Vegagerðin framkvæmir fyrir 27 milljarða í ár
Heilmiklar framkvæmdir eru boðaðar hjá Vegagerðinni nú á árinu 2021. Þær nema alls ríflega 27 milljörðum króna, þar af eru 15,5 milljarðar til nýframkvæmda og um 12 milljörðum verður varið til viðhalds.
Væntanlegar framkvæmdir voru kynntar á útboðsþingi Vegagerðarinnar fyrir skemmstu og frá þeim er sagt á vefsíðu hennar.
Breyting á vegstæði við Hornafjarðarfljót
Stærsta einstaka verkið hjá Vegagerðinni er breyting á vegstæði Hringvegarins um Hornafjarðarfljót. Það er svokallað samvinnuverkefni opinberra og einkaaðila og mun kosta um sex milljarða. Sú leið mun stytta Hringveginn um tíu til tólf kílómetra. Vegagerðin hyggst verja 2,2 milljörðum króna til framkvæmda við Suðurlandsveg en það er hluti samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá 2019.
Þverun Þorskafjarðar og Axarvegur
Jafnframt er áætlað að verja 3,5 milljörðum til áframhaldandi framkvæmda á veginum um Kjalarnes og allt að 3 milljörðum til þverunar Þorskafjarðar og sömu fjárhæð til Axarvegar sem er samvinnuverkefni.
Á næstu þremur árum verður farið í endurbætur á höfninni í Þorlákshöfn og áætlanir gera ráð fyrir að til þess verði varið tæpum 2,8 milljörðum króna.