Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Fækkað hefur verulega í grágæsastofninum undanfarinn áratug. Verndaraðgerðir eru hafnar.
Fækkað hefur verulega í grágæsastofninum undanfarinn áratug. Verndaraðgerðir eru hafnar.
Mynd / Óskar Andri Víðisson
Fréttir 19. júlí 2023

Veruleg stytting veiðitíma á grágæs

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Til stendur að stytta veiðitímabil á grágæs verulega og banna sölu afurða af henni, gangi fyrstu tillögur stjórnvalda eftir. Grágæsastofninn stendur völtum fótum vegna fækkunar.

Umhverfis-, orku- loftslagsráðuneytið boðaði hagsmunaaðila til kynningarfundar 7. júlí og var efnið að kynna mögulegar aðgerðir vegna stöðu grágæsastofnsins. Til fundarins komu m.a. fulltrúar Bændasamtaka Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, SKOTVÍS og Fuglaverndar.

Veiðitímabilið stytt í báða enda

Samkvæmt upplýsingum Bændablaðsins var á kynningarfundinum til umræðu að stytta veiðitímabilið í 10. september til októberloka og setja algert bann við sölu afurða af grágæsum. Veiðitímabilið hefur fram til þessa verið 20. ágúst til 15. mars, á bæði grágæs og heiðagæs.

Sigurður Ármann Þráinsson.

Sigurður Ármann Þráinsson, deildarstjóri stefnumótunar og innleiðingar hjá ráðuneytinu, segir til skoðunar mögulegt sölubann á grágæs og breytingu á veiðitíma. Nokkrar dagsetningar hafi verið til athugunar en ekki sé ljóst hver niðurstaðan verði. Tillaga þar um fari í samráðsgátt stjórnvalda, til kynningar í allt að hálfan mánuð.

„Þegar þetta er komið úr samráðsgáttinni þurfum við að fara yfir athugasemdir og taka ákvörðun um hvort og hvað verður gert,“ segir hann. Má því líklega búast við lokaniðurstöðu um aðgerðir ráðuneytisins fljótlega í ágúst, eða aðeins nokkrum dögum áður en veiðitímabilið átti að hefjast.

Sölubann sem fyrsta aðgerð

Áki Ármann Jónsson.

Viðbrögð SKOTVÍS við hugmyndum ráðuneytisins um aðgerðir eru að sölubann ætti að vera nægjanlegt sem fyrsta skref. „Í ljósi þess að fjölgun var í talningum 2021 í Bretlandi og að veiðin hafi dregist saman úr 45.000 fuglum í 26.000 árið 2022, ætti sölubann eitt og sér að duga sem fyrsta skref,“ segir Áki Ármann Jónsson, formaður SKOTVÍS. „Veiðarnar í dag valda ekki stórfelldri fækkun en sjálfsagt að setja á sölubann til að hjálpa stofninum að ná sér á strik.“ Félagið telur að það að fara í margar aðgerðir í einu geri ómögulegt að meta árangurinn af hverri aðgerð fyrir sig. „Við höfum reynslu af því vegna veiðistjórnunar á rjúpu,“ segir Áki.

Einnig þurfi sterk rök að liggja fyrir um styttingu veiðitíma og af hverju sölubann eitt og sér ætti ekki að duga. Margir veiðimenn hafi þegar skipulagt veiðitíma í haust og breyting á honum kæmi illa við marga veiðimenn. „Það væri ákjósanlegt að slík aðgerð ætti sér lengri aðdraganda og betri kynningu,“ segir Áki. Hann bendir jafnframt á að uppstoppun fugla ætti að vera undanskilin sem afurð, þar sé um að ræða fullnýtingu bráðar og auki ekki veiðiálag. Eigi þetta líka við um rjúpu.

Grágæs fækkað um 40% á 11 árum

Bændasamtök Íslands hyggjast bíða átekta og sjá hver niðurstaða ráðuneytisins verður áður en brugðist verður við af þeirra hálfu. Stytting veiðitíma, einkum fram á haust, gæti þó augljóslega reynst bændum óþægur ljár í þúfu vegna ásóknar grágæsar í akra.

Gæsaveiðitímabilið átti sem fyrr segir að hefjast eftir skamman tíma og ljóst að ákvörðun um styttingu veiðitímabilsins og afurðabann gerist nokkuð bratt ef af verður.

„Grágæs hefur fækkað um 40% frá því árið 2012, úr 100 þúsund í 60 þúsund,“ segir Sigurður. Grágæsastofninn sé þó ekki kominn inn á íslenskan válista enda hafi sá listi ekki verið endurskoðaður nýlega.

Sett var alþjóðlegt bann á grágæsaveiði um síðustu áramót en Bretland og Ísland undanþegin því banni með skilyrðum. „Á vegum AEWA-samningsins (Agreement on the Conservation of African- Eurasian Migratory Waterbirds) er búið að samþykkja að sett verði veiðibann á grágæsina,“ segir hann og heldur áfram: „Ísland og Skotland gerðu fyrirvara við þá ákvörðun þannig að hún gildir í sjálfu sér ekki hér á landi og ekki í Bretlandi. En það bætir ekki ástand stofnsins. Við hugsum þetta sem aðgerðir fram að því að búið verði að gera alþjóðlega stjórnunar- og verndaráætlun fyrir grágæsastofninn á Íslandi og í Bretlandi.“

Horft sé til þess að slík áætlun verði tilbúin og samþykkt haustið 2025. Þetta sé því tveggja ára ferli. „Halda þarf vel á spöðunum því þetta er vinna sem ætti að taka þrjú til fjögur ár. Áætlun okkar hljóðar upp á að hafa þetta tilbúið fyrir næsta aðildarfund AEWA-samningsins,“ segir Sigurður.

Skylt efni: grágæs

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...