uppgræðslu auðna eða illa farins lands. Smám saman verður lífi blásið aftur í opinbera aðstoð við að endurheimta votlendi. Á öllum þessu sviðum er rúm fyrir enn meiri vinnu bænda og framlög þeirra. Vörslumenn lands geta áorkað miklu, í hlutfalli við umsvif og efnahag. Er ekki kominn tími til þess að setja saman raunhæfar áætlanir fyrir landshluta um hvernig binda megi kolefni í landbúnaði á sem árangursríkastan og hagkvæmastan hátt?