Varað við áhrifum lagabreytinga
Samtök alifuglaframleiðenda í ESB (AVEC) vara við áhrifum hugsanlegra breytinga á Evrópusambandslöggjöf um dýravelferð.
Í vísindalegu áliti sem unnið var að beiðni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er fjallað um ýmsa áhrifaþætti dýravelferðar í alifuglaframleiðslu. Skilgreindir voru mælikvarðar út frá dýravelferðarsjónarmiðum og mat lagt á margvíslega þætti þeirra í þeim framleiðslukerfum sem í gildi eru innan Evrópusambandsins. Niðurstöður þeirra eru ráðgefandi um tiltekin viðmið í aðbúnaði og framleiðsluferlum. Þar kemur meðal annars fram að samkvæmt mælikvörðum rannsóknarinnar ættu fuglarnir að geta lifað stöðugu ákjósanlegu lífi samkvæmt þessum tilteknu mælikvörðum með þéttleika sem miðar við 11 kílógrömm á fermetra. Í dag miða reglugerðir við hámarksþéttleika upp á allt að 42 kg/ fm í mörgum löndum. Niðurstöður höfunda eru því tilmæli um að lækka þennan þéttleikastuðul töluvert.
Myndi leiða til hruns í kjúklingaframleiðslu í Evrópu
Þessi tilmæli þykja talsmönnum AVEC nokkuð langsótt og hafa gagnrýnt aðferðafræði að baki álitinu. Þá hafa þeir bent á ýmsar afleiðingar þess ef reglugerðum um aðbúnað yrði breytt og þéttleikastuðullinn yrði lækkaður niður í 11 kg/fm. Í ársskýrslu samtakanna kemur fram að ef farið yrði að fullu að þessum ráðleggingum í Evrópusambandinu gæti það leitt til þess að um 70% af framleiðslu alifuglakjöts yrði hætt í Evrópu. Hin þrjátíu prósentin yrðu framleidd með svo miklum tilkostnaði að eingöngu lítill hluti íbúa Evrópu hefðu efni á afurðinni. Þá myndu slíkar breytingar síst af öllu stuðla að sjálfbærni matvælaframleiðslu Evrópu, sem yrði háð innflutningi á kjúklingi frá öðrum heimshlutum, þar sem framleiðsla er óumhverfisvænni og ítök Evrópusambandsins í að framfylgja löggjöf um dýravelferð væru engin.
Meira samráð
Birthe Steenberg, framkvæmdastjóri AVEC, hefur kallað eftir viðurkenningu á þeim árangri sem nú þegar hefur náðst í Evrópu. Einnig hefur hún bent á að stefnumótendur skorti raunhæfari sýn á núverandi markaði.
Þannig bendir hún á að þegar neytendur séu spurðir hvort þeir vilji að búfé í Evrópu búi við hærri dýravelferðarkröfur þá sé svarið játandi, en þegar þeir hinir sömu neytendur fara í matvörubúðina kaupi þeir ekki dýrari vöruna sem framleidd er með tilheyrandi hærri dýravelferð. Þess í stað kaupa þeir ódýrari hefðbundnari vöru. Hún segir evrópska alifuglaframleiðendur tilbúna að framleiða vörur undir hærri dýravelferðarkröfum að því tilskildu að til sé markaður til að selja slíkar vörur.
Samtökin hafa óskað eftir meira samráði stefnumótenda við alifuglaframleiðendur. Þau buðu meðal annars Janusz Wojciechowski, fulltrúa landbúnaðarstjórnar í Evrópusambandinu, til opins fundar um dýravelferð í alifuglabúskap, þar sem hann lét hafa eftir sér að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætti að hlusta betur á málflutning og hagsmuni framleiðenda enda skiptu þeir sköpum fyrir matvælakerfi Evrópu.
Íslenskar reglugerðir um aðbúnað við alifuglarækt eru sniðnar eftir evrópskri fyrirmynd. Kröfur um hámarksþéttleika eru þó umtalsvert lægri hérlendis og er sambærilegt við Noreg og Svíþjóð.