Vaxandi áhugi á byggrækt
Byggrækt á Íslandi hefur jafnt og þétt vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár og skiptir þar án efa mestu máli almennur áhugi bænda á nýsköpun í ræktun.
Aukinn áhuga má einnig merkja í ræktun annarra nytjaplantna svo sem repju og hafra. Þann ágæta árangur sem íslenskir bændur hafa náð í ræktun byggs má án efa skýra með ýmsum þáttum eins og batnandi umhverfisskilyrðum til ræktunar, bættum búskaparháttum, prófunum á erlendum byggyrkjum auk kynbóta sérstaklega fyrir íslenskar aðstæður.
Niðurstöður 30 ára ræktunar
Í frétt á vef Landbúnaðarháskóla Íslands vegna útkomu skýrslu um átaksverkefni í byggrækt á Íslandi á árunum 2013–2018 segir að starfsmenn skólans Íslands leggi, eftir fremsta megni, lóð á vogarskálar nýsköpunar í landbúnaði á ýmsum sviðum og hafa meðal annars stundað rannsóknir á byggi undanfarna áratugi.
Í skýrslunni birta höfundar yfirlit yfir niðurstöður úr samanburðartilraunum á byggi sem fram hafa farið víðs vegar um landið á yfir 30 ára tímabili. Farið er yfir helstu niðurstöður sjúkdómsrannsókna, ásamt því að framtíð byggrannsókna og nýtingar eru reifaðar.
Uppskera aukist og ræktunartímabilið styst
Niðurstöður sýna að uppskera í tilraunum hefur aukist á sama tíma og ræktunartímabilið styttist. Íslenskar kynbótalínur skila ekki aðeins meiri uppskeru í tilraunum heldur skríða þær einnig fyrr sem leiðir til þess að þær eru uppskornar fyrr.
Niðurstöðurnar sem kynntar eru í skýrslunni undirstrika bæði kosti og galla íslenska kynbótaverkefnisins og eru því mikilvægar fyrir áframhald yrkjatilrauna hérlendis. Niðurstöðurnar undirstrika jafnframt að næsta stóra áskorun kynbótafólks er að auka sjúkdómsþol í íslenskum byggyrkjum, enda sýna rannsóknir að fjölbreytileiki sjúkdómsvaldandi sveppa er mun meiri hérlendis en ætla mætti og fyrirsjáanlegt að sjúkdómsálag aukist umtalsvert eftir því sem byggrækt eykur útbreiðslu sína.
Skýrsluna í heild má finna á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands.