Æ fleiri gefa grænt ljós á vistkjöt
Vistkjöt sækir í sig veðrið og víða um heim er verið að gefa leyfi til ræktunar og sölu þess til manneldis. Vistkjöt er ræktað úr stofnfrumum dýra og blandað við t.d. plöntuprótein.

„Það er ótrúlega spennandi að fylgjast með þessari þróun,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir, forstjóri ORF Líftækni. Miklar framfarir hafa orðið í vistkjötsgeiranum síðan fyrsta opinbera smökkun almennings á vistkjöti í Evrópu átti sér stað í húsakynnum ORF Líftækni í Reykjavík um miðjan febrúar 2024. Var það í samstarfi við ástralska nýsköpunarfyrirtækið Vow sem er frumkvöðull í vistkjötsræktun og hafði þá þegar fengið framleiðslu sína skilgreinda sem örugg matvæli í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi.
„Um tveimur mánuðum síðar var svipuð smökkun haldin í Hollandi, sem var fyrsta opinbera smökkunin í Evrópusambandinu. Hollensk stjórnvöld hafa verið nokkuð framarlega í að styðja við þessa tegund nýsköpunar og þar eru vistkjötsfyrirtæki framarlega í þessum efnum,“ útskýrir Berglind. Í janúar sl. var m.a. ákveðið að byggja vistkjötsframleiðslueiningu í Hollandi.
Mark Post, prófessor við Maastricht-háskóla í Hollandi, kynnti vistkjötshamborgarann fyrst til sögunnar árið 2013. Hann var búinn til úr rúmlega 20 þúsund vöðvaþráðum og tók tvö ár að rækta þá. Rannsóknirnar að baki sýndu fram á að líklega væri unnt að búa til neysluhæft vistkjöt þegar fram liðu stundir.
Ræktuð svínafita í plöntuprótein
„Margt hefur gerst í þessum geira á undanförnum mánuðum. Til dæmis fékk Vow, sem framleiddi kjötið sem við borðuðum í fyrra, markaðsleyfi í Singapúr í apríl það ár, og sömuleiðis í Hong Kong. Þegar við smökkuðum þetta kjöt var hvergi verið að selja það, en nú er það selt á veitingahúsum í báðum löndum,“ segir Berglind. Um síðustu áramót hafi vistkjöt verið selt á um 15 veitingahúsum í löndunum og stefndi Vow þá að því að fjölga þeim í 30 á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs. Þannig sé smám saman verið að bæta í og áhersla á fínni veitingastaði fyrst um sinn. Þá stefnir fyrirtæki að sölu vistkjöts á almennum markaði, jafnvel í matvöruverslunum, innan tíðar.
Stjórnvöld í S-Kóreu settu nýverið á laggirnar reglugerðaumhverfi sem tekur til vistkjöts. Þann 14. mars barst sú fregn að þau hygðust verja um tíu milljónum evra í þróun vistkjötsframleiðslu þar í landi.
Hinn 7. mars var svo veitt markaðsleyfi fyrir framleiðslu vist-svínafitu í Bandaríkjunum. „Bandaríska fyrirtækið Mission Barns er að hefja markaðssetningu á vöru sem byggð er á plöntupróteinum og í þessa vöru er sett innan við 20% hlutfall svínafitu (ræktuð af stofnfrumum svína) sem fyrirtækið framleiðir. Svínafitan gefur þessum plöntuafurðum hið góða bragð sem vantar oft í plöntuvörurnar. Þau ætla að byrja á kjötbollum, beikoni og pepperoni,“ segir Berglind.
Í mánuðinum bárust einnig, að hennar sögn, þau tíðindi frá Bretlandi að taka eigi vel utan um markaðsleyfisumsóknir og verði það gert í samstarfi við vistkjötsfyrirtæki bæði þar í landi og í Evrópusambandinu.

Leyfisumsókn afgreidd frá ESB um áramót
Franska fyrirtækið Gourmey sótti um markaðsleyfi fyrir vistkjöt (Foi gras) innan Evrópusambandsins, hið fyrsta þar, í fyrrasumar og reiknað er með að um 18 mánuði taki að afgreiða umsóknina. Verði hún veitt er líklegt að Ísland gæti orðið meðal þeirra landa sem heimila markaðssetningu vistkjöts.
Að sögn Berglindar er enn framleitt tiltölulega lítið magn vistkjöts á heimsvísu. „Þeir sem framleiða á markað í einhverju magni eru Vow sem eru leiðandi í uppskölun framleiðslunnar. Við gerum ráð fyrir að tæplega 1% af kjöti í heiminum verði vistkjöt árið 2032.
Það er afar mikið framleitt af kjöti í heiminum og vistkjöt í rauninni hugsað sem valmöguleiki en ekki að það eigi að taka yfir kjötframleiðslu á veraldarvísu,“ segir hún.
Hraðinn í vistkjötsþróun og -tækni hefur þannig aukist jafnt og þétt og nú gerast hlutirnir hratt. Því hillir undir að unnt verði að framleiða vistkjöt í einhverju magni. Líklegt er þó að margar af fyrstu vörunum verði blandaðar.

ORF í uppskölun
ORF Líftækni hefur framleitt vaxtarþætti/frumuvaka (sérvirk prótein) um árabil og selur fyrirtækið þá nú til fjölmargra fyrirtækja í vistkjötsframleiðslu, víða um heim.
Fyrirtækið sótti árið 2019 um 2,5 milljóna evra styrk til Evrópusambandsins til þróunar vörulínu byggða á vaxtarþáttum sem henta til framleiðslu vistkjöts og varð það upphafið að miklu samstarfi við slíka framleiðendur á alþjóðlega vísu. Eru dýravaxtarþættir orðnir snar þáttur í verkefnum ORF Líftækni og þar á bæ nú unnið að uppskölun á vörulínunni en fyrirtækið er nú orðið leiðandi í heiminum á þessu sviði. Er fyrirtækið í fjármögnunarferli til að geta framleitt vaxtarþætti í meira magni, þar sem vistkjötsframleiðendur þurfa meira af þeim í vaxandi framleiðslu. Markmið ORF er að fara úr örfáum tugum gramma í hálft tonn árið 2032.
ORF Líftækni er eina fyrirtækið sem framleiðir vaxtarþætti í byggplöntum og hefur nú verið sótt um einkaleyfi á því. Berglind segir að fyrirtækið hafi náð mjög góðum tökum á þeirri tækni sem fylgi því að vinna með bygg. Fremur erfitt sé að erfðabreyta byggi og tekið hafi sex ár að þróa kerfið, á árunum 2001 til 2007. Framleiðsluferlið hlaut ISO-vottun í nóvember 2024. Sextán manns starfa hjá ORF Líftækni, að uppistöðu til vísindafólk.