Spá um evrópskan landbúnað
Evrópusambandið segir landbúnað innan vébanda ESB seiga atvinnugrein sem óðum aðlagi sig loftslagsbreytingum, kröfum um sjálfbærni og breyttri eftirspurn neytenda.
Forsvarsmenn landbúnaðarmála innan ESB segja skammtímahorfur evrópskra landbúnaðarmarkaða „á brothættri og hægfara leið til stöðugleika að nýju“. Eftir alvarleg áföll og miklar sveiflur undanfarin ár sjáist jákvæð merki um stöðugleika þeirra þar sem aðfangakostnaður hafi lækkað jafnt og þétt undanfarna mánuði og náðst hafi nokkur tök á matvælaverðbólgu.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gefur, undir lok hvers árs, út skýrslu um horfur til lengri og skemmri tíma í landbúnaði, þar sem settar eru fram áætlanir fyrir helstu landbúnaðargreinar ESB.
Vöxtur í eftirspurn
Í síðustu skýrslu segir að almennt þjóðhagslegt umhverfi og matvælaverð bendi til mögulegs vaxtar í eftirspurn landbúnaðarafurða í flestum greinum innan sambandsins. Tekið er fram að horfurnar séu engu að síður háðar mikilli óvissu sem tengist veðuratburðum, geopólitískum átökum og dýra- og plöntusjúkdómum.
Spáð er breytingum á neyslumynstri innan ESB. Búist er við að kjötneysla minnki lítillega, aðallega í nautakjöti og svínakjöti, en talið er að neysla plöntupróteins aukist. Gert er ráð fyrir að neysla mjólkurafurða haldist stöðug, með breyttum venjum og fleiri nýjum neytendum.
Markaðir leita stöðugleika
Fram kemur að landbúnaðarmarkaðir sýni aftur merki um stöðugleika. Matvælaverðbólga hafi farið minnkandi og matvælaverð haldist tiltölulega stöðugt í flestum vörutegundum undanfarna mánuði, þó að verð sé að meðaltali 32 prósentum hærra m.v. árið 2020.
Þá sé áburðarmarkaður ESB smám saman að ná stöðugleika á nýjan leik og viðskiptaflæði að komast í eðlilegt horf. Hins vegar sé hagkvæmni enn áhyggjuefni fyrir bændur, fyrst og fremst vegna lækkandi afurðaverðs í akuryrkju. Minni uppskera á ýmsum svæðum innan Evrópu árið 2024 gæti valdið sjóðstreymisvandamálum fyrir akurræktarbændur og það haft bein áhrif á áburðarkaup nú í vor.
„Þó að ESB haldi áfram að vera stórútflytjandi landbúnaðarmatvæla og sé áfram sjálfbjarga um flestar hrávörur eru merkjanlegar breytingar í ýmsum landbúnaðargreinum. Meðal annars er samdráttur í heildarkjötframleiðslu, stöðugleiki í kornframleiðslu, mjólkurframleiðsla stöðug og í hámarki, og aukning í alifuglarækt. Þótt óvissa um þróun þjóðhags-, viðskipta- og loftslagsbreytinga sé viðvarandi sýnir skýrslan einnig framfarir fyrir nokkra umhverfis- og loftslagsvísa, sem undirstrikar umskiptin í átt að umhverfisvænni landbúnaði,“ segir í skýrslunni.
Spáð er að raunvöxtur landsframleiðslu í ESB nái stöðugleika til meðallangs tíma og verðbólga fari aftur í tveggja prósenta markmið. Á þessum grunni eru markaðsáætlanir fyrir landbúnað ESB þróaðar með landbúnaðarhagfræðilegum líkanaaðferðum.
Minna korn og repja
Gert er ráð fyrir að notkun á ræktanlegu landi ESB breytist nokkuð næsta áratuginn. Spáð er að landnotkun færist frá korni og repju yfir í sojabaunir, önnur olíufræ og belgjurtir, vegna minni eftirspurnar eftir korni í fóður og lífeldsneyti. Búist er við að flatarmál landbúnaðarlands undir varanlega ræktun muni aukast, á meðan flatarmál varanlegs graslendis og mögulegs ræktarlands gæti haldist stöðugt.
Talið er að uppskera korns og olíufræs muni aukast lítillega næsta áratuginn, vegna þróunar í nákvæmnisbúskap, stafrænnar ræktunartækni og bætts jarðvegsheilbrigðis, sem vegi upp á móti loftslagsbreytingum, skertu framboði og hagræðingu í aðföngum landbúnaðar. Gert er ráð fyrir að uppistaðan í kornframleiðslu verði maís og bygg og hveitiframleiðsla taki við sér eftir samdrátt. Þá er talið að sykurframleiðsla dragist hægt saman næsta áratug, vegna rýrnandi uppskeru sykurrófa og þess að neytendur kjósi sykurminna mataræði.
Alifuglaframleiðslan styrkist áfram
Búist er við að heildarkjötframleiðsla innan ESB minnki á næstu árum. Því er spáð að framleiðsla nautakjöts muni dragast saman vegna aukinnar sjálfbærni, lítillar arðsemi og strangara regluverks. Á sama hátt er gert ráð fyrir að neysla nautakjöts minnki, vegna mikils framboðs og hás verðs. Reiknað er með að neysla svínakjöts dali á komandi árum vegna aukinna krafna um sjálfbærni, en búist er við að neysla á alifuglum aukist þar sem greinin hafi betri ímynd og afurðir séu ódýrari en annað kjöt.
Margt bendir til að neysla kinda- og geitakjöts haldist stöðug á komandi árum, vegna viðvarandi neyslumynsturs sem tengist menningarhefðum í ríkjum ESB.
Mjólkurframleiðsla hefur náð hámarki
Spáð er að mjólkurframboð ESB aukist lítillega í ár. Miðað við eðlileg veðurskilyrði er gert ráð fyrir að samdráttur hjá mjólkurbúum, um 0,7 prósent, vegi á móti aukinni mjólkurframleiðslu sem áætluð er um 1 prósent. Búist er við að mjólkurframleiðsla ESB minnki til lengri tíma litið. Hins vegar muni greinin í auknum mæli leggja sitt af mörkum til umhverfislegrar sjálfbærni matvælakerfa og skapa aukinn virðisauka í greininni. Horft er til þess að neysla mjólkurafurða í ESB haldist stöðug. Breytingar í lífsstíl og vaxandi heilsuvitund muni auka eftirspurn eftir hollari mjólkurvörum.
Líkur eru leiddar að því að framleiðsla ESB á ostum og mysuvörum haldi áfram að vaxa, þó hægar en áður hefur verið.
Áskoranir í grænmetis- og ávaxtaræktun
Ávaxta- og grænmetisframleiðsla er sögð standa frammi fyrir áskorunum sem tengjast erfiðri veðráttu, auknum orkukostnaði, takmörkunum á notkun varnarefna og viðgangi meindýra.
Engu að síður er búist við að neysla á ferskum afurðum innan ESB aukist, vegna aukinnar vitundar neytenda um kosti holls mataræðis. Eplaframleiðsla gæti haldist stöðug, en búist er við að ferskju- og nektarínuframleiðsla minnki.
Spáð er að framleiðsla ESB á ólífuolíu aukist lítillega næsta áratug, vegna aukningar á uppskeru. Líklegt er talið að vínframleiðsla og vínútflutningur ESB minnki, og valdi þar helst minni áfengisneysla yngri kynslóða og breyttar neysluvenjur.